Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 18:21:00 (2630)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég hef ekki lesið þá rauðu bók sem hæstv. utanrrh. var hér með en mun gera það ef hann færir mér hana. Ég vil láta það koma fram að í því sem hann sagði fólst að það sé stefna Alþfl. að hafna því að þeir sem nú hafi réttindi til fiskveiða

njóti einhverra forréttinda umfram aðra ef og þegar þeirra veiðileyfakerfi verður tekið upp. Með öðrum orðum hlýtur markaðslausnin að fela það í sér að allir eigi sama rétt til að bjóða í veiðiheimild og þar með er einungis fjármagnið sem ræður för, ekki aðrar aðstæður eins og og búseta eða fyrri störf á sviði sjávarútvegs. Með þessu sýnist mér hæstv. utanrrh. vera að lýsa kerfi þar sem íbúar í byggðarlagi úti á landi eiga engan rétt umfram aðra til að tryggja sér veiðiheimildir í framtíðinni.