Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 19:27:00 (2632)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég grennslaðist fyrir um það hjá hæstv. forseta hvort mér væri heimilt að veita andsvar við frammíköllum þar sem þau voru drjúgur hluti af ræðu hv. seinasta ræðumanns. Svo mun ekki vera og mun ég þá veita andsvar við ræðu þeirri sem hér var flutt. Ég vil taka það skýrt fram vegna ræðu hans að í sjútvn. kom sérstaklega fram að forsvarsmenn byggðarlaga, þeir sem við fengum á fund okkar, töldu að það væri mjög mikilvægt að halda inni óbreyttu ákvæði um að Hagræðingarsjóður gæti varið allt að helmingi sinna veiðileyfa til byggðarlaga og þá jafnvel án endurgjalds. Jafnvel þótt þessar heimildir hafi ekki verið notaðar, þá eru forsvarsmenn sveitarfélaga og samtaka þeirra sem komu á fund nefndarinnar á einu máli um það að það sé mjög mikilvægt að halda þessu ákvæði inni og það óbreyttu.