Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 15:06:00 (2593)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hér hafa verið sett fram af hálfu tveggja þingmanna og ég hlýt að árétta hversu nauðsynlegt er fyrir þingmenn að allir forsetar túlki þingsköp með sama hætti. Það er óviðunandi að forsetar hafi mismunandi túlkun á sama ákvæði og það fari því eftir því hver sitji í forsetastól hver framkvæmd þeirra er. Ég sat í gær undir umræðum um GATT og þar voru nokkrum sinnum andsvör sem forseti, þá eins og ævinlega, hélt sig stíft við að stæði ekki lengur en í 15 mínútur. Hins vegar veitti forseti mönnum andsvarsrétt þó um það væri beðið síðar en samkvæmt

skilningi þess forseta sem nú situr.
    Ég hygg að núv. forseti hefði haft gott af því að sitja í gær í þingsölum og fylgjast með þessu þó ekki væri nema til að fylgjast með því hvernig aðalforseti túlkar þingsköp.
    Ég ætla ekki að deila við forseta um það hvernig beri að skilja þessa lagagrein. Ég legg áherslu á að það sé með sama hætti af hálfu allra forseta. En fyrst sá eindregni vilji kemur fram af hálfu forseta að virða beri lög vil ég minna forseta á það sem reyndar hefur komið fram, bæði í þessari umræðu og fyrri umræðu um Hagræðingarsjóð, að það eru í gildi lög í landinu sem mæla fyrir um það hvernig eigi að standa að því að endurskoða lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Forseti sem fulltrúi löggjafarvaldsins hlýtur, sem löghlýðinn borgari og með mikinn vilja til þess að lög séu virt, að ganga stíft eftir því að hæstv. sjútvrh. virði þau lög sem Alþingi setti honum til þess að fara eftir og móta þann farveg sem þessi vinna á að vera í. Það hefur ekki verið gert eins og rækilega hefur verið rakið oftar en einu sinni og ég hlýt að spyrja hæstv. forseta: Mun hann beita sér fyrir því úr því sem komið er að lög verði virt varðandi endurskoðun á Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins?