Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 18:23:00 (2631)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég féllst á að fresta ræðu minni og hleypa öðrum ræðumönnum að til að greiða fyrir framgangi þingstarfanna og með hliðsjón af því að mér er tjáð að hæstv. utanrrh. sé tímabundinn og hann geti ekki verið hér við alla umræðuna og vil ég taka það fram að það er út af fyrir sig mér að meinalausu. Ég mun ekki gera kröfu til þess að hæstv. utanrrh. verði hér til loka þó nærvera hans gleðji mig að sjálfsögðu. Hins vegar vil ég koma því á framfæri að ég óska eftir því að hæstv. félmrh. verði til staðar einhvern tíma áður en ég lýk máli mínu eða a.m.k. þarf ég að eiga orðastað við hæstv. félmrh. ásamt fleirum vegna þeirra hluta sem lúta að sveitarfélögunum í þessu sambandi. Mér er einnig kært að hv. 17. þm. Reykv. haldi sig sem allra mest í þingsalnum því nokkuð þarf ég að eiga orðaskipti við hann og að sjálfsögðu einnig hæstv. sjútvrh. ( Forseti: Hæstv. félmrh. er í húsinu og verður gert viðvart um ósk hv. þm.) Það er mjög gott. Ég mun þá snúa mér að hæstv. félmrh. einhvern tíma þegar hæfilegt er. Eins og ég veit þarf ég ekki að rökstyðja það því að ákveðnir hlutir í þessu máli lúta að sveitarfélögunum, þ.e. sá forkaupsréttur sem þarna er til umræðu varðar sveitarfélögin nokkru.
    Það er margt sem ástæða er til að skoða í tengslum við þetta mál og það er í raun full ástæða til að fara í nokkra sögulega upprifjun eins og reyndar hefur verið gert hér að nokkru leyti og kæmi þá margt fróðlegt í ljós ef það væri allt saman lesið, hæstv. forseti, eins og ástæða gæti verið til í þeim efnum. Ég til að mynda hygg að orðaskipti ýmissa hv. þm. Sjálfstfl. á þeim tíma sem þetta frv. var til umræðu, á árunum 1989--1990, og þá ekki síst í garð Alþfl. þættu ýmsum fróðleg lesning. Greinarskrif hæstv. núv. sjútvrh. í Morgunblaðinu. Þá var sá siður að þáv. formaður Sjálfstfl., núv. hæstv. sjútvrh., skrifaði gjarnan stuttgreinar, ef svo má að orði komast, stuttgreinar sem birtust í opnu Morgunblaðsins og var hann þá mikill ljúflingur þeirra á Morgunblaðinu. Í þessum stuttgreinum var tekið á helstu álitamálum sem uppi voru í þjóðfélaginu, oft með býsna skörpum hætti. Formaður Sjálfstfl. tók þarna oft býsna mikið upp í sig, enda var hann þá í stjórnarandstöðu og hefur sjálfsagt talið sér óhætt að taka afdráttarlaust til orða oft og tíðum. Ég er mér til skemmtunar með nokkrar af þessum stuttgreinum sem sumar fjölluðu um hinn illræmda Hagræðingarsjóð sem ætti að setja á fót sem aldrei skyldi verið hafa. ( Sjútvrh.: Það er vel þegin upprifjun.) Annað verður ekki séð af lestri þeirra greina en höfundurinn hafi ætlað sér það með allra fyrstu verkum ef hann kæmist nokkurn tíma til einhverra valda og áhrifa í íslensku þjóðfélagi að henda út þessum illræmda sjóði. Það skyldi sko aldeilis út með hann. T.d. má fara ofan í grein sem birtist í Morgunblaðinu hinn 28. apríl 1990 þar sem verið er að fjalla um þennan illræmda sjóð og þær skemmdir á skipan mála sem hann mundi hafa í för með sér og segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Ef Alþingi yrði þvingað til að samþykkja sjóðsstofnun af þessu tagi í skyndingu og eyðileggja fiskveiðistjórnskipuna með þeim hætti er fullljóst að krafan um afnám sjóðsins yrði eitt helsta mál næstu kosninga.``
    Með öðrum orðum er alveg ljóst að það átti að verða eitt meginerindi formanns Sjálfstfl. inn í pólitík í framhaldi af því ef Alþingi yrði þvingað til að samþykkja þennan illræmda sjóð að setja á oddinn kröfuna um að leggja hann af í næstu kosningum og þá væntanlega ef flokkur formannsins kæmist til valda. Þetta er fróðlegt að rifja upp ef menn vilja fara út í sögulegar æfingar af þessu tagi á annað borð. Það hefur nefnilega nokkuð borið á því að í örvinglan sinni hafi talsmenn stjórnarliðsins í þessu máli sótt sér rök til fortíðarinnar eins og í fleiri tilvikum og helsta réttlæting þess sem þeir eru nú að gera er sú að einhverjar hliðstæður hafi verið að finna í eldri málum, athöfnum fyrri ríkisstjórnar eða einhverjum hafi einhvern tíma fyrr dottið þetta í hug. Þannig sé allt í lagi. Þannig er það með STASI, nýju lögregluna sem á að senda inn í stofnanirnar, og þannig er það með Hagræðingarsjóðinn. Þetta er að vísu ekki veiðileyfagjald, eða sumir segja það, aðrir í stjórninni ekki, en svo koma menn og segja: En ef þetta er veiðileyfagjald, kvótaleiga eða auðlindaskattur þá er það fyrri ríkisstjórn sem datt það í hug og þá er það í lagi. Þá er allt í lagi að við gerum það. Ég held að þeir menn, sem eru með slíkar heimildir í farteskinu í þessum málum eins og hæstv. núv. sjútvrh., samanber greinaskrif hans í Morgunblaðinu, eins og Sjálfstfl. eftir linnulausar ræður, þindarlausar ræður t.d. núv. hæstv. landbrh. Halldórs Blöndal í efri deild á árunum 1989--1990, Guðmundar H. Garðarssonar, þáv. þm. Sjálstfl. og margra, margra fleiri, ættu nú að fara varlega í það að ásaka aðra um einhvern tvískinnung eða skoðanaskipti í þessum efnum. (Gripið fram í.) Já, það er að vísu rétt að hv. þáv. þm. Guðmundur H. Garðarsson fékk ekki mikinn frama í Sjálfstfl. í framhaldi af þessari málafylgju sinni og komst ekki á þing eins og alkunnugt er.
    Ég held að þeir talsmenn stjórnarliðsins hér ættu að fara sér hægt í því að byggja upp málsvörn sína eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, 17. þm. Reykv. og frsm. meiri hluta sjútvn., hefur gert í þessu máli að ráðast aðallega á aðra. Um hvað vitnar það yfirleitt þegar menn eru í svoleiðis kastþröng í málflutningi sínum að þeir reyna ekki að réttlæta það sem þeir eru að mæla fyrir með efnislegum rökum heldur eyða allri orku sinni í árásir á aðra? Það vitnar um það að málstaður þeirra sé vondur og þeir viti upp á sig skömmina og taki sér það helst til bragðs að reyna að ráðast á aðra. Þetta er náttúrlega alþekkt í stjórnmálum og viðbrögð stjórnarliðsins, hv. 17. þm. Reykv. og stjórnarliða hér í þessu máli og fleirum undanfarna daga, eru nákvæmlega af þessum toga. Þeir finna sér ekkert til varnar í eigin málatilbúnaði og sækjast þá helst eftir því að ráðast á aðra eða segja: Ja, ef þetta er ósvinna, þá er það alla vega þannig að einhverjum öðrum er búið að detta þetta í hug áður og þá hlýtur það að vera í lagi þó að við gerum það. Það er nú ekki háreistur málflutningur, satt best að segja, herra forseti.
