Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:23:00 (2648)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi froseti. Ég vil í upphafi mótmæla því sem fram kom í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. að hæstv. utanrrh. hefði haldið á þessu máli af lausung, eins og mér heyrðist hann orða það hér áðan. Þetta er fjarri öllu lagi eins og sú samþykkt, sem hæstv. forsrh. kynnti hér við upphaf þessarar umræðu, ber órækan vott. Samþykktin, sem ber að skilja, eins og fram kemur í henni sjálfri, sem erindisbréf þeirra embættismanna sem fara með þetta mál fyrst á vettvangi samstarfs Norðurlanda og síðar sem samninganefnd Íslands í viðskiptasamninganefnd GATT í Genf á þeim fundi sem hefst á mánudag, sýnir mjög glöggt að þarna hefur verið gætt mikilvægustu atriðanna sem varða íslenska hagsmuni. Í fyrsta lagi ítrekum við það sjónarmið okkar að unnið verði að því að fá fram tollalækkun á sjávarafurðum sambærilegri við þá sem gildir um aðra vöruflokka, bæði á sviði iðnaðar og landbúnaðar. Og ekki síður að okkar afstaða sé ítrekuð að einnig skuli stefnt að því að lækka ríkisstyrki á sviði sjávarútvegsins þannig að Íslendingar fái að njóta yfirburða sinna í framleiðslu á sjávarvörum á alþjóðavettvangi. Þetta er framtíðarmálið. Um leið ber samþykktin þess líka glöggan vott að allt hefur verið gert sem hugsanlegt er innan ramma þessara viðræðna til að gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar á eðlilegan hátt um leið og hagsmuna neytenda er gætt. Þarna er reynt að gera það sem gera þarf til að taka tillit til sérstöðu Íslands vegna einangrunar bústofna hér á landi. Þarna er líka drepið á það sem ekki er sama eðlis en þó mjög mikilvægt að við höfum farið fram úr öðrum þjóðum í lækkun útflutningsstyrkja með þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið um að fella útflutningsbæturnar niður næsta haust. Við munum að sjálfsögðu halda því fast fram að við fáum viðurkenningu á þessu í öðrum þáttum í framkvæmd þessa samkomulags.
    Ég vil að lokum ítreka það sem fram hefur komið að við erum hér ekki að tala um formlega fyrirvara enda liggur ekki fyrir samningur eða samkomulag. Við erum að tala um þau sjónarmið sem talað verður fyrir í frekari vinnslu málsins. Fyrst á vettvangi Norðurlandasamstarfsins, síðan í samningunum í samninganefnd GATT. Þetta segir sig alveg sjálft þegar menn skoða þennan texta og er mjög mikilvægt að menn hafi skýrt fyrir hugskotssjónum. Því eins og kemur fram í lokaorðum þessarar samþykktar þá er enn ekki að því komið að Ísland taki bindandi afstöðu til hins nýja samkomulags. Við munum eins og aðrar þjóðir áskilja okkur rétt til að taka afstöðu til samkomulagsins þegar það liggur fyrir í ljósi þess jafnvægis sem gagnkvæmir hagsmunir aðildarríkja að samkomulaginu munu ná. Þetta er að sjálfsögðu það sem hver maður getur lesið í þessari samþykkt. Ef menn vilja kalla þetta fyrirvara þá geta þeir gert það því við munum tala mjög ákveðið fyrir þessu máli. Ég bendi sérstaklega á að þarna eru hlutir eins og þeir sem varða strangar kröfur á sviði heilbrigðiseftirlits og minni á það sem fram kom hér í umræðunum um málið þann 7. þessa mánaðar þar sem þessu var öllu mjög rækilega til skila haldið.
    Að endingu, virðulegur forseti, þá er það nú e.t.v. mikilvægara á okkar dögum en nokkru sinni fyrr fyrir fámenna þjóð sem á næstum allt sitt lífsviðurværi undir alþjóðaviðskiptum að skýrar alþjóðlegar reglur gildi um þau viðskipti. Það stendur núna þannig á að við getum alls ekki skákað í því skjóli að við njótum allra þeirra kjara sem gamla GATT-samkomulagið færði okkur ef nýtt næst. Þetta er afstaða stærstu aðilanna sem að þessum samningatilraunum standa og við hljótum að taka mið af því í hagsmunagæslu fyrir Ísland. Um það snýst þetta mál fyrst og fremst en ekki eingöngu um hagsmuni einstakra atvinnugreina.