Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

62. fundur
Miðvikudaginn 08. janúar 1992, kl. 15:15:00 (2601)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
     Herra forseti. Það er í sjálfu sér að æra óstöðugan að halda áfram deilum um þetta efni svo skýrt sem þetta álitaefni liggur fyrir. Kveðið er á um það í lögum að þau lög sem hér um ræðir skuli tekin til endurskoðunar með sama hætti og lög um fiskveiðistjórnun.

Sú endurskoðun mun að sjálfsögðu fara fram fyrir lok þessa árs eins og lög kveða á um í samráði og að höfðu samráði við hlutaðeigandi hagsmunaaðila og sjútvn. Alþingis. Þetta ákvæði girðir hins vegar ekki fyrir það að ríkisstjórn á hverjum tíma beiti sér fyrir breytingum á lögunum á því tímaskeiði sem heildarendurskoðun á að fara fram. Með öðrum orðum, ákvæðið um endurskoðun fyrir árslok 1992 girðir á engan hátt fyrir það að ríkisstjórn á hverjum tíma breyti eða geri tillögur til Alþingis um að breyta lögunum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta er gert. Á tíma fyrri ríkisstjórnar var flutt á Alþingi af sjútvrh. frv. til laga um breytingar á lögum um Hagræðingarsjóð án þess að haft væri um þá breytingu samráð við hagsmunaaðila eða sjútvn. Alþingis. Þingið hefur því áður tekið afstöðu til breytinga af þessu tagi og með því túlka ákvæðið á þennan augljósa hátt. Enda getur ákvæði um endurskoðun fyrir tiltekinn tíma ekki bundið hendur ríkisstjórnar eða Alþingis til að beita sér fyrir breytingum á lögum áður en sá tími rennur út. En ákvæðinu um endurskoðun fyrir árslok á þessu ári verður að sjálfsögðu fylgt fram með þeim breytingum sem á hafa orðið bæði til bráðabirgða í tíð fyrri ríkisstjórnar og eins þeim breytingum sem nú er verið að fjalla um.