    Það var einnig mjög athyglisvert að heyra hv. 5. þm. Austurl. koma hér upp og taka undir þennan kór þar sem hv. 17. þm. Reykv. syngur fyrstu rödd að það væri aðalefni þessarar umræðu að greina það hvernig menn hefðu skipt um skoðun, aðallega hv. 1. þm. Austurl. skildist mér sem er frægur fyrir flest annað í stjórnmálaumræðu á Íslandi en skipta oft um skoðun. Ég hélt satt best að segja að sá maður hefði nánast alveg löggilt vottorð upp á það að hann skipti helst ekki um skoðun hvað sem á gengi hvorki í hvalamálum né öðrum. ( Gripið fram í: Er hann kominn með læknisvottorð upp á það?) En nú eru alþýðuflokksmenn að reyna að gefa honum einhverja löggildingu um að hann snúist bara eins og skopparakringla og skipti endalaust um skoðun og þar á meðal hv. 5. þm. Austurl. sem nú gengur í salinn.
    Hv. 1. þm. Austurl. mun hafa leyft sér að halda því fram að 5. þm. Austurl. hefði talað nokkuð öðruvísi í kosningabaráttunni heldur en fram kæmi nú af málafylgju hans í sambandi við Hagræðingarsjóðinn. Þetta er ekki í fyrsta sinn og hann er ekki sá eini, hv. 1. þm. Austurl., sem hefur haldið þessu fram. Í mín eyru hefur því verið haldið fram að hv. 5. þm. Austurl. hafi t.d. talað sem eindreginn stuðningsmaður þess að mynda vinstri stjórn eftir kosningar og stuðningsmaður áframhaldandi stjórnarsamstarfs þáv. stjórnarflokka. En hvernig fór? Því hefur líka verið haldið fram að hv. 5. þm. Austurl. hafi talað sem svo mikill bændavinur að hann ætti það erindi helst inn á Alþingi að stórbæta búvörusamninginn bændum í hag ef hann kæmist til nokkurra áhrifa og er hann þó í Alþfl. Og hvernig hefur farið? Svona mætti áfram telja.
    Herra forseti. Ég held að það sé þannig að þessir hv. þm. stjórnarliðsins ættu ekki að reyna að byggja málsvörn sína upp á því að aðrir séu að skipta um skoðun, aðrir séu í vandræðum vegna sinnar fyrri afstöðu til mála, aðrir hafi vont mjöl í pokahorninu varðandi afstöðu þeirra á fyrri tímum til sjávarútvegsmála. Og allra síst Alþfl., í guðanna bænum það tóbak sé nú frá okkur tekið því að auðvitað er það svo að Alþfl. ætti að skammast sín fyrir frammistöðu sína í sjávarútvegsmálum á Íslandi á undaförnum árum. Hann hefur þar rekið fullkomlega ábyrgðarlausa pólitík ef pólitík skyldi kalla og verið aðallega í því að safna liði ýmissa óánægjuafla í þjóðfélaginu gegn sjávarútveginum á þeim grundvelli að þar væri svo mikill gróði, svo geysilegur gróði að það yrði að safna liði til að koma alveg sérstökum sköttum og álögum á hann. Það væri efnahagsvandamál hvað sjávarútvegurinn á íslandi væri mikið gróðafyrirtæki. En hvernig er staðan? Er hún þannig að það sé alveg sérstök ástæða til að innleiða sérstakar álögur á sjávarútveginn á Íslandi í dag eins og Alþfl. og hagspekingar hans vilja vera láta? Auðvitað ekki. Það viðurkenna allir og hæstv. sjútvrh. hefur þó haft manndóm í sér til þess að viðurkenna það, m.a. með því að tala um nauðsyn á neyðarráðstöfunum á sl. hausti til að lagfæra rekstrarstöðu sjávarútvegsins.
    Ég hef áður rakið hér, en lofaði reyndar hv. 17. þm. Reykv. að gera það aftur, þær fjölmörgu nýju álögur á sjávarútveginn sem þessi ríkisstjórn er að beita sér fyrir og eru núna almennt viðurkenndar og enginn hefur í raun reynt að mæla á móti. Það hefur t.d. enginn lagt leið sína í þennan ræðustól og hrakið einn einsta af þeim liðum sem ég hef talið upp og tölusett fyrir menn um hinar nýju álögur á sjávarútveginn. Hv. 17. þm. Reykv. hafði reyndar í framsöguræðu sinni manndóm í sér til að viðurkenna að hinar 525 millj. sem á að taka af sjávarútveginum fyrir veiðiheimildirnar á næsta ári væru nýjar álögur á sjávarútveginn, nýjar vegna þess að sjávarútvegurinn á Íslandi hefur ekki áður greitt eina einustu krónu fyrir þær veiðiheimildir sem hann á nú að fara að kaupa. Og síðan liggur það fyrir að þegar er búið að lögfesta fjölmargar nýjar álögur eins og tvöföldun veiðieftirlitsgjaldsins og skerðingu á sjómannafrádrætti. Fyrir dyrum stendur að lögfesta hlutdeild sjávarútvegsins í greiðslum vegna iðgjalda í ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Það hefur að vísu ekki verið reiknað út nákvæmlega mér vitanlega hvað það þýðir í tölum þannig að mitt mat er ekki verra en annarra á því enn sem komið er að þar gætu verið einar 50 millj. kr. Eftir standa aðrar álögur sem hafa verið settar á sjávarútveginn, aukin þjónustugjöld af ýmsu tagi, bæði hjá Ríkismati sjávarafurða, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og fleiri aðilum. Og óútkljáð er það mál sem varðar að falla frá eða hætta með jöfnunargjald á olíu sem gæti að sjálfsögðu þýtt verulegar hækkanir á olíuverði til útgerðarinnar a.m.k. út um landið þannig að þetta stendur eftir.
