Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:30:00 (2650)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Herra forseti. Vegna þess að hæstv. forsrh. nefndi áðan að ég komið inn á að a-liður 4. töluliðar í því plaggi, sem hann hafi lagt fram, mundi ekki ná nema e.t.v. til osta sem útflutningsbætur hefðu náð til hjá okkur en skilningur hans var, samkvæmt því sem hann sagði, að þetta næði yfir mjólkurafurðir almennt þá vil ég upplýsa hann um það og vona að ríkisstjórnin taki það til greina þegar hún fer að fjalla um þetta mál að þarna er um fleiri ein einn tollflokk að ræða fyrir mjólkurafurðir. Þeir eru a.m.k. fimm, þannig að vissara er að orða þetta öðruvísi en hér er gert. Það yrði að taka það fram að þetta ákvæði ætti við fleiri vörur en þær sem við höfum verið með útflutningsbætur á þannig að það gildi ekki fyrir mjólkurafurðir almennt ef hér hefur aðeins verið um t.d. osta að ræða. En ég vænti þess að nefndarmenn í landbn. og utanrmn. viti um þetta og sjálfsagt verður það þá tekið fyrir ef þær nefndir verða kallaðar saman til að fjalla um þetta.
    Síðan væri mjög fróðlegt fyrir okkur þingmenn að fá nánari skilgreiningu á því hvort hæstv. viðskrh. skilur þessa hluti rétt eða hæstv. forsrh. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. viðskrh. talaði um að þetta plagg væri erindisbréf og þarna væri ekki um formlega fyrirvara að ræða. Það er kannski eðlilegt vegna þess að hann var ekki hér í upphafi umræðnanna enda var vakin athygli á því að enginn alþýðuflokksmaður var hér þá. En þar sem við höfum tvo ráðherra, viðskrh. og utanrrh., sem koma til með að hafa mikið um þetta mál að segja þá held ég að það væri rétt að hér væri tekin afstaða til þess hvort það er þeirra skilningur sem ræður þegar farið verður að ræða þessi mál eða hvort það er skilningur forsrh.?