Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 14:36:00 (2640)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir greinargerð hans til þingsins og svör hans hér áðan og ég vil fagna því að það hefur tvímælalaust orðið mikill árangur af umræðum um þetta mál á Alþingi og annars staðar í þjóðfélaginu síðustu daga. Sú afstaða sem hér er kynnt er í grundvallaratriðum önnur og að mínu mati mikið jákvæðari í þágu íslensks landbúnaðar heldur en sú sem hæstv. utanrrh. hafði í umræðum og fjölmiðlum undanfarnar tvær vikur eða svo kynnt og boðað. Hér er með tiltölulega skýrum hætti komið á framfæri, að mínu mati, þeim veigamestu efnisatriðum sem við Íslendingar verðum að fá breytt í þessu samkomulagi til þess að það sé ásættanlegt. Með öðrum orðum er samningsdrögum Dunkels hafnað og það viðurkennt að eins og þau liggja fyrir óbreytt getur Ísland ekki gerst aðili að þessum samningi.
    Ég tel að efnislega sé í töluliðunum 1--5 í samþykkt ríkisstjórnarinnar komið mjög langt í áttina til þeirra sjónarmiða sem sett voru fram hér á Alþingi af fjölmörgum þingmönnum flestra flokka. Ég tel að það séu ekki nema nokkur atriði sem vanti upp á og svo hitt að gera orðalag hvað þessa efnisþætti snertir afdráttarlaust. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsrh. í framhaldi af því að ég tók orð hans hér áðan sem yfirlýsingu um að þetta yrði lagt fram á forminu ,,fyrirvari af Íslands hálfu`` á mánudaginn kemur. Verður þá ekki samþykktin umorðuð þannig að efnisatriðin sem talin eru upp í liðum 1--5 verði sett fram á forminu fyrirvarar eða skilyrði af Íslands hálfu? Að mínu mati skiptir það mjög miklu máli og ég tek í því efni einnig undir spurningu hv. 1. þm. Norðurl. v. Þessu hlýtur að vera unnt að svara tiltölulega einfaldlega með já eða nei. Ekkert annað hefur frést en að fresturinn til 13. jan. nk., á mánudaginn kemur, standi enn óhaggður sem lokafrestur fyrir einstakar þjóðir til að koma afstöðu sinni og fyrirvörum á framfæri og þess vegna er mjög mikilvægt að skýrt svar komi við spurningunni. Sem sagt, það sé rétt skilið og réttur skilningur á orðum hæstv. forsrh. að þetta verði lagt fram á mánudaginn kemur sem formlegur fyrirvari og þá fært í þann búning umorðað á þann hátt að það sé afdráttarlaust. Ég tek þá einnig sem gefið að Ísland muni ganga í hóp með öðrum þjóðum og EFTA-þjóðunum sérstaklega sem hafa á undanförnum dögum leitað samstöðu um að gera ýmiss konar athugasemdir við þessi drög og hafna þeim óbreyttum og sé sá skilningur minn réttur fagna ég því en bið hæstv. forsrh. gjarnan að staðfesta það.
    Enn fremur er það svo og beini þeirri ósk minni til hæstv. forseta að möguleiki verði fyrir hendi til þess að skiptast enn á skoðunum um málið ef þörf krefur að mati forustumanna flokkanna á þriðjudaginn kemur í ljósi þeirra frétta sem þá verða væntanlega komnar frá Brussel.
    Að lokum, hæstv. forseti, fagna ég því að málefnalegar umræður á Alþingi og viðbrögð ýmissa hagsmunaaðila úti í þjóðfélaginu hafa skilað miklum árangri og hæstv. ríkisstjórn hefur tekið mikið tillit til þeirra sjónarmiða og skoðana sem þar voru fram sett. Það er mjög mikilvægt og ég treysti því að þau sjónarmið verði virt í framkvæmd og þeim verði fylgt eftir.