    Síðan er það sem hefur verið talsvert til umræðu, kannski að nokkru leyti undir röngum formerkjum, hvort þetta séu nýjar álögur á sjávarútveginn eða ekki, þessar 525 millj. sem þarna á að taka, og hvort það ráði úrslitum um hvort hér sé á ferðinni fyrsta skerfið í átt til auðlindaskatts eða ekki þá liggja hlutirnir þar svo 100% hreint fyrir að ekki þýðir fyrir viti borna menn að þrátta um að það er verið að færa yfir á sjávarútveginn kostnað sem hann áður naut úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Og til þess að menn hætti þessu röfli í eitt skipti fyrir öll þá er ég hérna með tvenn fjárlög, fjárlögin fyrir árið 1991 og 1992. Það var auðvitað kostulegt að heyra hv. 17. þm. Reykv. fjalla um þetta þannig að helst skilja mátti hann svo að hverri einustu krónu af þessum 525 yrði varið til

nýrra verkefna í þágu sjávarútvegsins á sviði hafrannsókna. Það mátti helst skilja hann þannig auk þess sem það hlaut að vera misskilningur og rugl í hv. ræðumanni því að staðreyndin er auðvitað sú að það verður sáralítið meira gert í hafrannsóknum á Íslandi á árinu 1992 heldur en var á árinu 1991. Munurinn er bara sá að núna kostar sjávarútvegurinn svo til alla starfsemi Hafrannsóknastofnunar en áður var hún svo til öll kostuð úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Og til þess að menn hafi þetta í eitt skipti fyrir öll á hreinu þá er ég hérna, eins og ég segi, með þessi tvenn fjárlög og ég ætla að bera þau saman og ég ætla að vona að það gerist þá ekki oftar að hv. talsmenn stjórnarliðsins, hvorki hæstv. sjútvrh., hv. 17. þm. Reykv. né nokkur annar kjarkmaður á þeim bæ reyni að koma upp í ræðustólinn og breiða yfir þá staðreynd að það er verið að færa þarna ný útgjöld yfir á sjávarútveginn sem áður voru greidd úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna. (Gripið fram í.) Og þetta er þannig að niðurstöðutala rekstrar Hafrannsóknastofnunar samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum er 613.400 þús. kr. en þar af eru sértekjur 545,5 millj. kr. Eftir standa litlar 67,9 millj. sem ríkissjóður, sameiginlegur sjóður landsmanna, ætlar að leggja til hafrannsókna á þessu ári. Í fyrra var þetta þannig, í fjárlögum ársins 1991, að heildarútgjöld til hafrannsókna voru samtals 514 millj. en sértekjur einungis 21.180 þús. Hvað þýðir það? Það þýðir að sameiginlegur sjóður landsmanna lagði 492,2 millj. til hafrannsókna á árinu 1991, tæpan hálfan milljarð króna, í staðinn fyrir þær 68 millj. tæpar sem nú á að gera. Og það þarf ekki að fjölyrða um þetta. Þetta er svona. Í staðinn fyrir það að á árinu 1991 rann tæplega hálfur milljarður króna úr sameiginlegum sjóði landsmanna til hafrannsókna þá verða það núna tæpar 68 millj. Og lítillega aukin verkefni breyta þarna engu um. Ég hef ekki einu sinni hirt um að framreikna gömlu fjárlögin upp til nýs verðlags því að það er svo augljóst sem þarna er á ferðinni. Og ég vona að aumkunarverðum tilburðum hæstv. sjútvrh. til þess að segja að þarna sé ekkert nýtt að gerast, það sé bara verið að færa til eins og hann hefur hér gert, linni nú senn. Þetta er auðvitað svona og ég tek undir það sem hv. 1. þm. Austurl. og fleiri hafa sagt. Ég lít á hafrannsóknir sem málefni samfélagsins alls, bæði vegna þess að þarna eru á ferðinni sameiginlegar auðlindir okkar, þarna er á ferðinni mikilsverð forsenda þess að hægt sé að halda uppi lífskjörum og þróun í landinu í þágu landsmanna allra og þarna eru í þriðja og síðasta lagi en ekki síst á ferðinni grunnrannsóknir.
    Það sem hefur valdið mér mestum vonbrigðum í þessu er að sjálfur háskóladoktorinn, háskólaborgarinn, 17. þm. Reykv. sem ég hélt að hefði nokkurn akademískan skilning á þessum hlutum, skuli virða það að vettugi í sinni umfjöllun um þetta að Hafrannsóknastofnun sinnir í raun og veru nánast ein öllum þeim grunnrannsóknum sem eru gerðar í hafrannsóknum á Íslandi því að um sáralitla starfsemi er annars staðar í þjóðfélaginu að ræða á því sviði. Því miður er það svo að okkar háskólar, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri sem eru með starfsemi á þessu sviði hafa sáralítil bolmagn og eru í raun og veru ekki uppbyggðir í neinum mæli til þess að stunda þarna grunnrannsóknir. ( Gripið fram í: Eru bara engar grunnrannsóknir stundaðar?) Nei, þær sem eru stundaðar eru hjá Hafrannsóknastofnun og ættu að vera það eða þurfa að vera það, a.m.k. meðan ekki er fyrir þeim séð með öðrum hætti. Og það er orðin sérkennileg afstaða til hlutanna ef menn eru a.m.k. ekki sammála um að það sé hlutverk ríkisvaldsins að standa fyrir grunnrannsóknum. Ef svo langt er gengið að þær eigi líka að gjaldfærast hjá viðkomandi atvinnuvegum sem hugsanlega gætu haft af þeim not einhvern tíma í framtíðinni þá skil ég ekki lengur hvert menn eru að fara.
    Nei, herra forseti, auðvitað er þetta alveg morgunljóst og alveg skýrt. Það er þannig að hér er verið að velta þessum byrðum yfir á sjávarútveginn og þar með er líka að eiga sér stað stefnubreyting sem ég tel að sé til rangrar áttar og ég held að sé slæm, að á einu

bretti sé gusað yfir á íslenskan sjávarútveg greiðslubyrði upp á hálfan milljarð króna í þessum efnum án þess að það sé í samhengi við eitt eða neitt, án þess að sambærilegar breytingar eigi sér stað gagnvart öðrum atvinnugreinum, án þess að sjávarútveginum sé þá bætt það í gegnum betri starfskjör, betri starfsskilyrði eða með öðrum hætti sanngjarnt tillit tekið til þessarar breytingar sem þarna verða á hans hag. Ég hygg, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara betur ofan í þetta eða ræða það frekar því að þetta er væntanlega öllum hv. alþm. ljóst.
    Í öðru lagi er auðvitað óhjákvæmilegt að ræða lítillega þær grundvallarbreytingar sem með þessu frv. verða á gildandi lögum um Hagræðingasjóð. Það er satt best að segja furðulegt hvernig málflutningur manna hefur verið í þessum efnum, t.d. hv. 17. þm. Reykv. sem hefur belgt sig út í fjölmiðlum, og er þó ekki á ummálið bætandi, um að það sé verið að . . . (Gripið fram í.) Ræðumaður fellst á að draga þessi síðustu ummæli til baka. Hv. 17. þm. Reykv. hefur farið mikinn í fjölmiðlum og reynt að gera sig dýrlegan í augum byggðarlaga úti um landið með því að segja að hann ætli að lagfæra frv. frá því sem það var í þágu byggðasjónarmiða. En þá gerir hv. þm. þá reginskyssu að tala eins og þarna sé algert nýmæli á ferð og eitthvert stórkostlegt framfaraatriði frá því sem verið hefur. En er það svo? Nei, auðvitað ekki. Staðreyndin er sú að það er stórfelld afturför þrátt fyrir tilburði hv. 17. þm. Reykv. (Gripið fram í.) Hafa þeir ekki viljað tala við þig? ( ÖS: Nei.) Það er greinilegt að hv. þm. eru það mikil vonbrigði.
