Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 16:32:00 (2614)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Það hlé sem gert var á fundi milli klukkan þrjú og hálffimm var einmitt gert með tilliti til þess að nefndirnar gætu starfað og hafa þær notað þann tíma. Það er öllum vel kunnugt um það að nefndir hafa starfað mikið þessa daga og af eðlilegum ástæðum. Forseti hefur reynt að haga þinghaldinu þannig að nefndirnar hefðu ráðrúm til þess að sinna sínum verkefnum. Þess vegna hafa fundir verið nokkuð óreglulegir og hlé gert einmitt vegna nefndanna.
    Forseti átti fund með formönnum þingflokka um hádegisbilið og þar voru menn sammála um að það yrði að sjá til síðar í dag eftir því hvernig málin þróuðust hvernig framhaldið yrði. Forseti hafði gert sér vonir um að jafnvel væri hægt að ljúka þeirri umræðu sem hefur farið fram í dag um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins en ekki er ljóst á þessari stundu hvort svo verður. Við erum rétt að hefja umræður að nýju og þegar fer að líða á tímann hafði forseti gert ráð fyrir að hitta aftur formenn þingflokka svo að menn gætu borið saman bækur sínar.
    Varðandi morgundaginn hafði forseti einmitt gert ráð fyrir að ræða það mál þegar þingflokksformenn hittast að nýju og er því ekki tilbúinn að gefa upplýsingar um það fyrr en betur verður séð hvernig nefndarstörf ganga.