Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 15:00:00 (2589)

     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp vegna þess að það var óskað eftir því af einum hv. þm. að gera athugasemd í andsvari við ræðu þingmanns sem talaði hér áðan og forseti vitnaði þá til 56. gr. þingskapa þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Forseti getur leyft þingmönnum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta.``
    Forseti sagði þá að viðkomandi þingmaður gæti ekki veitt andsvar þar sem hann hefði ekki beðið um orðið strax að lokinni ræðu þingmannsins. Það má vel vera að svo beri að túlka þingsköpin en ég vil benda á að forsetar hingað til hafa ekki túlkað þingsköpin á þennan hátt því þingmönnum hefur verið leyft að biðja um andsvar hvenær sem er á þessu korteri ef ég man rétt eftir. Hins vegar er talað um það hér mjög skýrt að andsvar megi ekki standa lengur en í 15 mínútur og forsetar hafa auðvitað fylgt því eftir. En ég óska eftir því að þetta verði athugað vegna þess að það er ómögulegt fyrir okkur sem þingmenn að ekki sé ljóst hvenær við megum biðja um andsvar. Ég vil láta þess getið að mín skoðun er sú að þetta beri að túlka þannig að þingmenn megi biðja um orðið um andsvar hvenær sem er á þessu korteri en það er auðvitað ekki tekið fram nákvæmlega í þingsköpum en hefði auðvitað þurft að vera skýrara. Það sem kannski skiptir mestu máli er að það sé ekki túlkað misjafnt af forsetum.