Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:12:00 (2647)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Það mátti vel heyra að sá undirtónn sem var í þessum umræðum nú var allt annar en þegar GATT-viðræðurnar bar síðast á góma hér í hinu háa Alþingi og greinilegt að alþingismenn telja að þær athugasemdir og þeir fyrirvarar sem felast í samþykkt ríkisstjórnarinnar í dag gangi í höfuðdráttum í þá sömu átt og um hefur verið talað og þeir hafa kosið þó ég geri mér auðvitað grein fyrir því að alltaf má bæta einni setningu við og lengi mætti til tína áður en hv. þm. eins og minn góði vinur hv. 3. þm. Norðurl. v. yrði að fullu og öllu ánægður með það sem íhaldið gerir.
     Ég sé ástæðu til að víkja að nokkrum efnisatriðum. Ég vil fyrst víkja að því sem hann hélt hér fram að við hefðum ekki tekið þátt í samstarfi Norðurlandanna til að koma fram leiðréttingum og sagði að við hefðum sagt pass og ekki hreyft okkur í sambandi við Kanada-tillöguna á þeim fundi sem haldinn var í desembermánuði sl. Þetta er ekki rétt. Fulltrúar landbrn. voru hafðir með í ráðum og hafa jafnan mætt á fundum þegar þeir hafa verið kallaðir til af landbúnaðarráðuneytum annarra Norðurlanda og það hefur verið bæði samband og samráð milli landbrn. Íslands og annarra Norðurlanda. Ég vil líka að það komi skýrt fram að það hefur verið, síðan ég settist í stól landbrh., fullt samráð og mjög gott samband vil ég segja við forustumenn bænda þannig að undan því hefur ekki verið kvartað við mig að minnsta kosti. Ég stend því í þeirri meiningu að það sé síst lakara en áður var.
    Við Íslendingar áréttuðum í desember þá fyrirvara sem við höfum áður gert. Við höfum ekki kallað til baka það tilboð sem síðasta ríkisstjórn lagði fram á haustdögum 1990 og finnski fulltrúinn lýsti yfir sameiginlegum fyrirvörum okkar við lokaumræðurnar í Genf nú í desembermánuði eins og fram hefur komið á fundum með landbrn. og fulltrúum bændasamtakanna. Þannig er alveg ljóst að við höfum viljað fylgjast með þessum umræðum. Við höfum lagt áherslu á samstarf við önnur Norðurlönd og það er ekki rétt sem hér var sagt að við hefðum sagt pass og ekki hreyft okkur þegar þessi mál hefur borið á góma innan GATT.
    Það hefur verið að okkur vikist fyrir það að við skyldum ekki hafa gerst tillögumenn að Kanada-tillögunni. Auðvitað er erfitt að meta það hverju sinni hvernig menn ná best sínum hagsmunum. Kanada-tillagan gekk út á það að við gætum verið með innflutningstakmarkanir á þær vörur sem væru með framleiðslutakmarkanir og fleiri ákvæði voru þar en hefði ekki verið fullnægjandi fyrir okkur eins og þær kröfur eru settar fram núna. Á hinn bóginn hygg ég að hv. þm. hljóti að viðurkenna að sá fyrirvari og sá rökstuðningur sem er í þessari samþykkt varðandi innflutningstakmarkanir eru á öðrum forsendum og sterkari en áður hefur komið fram af okkar hálfu. Hér er lögð áhersla á að þær þjóðir sem leggi niður útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir hafi heimildir til að verja sinn

heimamarkað með öðrum hætti og strangar en aðrar þjóðir sem kjósa að hafa hlaup inn á aðra markaði. Og þá skulum við kannski reyna líka að átta okkur á því að það er síður en svo vegna þess að menn vilji landbúnaðinum illt eða sé illa við bændur sem þeir reyna að koma sér saman um frjálsari viðskiptahætti með landbúnaðarvörur á jafnvíðtækum grundvelli eins og gert er innan GATT. Það er þvert á móti viðurkenning á því að of mikill opinber stuðningur við þessa framleiðslu hefur leitt til offramboðs sem aftur hefur kallað fram niðurboð á landbúnaðarvörum á alheimsmarkaði og þannig komið í veg fyrir eðlileg alþjóðaviðskipti með landbúnaðarvörur. Það er auðvitað viðleitni til að sporna gegn þessu sem er ráðandi um það að í GATT-viðræðunum nú er lögð höfuðáhersla á að ljúka kaflanum um landbúnaðarmálin.