     Auðvitað er gersamlega verið að draga tennurnar úr þessum lögum hvað það snertir að einhverjir raunhæfir möguleikar séu til að koma til móts við sveitarfélög, sem eiga í erfileikum, ef á þarf að halda. Ég mótmæli þeim málflutningi sem þarna hefur verið hafður í frammi að hið einskis nýta, sem ég leyfi mér að kalla svo í ljósi ríkjandi aðstæðna, forkaupsréttarákvæði sem þarna er á ferðinni, sé eitthvert nýmæli, einhver framför frá því sem verið hefur í þágu byggðasjónarmiða, í þágu sveitarfélaganna og atvinnuhagsmuna. Svo er ekki. Það er stórfelld afturför á ferðinni frá því að inni í gildandi lögum eru möguleikar til þess að veita byggðarlögunum veiðiheimildir ef á þarf að halda, annaðhvort fyrir lægra eða ekkert endurgjald ef svo ber undir. Það er það sem málið snýst um. 25% forkaupsréttur sveitarfélaganna á veiðiheimildum á fullu markaðsverði er auðvitað út í loftið. ( ÖS: Það var sama og þú gerðir áður.) Nei, hv. þm., það er aldeilis ekki. Er ekki hægt að tala við þennan hv. 17. þm. Reykv. með nokkrum rökum? Ég legg til að hv. þm. taki sér sæti, rói sig niður og hlýði á rökin. Það er best að fara með þau fyrir hv. þm. og byrja ég á því að lesa upp úr gildandi lögum um Hagræðingarsjóð. Greinilegt er að það verður að taka til við að fræða hv. þm. því að hann kann ekkert í þessum málum, bókstaflega ekki neitt. Hann verður sér sífellt til skammar með fáfræði um þetta efni sem hér er verið að ræða. Það segir nefnilega í 9. gr. gildandi laga um Hagræðingarsjóð, hv. 17. þm. Reykv.:
    ,,Sjóðurinn veitir aðstoð sína til eflingar vinnslu sjávarfangs í byggðarlögum, er höllum fæti standa, með því að framselja veiðiheimildir sem honum hafa verið úthlutaðar í því skyni skv. 5. gr. Aflaheimildirnar skulu framseldar gegn því skilyrði að aflanum verði landað til vinnslu í því byggðarlagi sem aðstoð hefur verið samþykkt við. Skal sveitarstjórn í viðkomandi byggðarlagi eiga ráðstöfunarrétt að veiðiheimildum þessum gegn endurgjaldi skv. 1. mgr. 8. gr. Neyti sveitarstjórn ekki ráðstöfunarréttar síns skulu veiðiheimildir framseldar til skipa og gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. þá um endurgjald fyrir veiðiheimildir þessar eftir því sem við á. Fáist ekki skip til veiðanna með þeim skilmálum getur stjórn sjóðsins, að fengnu samþykki ráðherra, ákveðið lægra endurgjald eða fallið frá endurgjaldi standi sérstaklega á.``
    Með öðrum orðum, það er alveg skýrt að ef eigendur skipa fást ekki sjálfviljugir

til að taka á sig þessa kvöð að landa aflanum í viðkomandi byggðarlagi og málið leysist ekki þannig, þá er heimilt eftir sem áður að úthluta veiðiheimildunum til byggðarlaganna fyrir lægra endurgjald eða ekkert endurgjald ef það reynist nauðsynlegt ( Gripið fram í: Hvenær hefur þessu verið beitt?) til þess að tryggja atvinnu í viðkomandi byggðarlögum. ( Gripið fram í: Hvenær hefur þessu verið beitt?) Það hefur ekki komið til þess af sérstökum ástæðum sem við þekkjum en það breytir ekki hinu að svona hefur þetta staðið í lögum. Þessi möguleiki hefur verið fyrir hendi og þannig var þetta hugsað. Nú gengur sá þingmaður, herra forseti, úr salnum sem kvartar yfir því að hann fái ekki rök. Ég er að reyna að fara hér með rök með því að lesa upp texta í lögum landsins og ég held að hv. þm. ætti að skammast til að hlusta ef hann heldur áfram málflutningi af því tagi sem hann hefur haft í frammi í ræðum og frammíköllum. ( Sjútvrh.: Þingmanninum hefur þótt þetta rökleysa.) Er það rökleysa, hæstv. sjútvrh., að lesa upp gildandi lög í landinu sem eru alveg af dráttarlaus og taka af tvímæli um það að þessi möguleiki hefur verið fyrir hendi og hann var sérstaklega hugsaður sem öryggisnet undir þau atvik sem upp gætu komið og erfiðast yrði að leysa eða væru óleysanleg með öðrum hætti en þessum? Ég mótmæli því og hafna því að það skuli ekki vera hægt að ræða þessi mál með rökum af þessu tagi við menn ef menn á annað borð hafa áhuga á því að störf gangi með eðlilegum hætti fyrir sig hér á Alþingi. Ég tel að hægt sé að sýna fram á og ég er að gera það, að mínu mati, að það felst stórfelld afturför í þeim breytingum sem hér eru fyrirhugaðar gagnvart sveitarfélögunum og gagnvart afkomuöryggi minni sveitarfélaga, atvinnuhagsmunum fólks í þeim byggðarlögum o.s.frv. Ég held að hv. stjórnarliðum væri hollt að hlusta á það áður en þeir halda heim í sín byggðarlög og þurfa þar kannski að standa fyrir máli sínu gagnvart umbjóðendum í þessum efnum.
    Ég ætla líka að fara yfir það, herra forseti, hvers virði hið nýja forkaupsréttarákvæði samkvæmt brtt. meiri hlutans er í raun og veru og óska þá eftir því að hv. 17. þm. Reykv. verði kallaður í salinn item hæstv. félmrh. Það er auðvitað þannig að gagnvart þeim mönnum sem fylgst hafa með í íslenskum sjávarútvegi og fylgst með málefnum sveitarfélaganna á síðustu --- herra forseti, það er hvimleitt að hv. 17. þm. Reykv. sem hefur verið jafnfyrirferðarmikill á alla enda og kanta í þessari umræðu skuli ekki tolla í þingsalnum þegar verið er að reyna að svara honum og eiga við hann orðaskipti eða hann sé a.m.k. einhvers staðar þar sem maður geti treyst því að hann heyri það sem verið er að segja. ( Gripið fram í: Það er engin merking í þessu hjá þér.) Vill hv. frammíkallandi endurtaka þetta. Er verið að segja að það sé engin merking í því að lesa upp gildandi lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og sýna fram á þá algeru fjarstæðu sem hv. þm. hefur haft frammi í umræðum um forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga? Því hvernig er það? Hvernig lítur það t.d. út fyrir sveitarstjórnina í Bolungarvík eða sveitarstjórnina á Húsavík ef menn ætla að koma að þessum lögum samþykktum og segja við þá: Ykkar öryggi felst í því að þið hafið forkaupsrétt að tilteknum veiðiheimildum á fullu markaðsverði. Það mun leysa ykkar mál. Það er stórkostlegt hagsmunaatriði fyrir ykkur, sveitarfélögin, tryggir ykkar stöðu ef illa fer og þið missið veiðiheimildirnar burtu úr byggðarlögunum. Hvernig lítur það út fyrir sveitarfélög sem eru nú þegar komin á hnén vegna byrða sem þau hafa axlað vegna erfiðleika sem atvinnulífið á viðkomandi stað á við að glíma? Eru þegar búin að ganga svo nærri sér að þau eru orðin allt of skuldsett, búin að þurrka upp lánsmöguleika sína og búin að setja óheyrilega fjármuni í að halda þessu sama atvinnulífi gangandi. ( Gripið fram í: M.a. vegna rangláts kvótakerfis.) Vill ekki hv. þm. breyta því í staðinn fyrir að gera það verra? Ég held að hv. þm. ætti þá að vera maður til þess að gera alvöru úr því sjónarmiði sínu að kvótakerfið sé ranglátt og reyna þá að lagfæra það í rétta átt en ekki gera það verra. (Gripið fram í.) Hann er til reiðu, hv. þm., því að það er nákvæmlega það sem hér

er á ferðinni. Ákvæðin um Hagræðingarsjóð og öryggisnetið sem í honum fólst, eins og það var útfært gagnvart byggðarlögunum, var mikilvægur liður í málamiðlun um afgreiðslu laganna um stjórn fiskveiða. Menn sættust á það að vegna þeirrar hættu, sem þeim var þar einkum þyrnir í augum vegna möguleikans á frjálsu framsali veiðiheimilda, væri sett ákveðið öryggisnet ef illa færi og einstök byggðarlög kynnu að missa burtu obbann af sínum veiðiheimildum. Þá væri hægt að leysa þeirra mál með því að fá skip til að veiða ákveðinn kvóta með kvöð um að landa hjá sveitarfélögunum. Ef það gengi ekki upp væri jafnvel hægt að úthluta þeim veiðiheimildum án endurgjalds til viðkomandi sveitarfélaga. Þannig er skipulagið í dag, hv. 5. þm. Austurl., og það er verið að gera það verra að mínu mati og augljóslega verra með þessu málamyndaforkaupsákvæði.
