Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 15:13:00 (2599)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
     Herra forseti. Ég leyfi mér að blanda mér aðeins í þessar umræður og núna ræðu hæstv. sjútvrh. Það er staðreynd sem ekki verður hrakin og fyrir því liggur fjöldi vitna og skjalfest gögn hygg ég vera í sjútvn. þingsins að ákvæði um samráð við aðila varðandi tilurð þessa frv. hæstv. sjútvrh. voru brotin, þau voru ekki virt. Ekki var haft það lögboðna samráð við hagsmunaaðila og sjútvn. þingsins varðandi endurskoðun á lögum um Hagræðingarsjóð sem skýrt er kveðið á um í lögum. Það að breyta lögunum í grundvallaratriðum eins og þetta frv. gerir er að sjálfsögðu í þeim skilningi endurskoðun á lögunum. Að sjálfsögðu breytir það lögunum. Ég hygg því að hæstv. sjútvrh. væri fyrir bestu að lenda ekki inn í deilum um þetta efni. Það kann að vera rétt að einstakir þingmenn hafi ekki gert formlegar athugasemdir við að málið kæmi á dagskrá enda komu að hluta til fram upplýsingar um það að þessi lagaákvæði hefðu verið brotin eftir á, þ.e. þegar sjútvn. þingsins fór að kalla til sín hagsmunaaðila og kanna tilurð málsins.
    Það er svo að lokum að mínu mati hárrétt að vísa því til forseta þingsins að líta á þetta mál, vegna þess að hér er m.a. kveðið á um lögboðið samstarf við þingið eða eina af nefndum þess. Forsetar þingsins sem yfirmenn þingsins eiga að sjálfsögðu að gæta hagsmuna þingnefndanna og sjá til að ekki sé brotinn réttur á þeim eins og á þinginu sjálfu.