    Þegar menn spyrja um þá fyrirvara og það innihald sem felst okkar tillögum vil ég vekja athygli á að við segjum hér á einum stað: ,,Samkomulag um landbúnaðarkaflann er hins vegar forsenda þess að heildarsamkomulag náist og verður hann ræddur nánar á næstunni.`` Við tökum fram í niðurlagi: ,,Ekki er enn komið að því að Ísland taki bindandi afstöðu til hins nýja fyrirkomulags heimsviðskipta sem nú eru í smíðum.`` Auðvitað geta menn ekki í miðjum samningaviðræðum, í miðri lotu að svo umfangsmiklum samningi, svarað til hlítar ýtrustu spurningum sem eru bornar fram með því hugarfari að gera tortryggilegt það sem að er unnið. En ég vil á hinn bóginn minna á að þeir sömu menn sem hér hafa mest gagnrýnt að ég skuli ekki hafa átt nánara samstarf við landbn. en raun ber vitni kusu það á síðasta kjörtímabili að halda Sjálfstfl. utan við viðræður við Evrópubandalagið. Það er meira að segja svo enn þann dag í dag ef maður óskar eftir að fá til fullnustu upplýsingar um hvers eðlis tillaga síðustu ríkisstjórnar var í GATT-viðræðunum haustið 1990 þá ber fyrrv. ráðherrum ekki saman. Mér er raunar sagt að ekki sé að finna þau fylgigögn með því tilboði sem þó er sagt í tilboðinu að fyrir liggi. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. geti líka rifjað upp að það fór lítið fyrir þessu tilboði og þeirri vinnu sem á bak við það lá fyrir síðustu kosningar. Má raunar segja að hið sama hafi átt við um aðdragandann og vinnuna að því að ná sómasamlegri niðurstöðu í sambandi við hið Evrópska efnahagssvæði. Þá hafði fyrri ríkisstjórn kosið að sitja hjá þegar landbúnaðarmál voru rædd og það var ekki fyrr en eftir stjórnarskiptin sem fulltrúar landbúnaðarins mættu á þeim fundum sem þau mál varðaði og það mál var með formlegum hætti tekið upp milli bændasamtakanna og landbrn. Ég vil að þetta komi fram vegna þeirra aðfinninga sem hér hafa komið fram frá einum hv. þm. um að við höfum ekki hreyft okkur í sambandi við samstarf Norðurlanda og þær umræður sem hafa átt sér stað um nýjan GATT-samning.
    Ég tek auðvitað undir það sem hér hefur verið sagt af ýmsum alþingismönnum að okkar afstaða felur það ekki í sér að landbúnaðurinn skuli áfram vera í sömu framleiðslu- og markaðsviðjum og hann hefur verið. Ég lýsti því yfir á fundi Stéttarsambands bænda á sl. hausti að það væri óhjákvæmilegt fyrir bændur að búa sig undir að rýmkað yrði um þau innflutningshöft sem væru á landbúnaðarvörum. Og það vakti raunar sérstaka athygli mína að ýmsir bændur, sem njóta mikils trausts í sínum héruðum, tóku undir þessi sjónarmið og lögðu m.a. ríka áherslu á að borin von væri að neytendur sættu sig til lengdar við bann við innflutningi á landbúnaðarvörum nema það tækist að ná fram verulegri lækkun á þeim. Það er af þessum sökum og líka vegna alþjóðlegra samninga GATT og ýmislegs annars sem nú ríður á því að reyna að ná fram þeirri hagræðingu í vinnslustöðvum landbúnaðarins sem hefur verið boðuð bæði af eigendum vinnslustöðva og af bændasamtökunum á undanförnum árum. Hins vegar eru þar ýmis ljón í veginum sem koma í veg fyrir að hægt sé að vinna að því verkefni eins hratt og menn hefðu kosið og skal ég ekki víkja nánar að því í þetta skipti.
    Ég held, hæstv. forseti, að menn eigi ekki að gera lítið úr þeirri samþykkt sem hér

liggur fyrir, hún er veganesti fyrir fulltrúa ríkisstjórnarinnar á þeim fundi sem einmitt á þessari stundu er haldinn í Ósló þar sem Norðurlandaþjóðirnar skiptast á skoðunum og ræða hvort þeim takist að ná samkomulagi um sameiginlega yfirlýsingu innan GATT eða hvort einstakar þjóðir sjái ástæðu til að gera sjálfar grein fyrir sínu máli. Auðvitað er ekki vafi á því að rödd okkar yrði sterkari ef okkur tækist að ná samstöðu um hagsmuni okkar við aðrar Norðurlandaþjóðir en Dani. Ég skal ekki segja um hvernig það gengur en við höfum reynt að undirbúa þennan fund eins og við höfum getað. Afstaða ríkisstjórnarinnar liggur fyrir og með sterkri viljayfirlýsingu og þeim fyrirvörum sem felst í samþykkt ríkisstjórnarinnar.