    Ég óska eftir því, herra forseti, að hæstv. félmrh. komi í þessari umræðu og svari því hvert er mat félmrn. á möguleikum sveitarfélaganna til að nýta sér þessar forkaupsréttarheimildir, til að leysa vandamál sem kunna að koma upp á næstu mánuðum vegna þess að veiðiheimildir flytjast burt úr byggðarlögum, með því að kaupa í staðinn veiðiheimildir á fullu markaðsverði. Í fyrsta lagi er auðvitað eðlilegt að spurt sé: Í hverju felst hjálpin úr því að sveitarfélögin eiga hvort sem er að borga fullt markaðsverð? Telja menn að sveitarfélögin séu þeir aumingjar að þau gætu ekki sjálf keypt veiðiheimildir á markaðnum og þau þurfi hjálp til þess? Er það bjargræðið? Það skiptir engu í verði væntanlega úr því að þetta er fullt markaðsverð. Hver telja menn að verði staða þessara sveitarfélaga ef þau eiga að greiða fyrir veiðiheimildirnar? Vita menn ekki að Bolungarvík sem fyrir var skuldsett sveitarfélag er að setja að mér skilst 100 eða á annað hundrað millj. kr. í formi ábyrgða og fjármuna inn í fyrirtæki þar á staðnum? Það eru engir smáfjármunir fyrir ekki stærra sveitarfélag. Veit hæstv. félmrh. ekki að Húsvíkingar eru að setja 75 millj. kr. inn í Fiskiðju Húsavíkur? Hvað er það mikið? Það eru 30 þús. kr. á hvert mannsbarn í bænum og margfaldað með 100 þús. sem er íbúatala Reykjavíkur yrðu það 3 milljarðar. Það samsvarar 3 milljörðum kr. ef Reykjavíkurborg setti samsvarandi fjármagn í eitt atvinnufyrirtæki. Ætla menn svo að koma hér í alvöru, hæstv. félmrh. og hv. 17. þm. Reykv., og bera það á borð fyrir okkur þingmenn að það sé mikið bjargræði í því fyrir þessi sveitarfélög að fá til viðbótar einhvern forkaupsrétt á veiðiheimildum á fullu markaðsverði? Þvílíkur málflutningur, segi ég nú, eða vísa á Byggðastofnun, eins og gert er í grg. með frv., og segja að það sé nær að hún sinni svona verkefnum. Ég verð að segja alveg eins og er að svo lágkúrulegan málflutning hef ég ekki lengi heyrt í umræðum um sjávarútvegsmál og byggðamál á Íslandi og hefur maður þó heyrt ýmislegt dapurlegt á undanförnum árum. Þetta er svo úr takt við raunveruleikann, svo úr takt við veruleika líðandi stundar, eins og hann blasir við mönnum úti í þjóðfélaginu, eins og hann hvílir nú á forsvarsmönnum sveitarfélaganna vítt og breitt um landið, að engu tali tekur og það er þeim mönnum til skammar sem umgangast veruleikann með þessum hætti. Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. svari þessu úr því að brtt. er hér frá meiri hlutanum komin, varðandi það að leysa þessi mál með forkaupsréttarákvæðum. Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. komi og gefi okkur svör um það hvernig hún, hæstv. ráðherra, metur möguleika á aðstöðu sveitarfélaganna til þess að bregðast við í þessu sambandi.
    Forsvarsmenn og stjórn Samands ísl. sveitarfélaga voru á fundi í efh.- og viðskn. í morgun og þar spurði ég eftir því hvort sveitarfélögin hefðu tekið saman eitthvert yfirlit yfir það sem einstök sveitarfélög væru nú að leggja í atvinnulífið eða hefðu á undanförnum mánuðum og missirum og árum gert. Því var svarað að það væri að vísu til mjög lausleg úttekt á þessu en engin tæmandi greinargerð væri fyrir hendi um þetta efni. Forsvarsmenn sveitarfélaganna lýstu jafnframt þeirri skoðun sinni að ástæða væri til þess að taka upp þá nýbreytni að sveitarfélögin tilkynntu félmrn. í hverju tilviki um slíkar meiri

háttar aðgerðir þar sem ljóst væri að sveitarfélögin í landinu væru að taka á sig gífurlegar byrðar og hefðu gert í erfiðleikum liðinna ára og væru mörg hver að verða nánast ófær um að sinna hlutverki sínu af þessum sökum. Ég fór fram á það að forsvarsmenn sveitarfélaganna gerðu hvað þeir gætu á næstu dögum til að taka slíka greinargerð saman og ég hygg að hún yrði ærið fróðleg þegar það kæmi í ljós hvað sum sveitarfélög hafa gengið nærri sér og hversu miklu það munar orðið um aðstöðu sveitarfélaganna í landinu hvort þau hafa þurft að leggja þannig með atvinnulífinu eða ekki. Tökum t.d. svefnbæina í kringum Reyjavík sem árum saman hafa montað sig af því að þeir hafi ekki þurft að leggja á full útsvör. Og hvers vegna er það? Það er vegna þess að þeir fá heilmikla þjónustu meira og minna ókeypis héðan. Í öðru lagi er það auðvitað vegna þess að þar hafa menn engar byrðar af neinu tagi í líkingu við það sem sveitarfélögin úti um landið hafa þurft að axla á undanförnum árum í stórum stíl vegna atvinnulífsins. Hæstv. sjútvrh. ætti nú að þekkja þetta, t.d. sveitarfélögin á suðurströndinn sem þar fást við sjávarútveg. Ætli það sé ekki þannig að þau hafi þurft að ganga nokkuð nærri sér sum hver, eins og Stokkseyrarhreppur, á undanförnum árum til þess eins að reyna að bjarga og halda gangandi atvinnulífi á staðnum. Þetta eru auðvitað þannig mál að það er ekki hægt að mínu mati að afgreiða þetta frv. eins og stendur til með þessari ávísun á sveitarfélögin sem á sama tíma er verið að ráðast grimmilega á í fjárlögunum og bandorminum og leggja á þungar byrðar einhliða með tilskipunum af hálfu ríkisvaldsins. Síðan á að sleppa billega frá málefnum hvað varðar fiskveiðistjórnunina og Hagræðingarsjóð eins og hér er lagt til. Það nær auðvitað engri átt og ég er ansi hræddur um að það gæti því miður þeirrar fjarlægðar sem virðist vera milli þeirra sem eru að glíma við vandann úti í einstökum byggðarlögum og hæstv. ríkisstjórnar og ráðherra hennar og talsmanna eins og hv. 17. þm. Reykv. Ég er ansi hræddur um að hv. 17. þm. Reykv. mundi ekki tala eins og hann gerir ef hann væri í framboði á Vestfjörðum eða Norðurl. e. og þekkti af eigin raun stöðu sveitarfélaganna í sínu kjördæmi og vissi hvernig staða þeirra væri til þess að taka við þessu gríni, ef ég má kalla þessi forkaupsréttarákvæði svo. Það er auðvitað verið að vísa þessum vanda frá ríkisstjórninni. Það kemur þeim ekki við frekar en margt annað. ,,Kemur-mér-ekki-við``-stefnan er hér afturgengin. Það á bara að vera þeirra vandi ef allt fer á hausinn, byggðarlögin missa veiðiheimildirnar í burtu o.s.frv.
