Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 17:34:00 (2618)

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er að sönnu rétt að mér er annt um hag Kvennalistans. En þó

ég sé vanur að bryðja erfiða texta og hafi nokkra reynslu af því að skilja torskilin málefni gat ég með engu móti skilið þetta svar hv. þm. Kvennalistans, Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Ég spurði af hverju hún teldi að það væri auðlindaskattur að selja veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs. Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að hér hafa spunnist ítarlegar umræður í dag um það hvort þar sé um að ræða auðlindaskatt eða ekki og Halldór Ásgrímsson hefur skýrt sína afstöðu. Hann hefur að vísu eins og fram hefur komið haft tvær skoðanir á því og það er mjög vasklega að verki verið að takast á 24 tímum að snúast heilan hring. Ég óska honum til hamingju með það og það er í rauninni ekki í fyrsta skipti sem ég hef á mínum stutta þingferli séð það. En mig langar að ítreka spurningu mína til sérfræðings Kvennalistans í sjávarútvegsmálum: Hvers vegna telur hún að sala veiðiheimilda Hagræðingarsjóðsins sé auðlindaskattur?