Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 14:33:00 (2638)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða þessa samþykkt ríkisstjórnarinnar efnislega hér og nú. Ég hef einungis eina spurningu fram að færa til hæstv. forsrh. Hún er um eðli þessarar samþykktar. Ber að skoða þessa samþykkt sem formlegan fyrirvara sem lagður verður fram sem svar ríkisstjórnar Íslands við hugmyndum eða tillögu Dunkels eða ber að skilja þetta sem yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem ætluð sé til heimabrúks eða verður henni einungis komið á framfæri sem innlegg í ræðu hæstv. utanrrh. eða formælanda Íslands í þessum umræðum? Þetta er spurning mín til hæstv. forsrh. og áður en umræðan heldur áfram tel ég að það væri mjög nauðsynlegt að fá þetta á hreint.
    Jafnframt vil ég óska eftir því að efnt verði síðar í dag til sameiginlegs fundar utanrmn. og landbn. þar sem þessum nefndum í félagi gefist tækifæri til þess að fara yfir þetta mál og fá til viðræðna menn úr ráðuneytum og þá sem hafa komið að samningu þessa svars og fá að líta á þau gögn sem lögð hafa verið til grundvallar við samningu þessarar yfirlýsingar.