    Herra forseti. Sjálfsagt kemur hv. 17. þm. Reykv. hér upp og segir að þetta sé allt þvaður. Ég hafi engin rök fært fram og þetta sé allt misskilningur, ég hafi skipt um skoðun o.s.frv. Þá er það hans málflutningur, hans merkilega málafylgja í þessu og gott og vel. Það skal þó a.m.k. vera á hreinu að ég hafi gert mitt til þess að reyna að vekja athygli manna á því hversu óráðlega er hér að hlutunum staðið og hversu gersamlega úr takt við aðstæður líðandi stundar í íslenskum sjávarútvegi og íslenskum byggðamálum þessi afgreiðsla málsins er. Samvisku minnar vegna hlýt ég að gera það. Ég hef af fáu meiri áhyggjur, satt best að segja, þessa mánuðina heldur því hversu nærri sér menn eru að ganga í stórum stíl í fyrirtækjunum og í sveitarfélögunum til þess að reyna að halda hlutunum gangandi. Vissulega eru það skiljanleg viðbrögð. Menn reyna nánast allt áður en þeir neyðast til að loka fyrirtækjunum og missa veiðiheimildirnar í burtu. Svo er nú komið að menn nánast þurrka sjálfa sig upp að innan áður vegna þess að þeir sjá ósköp einfaldlega að það þýðir við núverandi aðstæður endalok búsetu og byggðar og það þýðir eignaupptöku þess fólks sem á hús sín og rætur í viðkomandi byggðarlögum ef veiðiheimildirnar hverfa í burtu. Þannig erum við Íslendingar búnir að koma málum, og mætti margt um það segja, á ekki lengri tíma, tæpum 10 árum, að örlög manna ráðast í raun og veru svona. Það hvort hundruð fjölskyldna, sem kannski hafa alist upp við það og byggt tilveru sína á því að sækja sjó og vinna afla í tilteknu byggðarlagi, fá að gera það áfram, hvort íbúðarhúsið

verður einhvers virði eða ekki, hvort þessar fjölskyldur geta yfirleitt framfleytt sér ræðst kannski af því hvort einn togari fer á nauðungaruppboð eða ekki. Þetta er ískyggileg staða og ég fullyrði að þetta er að valda mjög hættulegri mismunun og flokkar menn í fyrsta og annars flokks borgara, byggðir í fyrsta og annars flokks sveitarfélög í stórum stíl með þeim hætti að það hlýtur að enda með skelfingu. Auðvitað þarf ekki að fjölyrða um það að aðstaða þeirra sveitarfélaga sem binda sér slíkar drápsklyfjar til þess eins að halda atvinnulífinu gangandi versnar að sama skapi til þess að veita íbúunum þjónuustu. Það verða ekki byggð barnaheimili, það verða ekki malbikaðar götur fyrir þær 75 millj. kr. sem Húsvíkingar eru að leggja núna í fiskiðnaðinn eða 200 millj. kr. sem Bolvíkingar eru að leggja í fiskiðnaðinn. Þeir bæta ekki þjónustuna við íbúa sína, byggja ekki íþróttahús eða gera með öðrum hætti tilveruna ásættanlegri fyrir það fólk sem þarna starfar að þjóðhagslega mikilvægum verkefnum. Þetta þarf auðvitað ekki að benda hv. þm. á en það er ljóst að þetta er stórkostlega alvarlegt efni.
    Herra forseti. Mér er tjáð að það sé meiningin að ljúka þessum fundi um kl. hálfátta og ég er leiður á því að tæta ræðu mína endalaust í sundur þannig að ég hugsa að ég reyni að sjá til þess að ég verði alla vega búinn með þennan sprett fyrir þann tíma. Enda er það svo að það vekur mann til umhugsunar um það hvort það þjóni mjög miklum tilgangi að ræða þessi mál að nánast öllum hv. þm. fjarstöddum. Ástandið hefur reyndar verið þannig í dag að maður getur varla trúað því að það væri verið að ræða eitt af mikilvægustu og afdrifaríkustu málum þessa þings. En samt sem áður er það svo. Ég efast að mörg stærri mál fari fyrir 115. löggjafarþing en frv. um Hagræðingarsjóð því að þar er auðvitað komið inn á nánast sjálfan tilverugrundvöll þjóðarinnar með býsna afdrifaríkum hætti ef svo kann að fara. Ástæða væri til að ræða afkomu sjávarútvegsins í tengslum við þetta mál því að það mun að sjálfsögðu hafa sín áhrif á möguleika hans ef það verður yfir hann að ganga að borga 525 millj. kr. á þessu ári, síðari hluta þessa árs, hvort sem hann hefur einhverja peninga til þess eða ekki, þ.e. hvort hann hefur yfir höfuð einhverja möguleika á því að leggja út fyrir slíkum veiðiheimildum. Á fundum í efh.- og viðskn. að undanförnu hefur verið upplýst að staða mjög margra sjávarútvegsfyrirtækja er ákaflega erfið. T.d. er ekki reiknað með því að þau geti mikið greitt af lánum sínum hjá Byggðastofnun og Fiskveiðasjóði við núverandi afkomu, enda í bígerð að skuldbreyta því svo til öllu. Þetta segir auðvitað sína sögu um stöðuna þarna. Hvernig eiga fyrirtæki sem ekki geta einu sinni greitt vextina, hvað þá afborganir, af þeim lánum sem þau hafa að geta tekið á sig nýjar álögur upp á u.þ.b. milljarð króna eins og fjárlagafrv., Hagræðingarsjóðsfrv. og aðrir fylgifiskar gera ráð fyrir? Satt best að segja gengur það ekki mjög vel upp. Þegar fyrirtæki taka á sig mikinn veltusamdrátt vegna aflasamdráttar, búa við bullandi taprekstur og eru svo illa stödd gagnvart langtímalánum sínum eða skuldbindingum að þau verða að fá þar frest af öllum afborgunum og vöxtum þá velja menn tímann til þess að henda yfir á sjávarútveginn rúmlega hálfum milljarði í nýjum útgjöldum af starfsemi sem hann hefur ekki þurft að greiða fyrir áður.
