Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 17:57:00 (2622)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vil aðeins minna hæstv. forsrh. á það að hér er eingöngu um það að ræða að auka sérstaklega gjaldtöku á sjávarútveginn. Ég veit ekki til þess að mikið sé um það í fjárlagafrv. að aukin sé gjaldtaka á aðrar atvinnugreinar og nefni í því sambandi iðnaðinn. Það er þá í afar litlum mæli. Þarna er verið að skattleggja sjávarútveginn umfram aðrar atvinnugreinar í landinu. Ég ætla ekki að rifja upp hvað hæstv. iðnrh. hefur sagt um ákveðna hluti. En ég skil þá hæstv. forsrh. þannig að það sé rangt hjá hæstv. utanrrh. að í þessu skrefi sem nú er verið að stíga sé kominn fyrsti vísir að komandi veiðileyfakerfi í sjávarútveginum. Það er ekki spurningin um túlkun. Það er bara spurningin: Er þetta fyrsta skref að nýju veiðileyfakerfi eða ekki? Getur hæstv. forsrh. svarað því? Ef svarið er nei, þá vitum við það. Ef það er já, þá hefur hæstv. utanrrh. rétt fyrir sér. Þetta er ekkert spurningin um að túlka hlutina því að ef þetta er fyrsti vísir þá hlýtur einhver annar vísir að koma fljótlega eða er reiknað með því að Alþfl. semji um hann í einhverri allt annarri ríkisstjórn? Er hæstv. utanrrh. farinn að sjá svo langt fram í tímann? Það er mikilvægt að þessu sé skilmerkilega svarað en ég skildi hæstv. forsrh. þannig að hann liti a.m.k. ekki á þetta sem fyrsta vísi að nýju veiðileyfakerfi í landinu og ef hæstv. utanrrh. hafi haldið því fram, þá væri þar um túlkun hans að ræða. Gott og vel. Ég treysti í þessu sambandi orðum hæstv. forsrh. að ekki beri að líta á þetta að hans mati sem fyrsta vísi að nýju veiðileyfakerfi.