Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 13:59:00 (2607)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vildi fyrst svara andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, ég hafði ætlað mér að gera það strax. Einnig vil ég fá tækifæri til að svara andsvari hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar.
    Ég vil segja við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að hann þarf ekkert að vera að lesa þessar ræður mínar fram og til baka. Ég hef ekki skipt um skoðun í málinu. Ég sagði að aðalatriði málsins væri að verið er að taka gjald og leggja á skatt til sameiginlegra þarfa landsmanna. Ég tel að hafrannsóknir séu sameiginlegar þarfir landsmanna. Það getur vel verið að hv. þm. Össur Skarphéðinsson telji að svo sé ekki og í þeim skilningi má kalla þetta gjald auðlindaskatt. Ég hef hins vegar sagt að það væri nokkuð stórt orð og stend við það. Ef þingmaðurinn getur fallist á að hér sé um gjaldtöku í ríkissjóð að ræða til sameiginlegra þarfa, þá get ég verið honum sammála. Ég hef skilið þingmanninn svo að hann telji það vera aðalatriðið að hægt sé að kalla þetta auðlindaskatt þannig að hægt sé að setja það inn í afrekaskrá Alþfl. og þarf ekki að vera að vitna til ummæla minna í því sambandi. Þetta er alveg skýrt og ég stend við það sem ég hef sagt.
    Að því er varðar það sem hv. 5. þm. Austurl. sagði er alveg ljóst að það sem verið er að gera núna veikir þá möguleika sem voru fyrir hendi. Ef það samræmist skoðunum hans frá því í vor, þá botna ég ekkert í því. Ég hefði hins vegar skilið það ef hv. þm. hefði beitt sér fyrir því að styrkja þau ákvæði með einhverjum hætti en það er ekki verið að gera. Nú kemur hann í ræðustól og stærir sig af því að honum hafi tekist að laga ósköpin frá því að þau voru upphaflega sett fram. Þetta er álíka og þegar ákveðnir þingmenn héldu því fram að afrek þeirra væru mikil vegna þess að þeim hefði tekist að lagfæra alla þá vitleysu í sambandi við sjómannaafsláttinn sem frv. hljóðaði fyrst upp á. Auðvitað bera þingmenn stjórnarliðsins ábyrgð á því hvað lagt er fram hér á Alþingi og ættu ekki að vera að stæra sig sérstaklega af því að lagfæra þær vitleysur sem upphaflega voru í þeim frumvörpum.