    Í þessu máli hefur allt of lítil orka farið í það að ræða sjálft úreldingarverkefnið sem Hagræðingarsjóði var ætlað að sinna öðrum þræði og ég held að það hljóti að vera ástæða til þess að eyða nokkrum mínútum í það jafnvel þó að klukkan sé farin að ganga átta, það sé fimmtudagur og það séu fáir í salnum og allt það. Hvað er verið að gera hér gagnvart því sem var tilgangurinn öðrum þræði með þessu brölti að reyna að koma á hagræðingu í íslenska flotanum og fækkun skipa og samræma betur afkastagetu flotans við núverandi afrakstursgetu fiskstofnanna. Ég held að þar sé verið að stíga mjög varhugavert skref og það merkilega kom í ljós að þegar frv. kom inn í sjútvn. hafði engin undirbúningsvinna verið unnin í því að spá í það hverjir yrðu þá burðir sjóðsins til þess að standa

fyrir úreldingu fiskiskipa eftir að búið var að taka af honum allt það fé sem áður hafði verið talið að hann gæti fengið fyrir veiðiheimildir. Eftir standa eingöngu iðgjaldatekjur sjóðsins upp á u.þ.b. 80 millj. kr. á ári. Ég fór þess vegna fram á það að tekið yrði saman eitthvað um líklega úreldingarþörf eða úreldingarverkefni í íslenska flotanum á næstu árum. Það varð til þess að útbúið var minnisblað um þetta, dags. 11. des. 1991, og það segir nú sína sögu um málatilbúnaðinn að slíkt gagn var ekki til. Ekkert hafði verið hugað að þeirri hlið málsins hvað verður þá um hagræðingu í flotanum og úreldingu og fækkun fiskiskipa ef veiðiheimildirnar verða allar teknar til hliðar og seldar til að kosta rekstur Hafrannsóknatofnunar og eingöngu iðgjaldatekjur sjóðsins og eigið fé hans til ráðstöfunar á næstu árum til að úrelda fiskiskip. Þannig lítur dæmið út að á undanförnum áratugum er búið að nurla saman um 600 millj. kr. í eigið fé og eru þar á ferðinni það eigið fé eldri sjóða sem Hagræðingarsjóðurinn yfirtók úr Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og gamla úreldingarsjóðnum. Húftryggingamat íslenskra fiskiskipa er hins vegar um 70 milljarðar kr. Það er dálagleg upphæð. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins sem eru í þessu minnisblaði má gera ráð fyrir því að um 10% af flotanum verði með einum eða öðrum hætti úreld á næstu árum. Þetta þýðir að af 83 ísfisktogurum sem eru með húftryggingarverðmæti upp á rúma 20 milljarða kr. og meðalverðmæti þeirra er 249 millj. kr. má að sögn ráðuneytismanna reikna með að sjö til átta verði úreltir á næstu fimm árum. Það má því samtals gera ráð fyrir því að til greiðslu úreldingarstyrkja fyrir sjö til átta togara fari 350--400 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir því að frystiskip verði úreld en þau eru 23 samkvæmt þessari flokkun að verðmæti um 9,4 milljarðar. Loðnuskipin eru 43, verðmæti þeirra er um 9,7 milljarðar, meðalverð 225 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að þrjú skip hverfi endanlega úr rekstri á næstu fjórum til fimm árum og það kosti 150 millj. kr. Bátar stærri en 100 brúttórúmlestir eru 186 og verðmæti þeirra 21 milljarðar 484 millj., meðalverð 115 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að samanlagðir úreldingarstyrkir til báta stærri en 100 brúttórúmlestir gætu því numið um 600 milljörðum kr. á næstu fimm árum og báta minni en 100 brúttórúmlestir sem eru 606 dekkaðir að verðmæti 8,7 milljarðar gætu numið um 160 millj. kr. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að miðað við þessar úreldingarforsendur eða forsendur um að úrelding fiskiskipa gæti orðið á þennan veg á næstu fimm árum í ljósi þess að úreldingarstyrkurinn verður hækkaður upp í 30% af húftryggingarverðmæti, færu um 1.300 millj. kr. til þess að kosta þessi úreldingarverkefni. Ég hygg að flestir séu sammála um það að þau væru þörf og þó meira væri miðað við núverandi stöðu mála. Þetta er í raun og veru ekki mikil fækkun skipa þegar það er haft í huga að þau sem bætast yfirleitt við á hinum endanum eru bæði stærri og afkastameiri en þau sem fara úr og eru úrelt (Gripið fram í.) en það hefur nú verið þannig hingað til, hæstv. sjútvrh. ( Sjútvrh.: Það hefur breyst með nýrri ríkisstjórn.) Já, það getur vel verið að það hafi eitthvað lagast og það var alveg orðin þörf á því því að það þýðir lítið að tala um fækkun fiskiskipa og minnkun flotans ef endalaust er gefið eftir með einhverjum teygjum í þeim efnum. Ég get verið sammála því að það hefði mátt setja harðari reglur um stærðarmörk við endurnýjun skipa eða nýbyggingar á undanförnum árum ef það er það sem hæstv. sjútvrh. er að boða. En sem sagt, þetta gæti þýtt 1.300 millj. kr. útgjöld. En hver er staðan? Hún er sú að samanlagt eigið fé Hagræðingarsjóðs og iðgjaldatekjur á næstu fimm árum eru ekki nema 1.000 millj. kr. Þó svo að allt eigið fé verði notað upp og öll iðgjöldin vantar 100 millj. kr. upp á sem úreldingarverkefnin gætu orðið dýrari en tekjumöguleikar plús eigið fé sjóðsins. Það sem mundi þá gerast væri að menn mundu eyða upp öllu eigin fénu, sólunda því í hvelli og þó þeir nýttu síðan alla iðgjaldamöguleikana vantar þá samt upp á 100 millj. kr. Hvert mundu menn þá sækja þær milljónir? Er ekki líklegt að þá kæmi upp þrýstingur á að hækka iðgjöldin í Úreldingarsjóð og þar með nýjar álögur á ferðinni á sjávarútveginn? Menn mundu auðvitað

telja mjög slæmt að geta ekki orðið við umsóknum um úreldingu fiskiskipa, a.m.k. við núverandi aðstæður hafandi það í huga að menn hafa yfirleitt talið að það mundi ganga þó nokkuð langt í þeim efnum og það væri til hagræðingar í sjávarútvegi. Miðað við núverandi ástand fiskstofna er ekki hægt annað en viðurkenna það. Að mínu mati hefur þessi hlið mála verið allt of lítið gaumgæfð. Ég leyfi mér því miður að halda það að hefði ég ekki orðið til þess að heimta þessar upplýsingar og krefjast þess að mat væri lagt á það hver úreldingarþörfin gæti verið þá hefðu menn sullað þessu í gegnum þingið án þess að svo mikið sem reyna að reikna þetta út því að þannig var staðan þegar málið var lagt fram. Þannig var hún, hv. 17. þm. Reykv., og vertu ekki endalaust að bera á móti staðreyndum. (Gripið fram í.) Þau lágu ekki fyrir því að þetta var tekið saman að ósk sjútvn. og er dags. 11. des. 1991 og skrifstofustjóri sjútvrn. sagði að þetta lægi ekki fyrir og var reyndar vælandi um hve erfitt væri að reikna þetta út. Ég hygg að hv. nefndarmenn í sjútvn. geti staðfest framburð minn. Sú tilraun var samt gerð sem er góðra gjalda verð, enda eru þeir sæmilega mannaðir í sjútvrn. Það ber að virða það sem vel er gert og brugðust þeir vel við þessari ósk og gerðu í samráði við samábyrgðina og aðra aðila sem upplýsingar hafa á þessu sviði að mínu mati heiðarlega tilraun til þess að slá á þetta einhverju máli og það var strax framför í málinu.
    Herra forseti. Það er eitt enn sem ég vil koma á framfæri og það er að ég tel það lagasetningarlegan sóðaskap að vera með þessi ákvæði um sölu veiðileyfa til að fjármagna ríkisstofnanir inni í lögum um Hagræðingarsjóð í ljósi þess hvert stefnir. Ég tel að þá eigi að kljúfa þessi ákvæði upp og hafa annars vegar lög um Úreldingarsjóð fiskiskipa sem er orðið algerlega óviðkomandi mál þessari stöðu veiðiheimildinna. Þá eigi að fara aftur á bak í það far að til sé Úreldingarsjóður fiskiskipa, sem heiti því nafni, fjármagnaður með iðgjaldatekjum og verkefni hans sé að úrelda fiskiskip. Hins vegar á að koma inn í lögin um stjórn fiskveiða ákvæði um að 12 þús. tonnum af úthlutuðum veiðiheimildum eigi að ráðstafa með þessum hætti sem hér er verið að tala um. Það er hið rökrétta varðandi lagatæknilega uppsetningu þessara mála. Salan á 12 þús. tonna veiðiheimildum og fénýting þeirra í þágu sameiginlegra verkefna sem áður hafa verið er orðið algerlega óviðkomandi mál úreldingu fiskiskipa, eins og m.a. hefur orðið skýrt af þeirri yfirferð sem ég hef hér farið yfir málefni úreldingarhliðarinnar. Ég vil beina þeim spurningum til hæstv. sjútvrh. hvort hann sé ekki tilbúinn til þess að ljá máls á því að uppsetningu þessara mála verði breytt með þessum hætti.
