Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 18:18:00 (2629)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vísa hv. 5. þm. Vestf. á að kynna sér kosningastefnuskrá Alþfl. þar sem hugmyndum okkar um gjaldtöku fyrir veiðileyfi er ítarlega lýst honum til upplýsingar og til svara við fyrirspurn hans. Ég skal taka fram að nákvæm útfærsla í framkvæmd þess kerfis er ekki sett fram enda eru ýmsar leiðir til, en það sem fyrir okkur vakir er ekki að skapa forréttindakerfi heldur að beita markaðslausnum að því er varðar aðgang að auðlindinni sem nú hefur verið takmarkaður en það er mesta bylting sem orðið hefur á háttum og högum Íslendinga frá því að land byggðist.
    Að því er varðar túlkun hv. þm. á því hvað hafi komið fram í mínu máli, vil ég enn árétta til þeirrar umræðu sem fram fór um það hvað væru staðreyndir og hvað væri túlkun. Ég skýrði frá því að samkomulag hefði tekist innan núv. ríkisstjórnar við undirbúning fjárlaga um gjaldtökuna og þarf ekki að hafa um það fleiri orð því að það er öllum hv. þm. kunnugt frá því við afgreiðslu fjárlaganna. Útgjöld sjútvrn. munu vera rúmlega einn milljarður og vissulega var um að ræða tillögu um að ætla atvinnugreininni að standa undir verulega auknum hlut þeirra útgjalda sem skattgreiðendur áður höfðu innt af hendi varðandi þjónustu við atvinnuveginn. Jafnframt var aðferðin sú að með vísan til laga um Hagræðingarsjóðinn var ákveðið að gera það með þeim hætti að veiðiheimildirnar yrðu seldar á gangverði. Þetta eru bara einfaldlega staðreyndir málsins og þarfnast engrar túlkunar. Það er rétt að þetta snerti fjárlagaafgreiðslu. Það er einnig rétt að um er að ræða gjaldtöku fyrir veiðiheimildir. Það hefur enginn fullyrt neitt um það að þetta muni leiða til upptöku á gjaldtöku fyrir veiðileyfi þar með. Það er einfaldlega mál sem ekki hefur verið útkljáð.