Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 14:40:00 (2641)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir að flytja Alþingi munnlega skýrslu um þetta mikilvæga mál. Ég hafði óskað eftir því nokkrum vikum fyrir jól að hæstv. landbrh. flytti slíka munnlega skýrslu þannig að við gætum tekið þetta mál þá til efnislegrar umræðu. Því miður varð ekki af því og eins og hæstv. utanrrh. orðaði það var það af því að ekkert markvert var að gerast í málinu.
    Það hefur nú komið í ljós að það er öðru nær og sem betur fer hefur ríkisstjórnin tekið tillit til þeirrar umræðu sem hefur farið fram á vegum bændasamtakanna og annars staðar í þjóðfélaginu og umræðunnar á Alþingi í þessari viku þar sem kom skýrt fram hver væri vilji yfirgnæfandi meiri hluta þingmanna.
    Í þessum punktum sem hæstv. forsrh. las er komið til móts við ýmsar þær ábendingar sem við höfðum sett fram. En ég get ekki neitað því að ég sakna þess að við skulum ekki jafnframt fá í hendur þau gögn sem ríkisstjórnin hefur notað til þess að vega og meta kosti samningsdraganna fyrir íslenskt þjóðfélag. Ég vil ekki trúa öðru en það hafi farið fram á vegum utanrrn. nákvæm úttekt á því hvernig hvert einstakt atriði í þessum samningsdrögum mundi koma út fyrir íslenskan landbúnað. Þess vegna vil ég taka undir þá ósk, sem er ákaflega mikilvæg, að haldinn verði sameiginlegur fundur í utanrmn. og landbn. þar sem öll þessi gögn verða lögð fram svo að nefndarmenn geti í góðu tómi vegið og metið hvað er á ferðinni.
    Ég spurði hæstv. landbrh. að því í umræðum utan dagskrár á þriðjudaginn hvort landbn. yrði ekki kynnt málið áður en efnisleg afstaða væri tekin í því og hæstv. landbrh. gaf afdráttarlaust svar að það yrði gert. Verð ég því að láta í ljós vonbrigði mín að við það skyldi ekki verða staðið áður en þessi gögn voru afgreidd endanlega frá ríkisstjórninni og að mér skilst send út þegar til viðræðna á erlendum vettvangi. En það er ekki fyrr en á mánudaginn sem fundur verður haldinn í GATT-nefndinni og því er tóm til að skoða málið betur fram að þeim tíma. Mér sýnist þó við fljótan yfirlestur að ýmislegt vanti í þessa fyrirvara. T.d. er ekkert sem snertir búgreinar eins og svínarækt, kjúklingarækt og jafnvel garðrækt þannig að þær standa jafnberskjaldaðar eftir sem áður hvað þetta snertir. Vissulega er það íhugunarefni og ég vildi þá varpa fram þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hann ætlast til að þessar búgreinar séu þar með felldar niður að meira og minna leyti hér á landi eins og var niðurstaða í áliti Ketils Hannessonar að mundi fara ef þar yrði ekki betur um hnúta búið.
    Ég vil einnig benda á að ekki er minnst á lágmarksaðganginn en í lauslegri þýðingu frá aðstoðarmanni landbrh. um samninginn stendur á einum stað að hvað varðar kröfur um aukinn aðgang, lágmarksaðganginn, skal taka fullt tillit til lækkunar skuldbindinga á sviði útflutningssamkeppni. Er ekki ástæða til þess að nota sér þetta, draga úr kröfunni um lágmarksinnflutning á grundvelli þess að við erum nú búin að taka ákvörðun um að fella niður útflutningsbæturnar? Það er því margt sem í hugann kemur, en ekki er tími til þess nú að ræða það frekar en ég vonast til þess að landbn. og utanrmn. skoði málið rækilega þannig að mönnum sé fyllilega ljóst í hvað er verið að stefna og raunverulega fallist á hvað varðar önnur atriði en þau sem fyrirvarar eru settir fram um í samþykkt ríkisstjórnarinnar.