    Þá er það líka á réttum stað að mínu mati þegar hv. Alþingi tekur ákvörðun um það hvort það vilji standa að því að 12 þús. tonn af veiðiheimildum verði tekin og seld með þessum hætti. Þá er best að gera það í tengslum við umfjöllun um lög um stjórn fiskveiða en ekki dulbúa það inn í annars óskyld ákvæði um Úreldingarsjóð fiskiskipa sem er orðið gersamlega óskylt mál eins og hlutirnir eru hér settir upp. Ég held að það væri hreinlegra og heiðarlegra að horfast þá í augu við staðreyndir málsins að menn eru að taka ósköp einfaldlega tiltekinn hlut af veiðiheimildunum og selja þær til þess að ná peningum í ríkissjóð. Það er það sem er á ferðinni og það á ekkert að vera að blanda því saman við algerlega óskyld mál sem lúta að einhverjum greiðslum til þeirra sem úrelda fiskiskip. En ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að mönnum þyki það þægilegra og pólitískt að blekkja sjálfa sig með því að kalla þetta áfram Hagræðingarsjóð og læða þessu í gegnum lögin heldur en horfast í augu við þetta eins og það raunverulega er.
    Herra forseti. Margt fleira mætti um þetta segja og ég vænti þess að hæstv. ráðherrar verði til svara um þessi efni. Ég mun ekki taka því þegjandi að umræðunni ljúki án þess að hæstv. félmrh. svari einhverju til um þau málefni sveitarfélaganna sem hér eiga í hlut og ég hef gert að umtalsefni. Ég ætla að hlífa mönnum við því að blanda mér að

þessu sinni inn í umræðurnar um það hvort hér sé á ferðinni fyrsta eða annað skrefið að auðlindaskatti eða ekki auðlindaskatti, veiðileyfagjaldi, kvótaleigu eða guð má vita hvaða nafni það nefnist. Ég er eindreginn andstæðingur þess að veiðiheimildir holt og bolt verði settar á frjálsan markað og verði þar hæstbjóðendum til kaups. Ef það yrði gert með þeim hætti sem mestu öfgamenn í þeim efnum gæla við, þá held ég að það yrði skeflilegt og stórkostlegt sögulegt slys fyrir okkur Íslendinga, a.m.k. miðað við núverandi aðstæður í íslenskum sjávarútvegi og núverandi aðstæður í íslenskum byggðamálum. Það er langt í land fyrir það fyrsta að afkoma í þeirri grein sé neitt í þeim mæli að það væri yfir höfuð réttlætanlegt að standa fyrir þeim breytingum á afkomuhlutföllum í íslensku atvinnulífi sem það mundi hafa í för með sér fyrir utan alla aðra ágalla og hættur sem í því væru fólgnar.
    Herra forseti. Mig langaði til af því að hér eru sjávarútvegsmál til umræðu að nefna eitt mál að lokum sem er reyndar að nokkru leyti óskylt en það gefast sjálfsagt ekki mörg færi önnur betri á þinginu og af því að sjávarútvegsmál eru til umræðu leyfi ég mér að nefna það. Það tengist afkomu sjávarútvegsins og stöðu fjölmargra byggðarlaga og ég vænti þess að núv. forseti geri ekki athugasemdir við það þó að ég hreyfi því hér. Það varðar möguleika sjávarútvegsins sem nú eru til umræðu um að nýta sér saltsíldarmarkaði í Rússlandi sem nú má kalla svo á nýjan leik.
    Það hefur verið nokkuð til umræðu hvort við Íslendingar gætum komið með vissum hætti til móts við þarlenda með því að auðvelda þeim að eiga við okkur viðskipti um þessa vöru og veita lán samhliða sölusamningum á saltsíld þangað austur. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja hæstv. ríkisstjórn eindregið til þess að verða við þessum beiðnum og reyna að koma þeim í kring ef nokkur kostur er. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt af ýmsum ástæðum að við reynum að bregðast skynsamlega og mennilega við í þessum efni. Í fyrsta lagi tel ég að við séum að nokkru leyti skuldbundnir þeim aðilum sem við höfum átt við langvarandi og ábatasöm viðskipti sem rekja sig áratugi aftur í tímann og svo merkilega vill til að eiga upphaf sitt að nokkru leyti í hliðstæðum aðstæðum. Fyrrv. sjútvrh. Lúðvík Jósefsson tjáir mér meðal annarra að á sínum tíma komust saltsíldarviðskipti þar austur á að nokkru leyti vegna þess að Íslendingar voru tilbúnir til að lána Sovétmönnum fyrstu árin að verulegu leyti fyrir þeim síldarförmum sem þangað voru sendir fljótlega upp úr stríðinu þegar allt var í rúst og greiðslugeta Sovétmanna ekki mikil. Það kom á daginn og hefur rækilega sannast að þetta var skynsamleg ákvörðun sem menn tóku til að greiða fyrir viðskiptum og opna möguleikana á framtíðarviðskiptum inn á nýjan markað með því að þora að taka vissa áhættu og um áratuga skeið náðu Íslendingar miklum árangri í gegnum þetta farsæla upphaf samskipta við Sovétmenn. Ég hvet þess vegna hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórn til þess að reyna að gera það mögulegt að af þessum viðskiptum verði, a.m.k. í einhverjum mæli. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fullvissa hæstv. sjútvrh. a.m.k. um stuðning minn í því efni. Ég vil gjarnan að það liggi ljóst fyrir að ég fyrir mitt leyti og eftir því sem ég get haft áhrif innan míns flokks er tilbúin til að styðja það að reynt verði að gera þetta þó svo að þarna verði tekin einhver áhætta. Það mundi að sjálfsögðu koma sér vel fyrir okkur að geta áfram nýtt meira en minna af þessum stofni og verka hann til manneldis. Þeir framtíðarmöguleikar sem þetta kynni að opna okkur til áframhaldandi ábatasamra viðskipta þarna í austri, ef menn rísa þar úr rústunum og efnahagur batnar og kaupgeta eykst á næstu árum, væru svo sannarlega mikils virði.
    Þessu, herra forseti, leyfði ég mér að skjóta að af því að til umræðu eru málefni sjávarútvegsins. Þetta er eitt af þeim hagsmunamálum sem varðar bæði afkomu í greininni og hagsmuni þess fólks sem við sjávarútveg starfar, ekki síst um austanvert landið. Þar

sem forseti hefur ekki gert neinar athugasemdir við þetta hliðarspor í umræðum um dagskrármálið tek ég það svo að við það séu ekki athugasemdir. Enda mun það vera svo að stundum hafi mönnum leyfst að taka jafnvel öllu óskyldari mál til umræðu í hinum og þessum dagskrármálum en þetta var án þess að það væri átalið. Menn eru þó nokkuð slegnir yfir fordæmi því, hinu eina og nýja, sem varð á þinginu fyrir jólin.
    Herra forseti. Ég ætla þá að ljúka máli mínu með tilliti til þess að klukkan er senn 7.30 og ákveðið hafði verið að gera þá hlé á fundum. Ég vil ekki halda hv. þm., þeim sem enn hafa þraukað, lengur en boðað hafði verið. Svo kann að fara að ég sjái ástæðu til að blanda mér eitthvað lítillega í umræðuna síðar. Ég mun þó vonandi fyrr fá að hlýða á svör hæstv. ráðherra, ekki síst hæstv. félmrh. Ég bind nokkrar vonir við að vissar upplýsingar gætu litið dagsins ljós áður en umræðu um þetta frv. lýkur og þá sérstaklega frá Sambandi sveitarfélaga um stöðu sveitarfélaganna í þessu samhengi og þær byrðar sem þau hafa tekið á sig að undanförnu og eru að taka á sig vegna stöðunnar í sjávarútveginum. Ég leyfi mér að spá því að hv. alþm. gætu þótt áhugaverðar þær upplýsingar sem þar koma fram um þær geysilegu byrðar upp á mörg hundruð milljónir kr. sem sveitarfélögin hafa verið að taka á sig sem í sumum tilfellum nema fleiri tugum þúsunda á hvern mannsbarn í viðkomandi sveitarfélögum.