Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:33:00 (2651)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Það hefði e.t.v. betur verið svo til enda þessarar umræðu að enginn alþýðuflokksmaður hefði verið viðstaddur. En hæstv. forsrh. kom hér og talaði skýrt og skilmerkilega fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og margnefndi í sínum tveimur ræðum orðið fyrirvari. Ég tek það sem gefið að hæstv. forsrh. tali hér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Og svo lengi sem því verður ekki breytt þá standi það óhaggað að þetta skjal verði efnislega fyrirvari af Íslands hálfu sem settur verði fram á mánudaginn kemur. Að vísu notaði hæstv. forsrh. orðið athugasemdir og fyrirvara en ég gaf mér það að í því skjali, sem sent yrði væntanlega á erlendum tungum til GATT á mánudaginn kemur, kæmi það alveg skýrt fram að hér væru settir fram fyrirvarar Íslands við þeim samkomulagsdrögum sem Dunkel hefur lagt fram. Og ég tel, í ljósi þess sem hér hefur gerst í þinginu undanfarna daga í þessum efnum, mjög æskilegt að landbn. og utanrmn. sem upplýst hefur verið að muni halda fundi fái til umfjöllunar hinn endanlega texta, hið endanlega bréf eða hina endanlegu greinargerð á því formi sem það verður sent. Ég er sérstaklega að segja þetta með hliðsjón af ótrúlegum ummælum hæstv. viðskrh. hér í ljósi þess sem hæstv. forsrh. hafði þegar sagt fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að hér sé ekkert annað eða meira á ferðinni en erindisbréf til embættismanna. Erindisbréf til embættismanna, eins og hæstv. viðskrh. sagði. Og reyndar tók hann það fram að hér væri alls ekki verið að tala um formlega fyrirvara. Þau orð hljóta að falla dauð og ómerk í ljósi þess sem hæstv. forsrh. hafði áður sagt og ekki hefur verið dregið til baka. Og það er auðvitað of seint fram komið af hálfu hæstv. viðskrh. að ætla að reyna með þessum hætti að barna það sem áður hafði verið skýrt og skilmerkilega fram sett fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar nema það hafi orðið höfðaskipti á hæstv. stjórnarheimili á þeim mínútum sem liðu milli ræðna hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að taka meiri tíma. Ég fagna því að utanrmn. og landbn. koma saman til fundar og ég ítreka það sem mína skoðun m.a. í ljósi þess að ótvíræður meirihlutavilji liggur fyrir hér á Alþingi. Og ég tel að sá vilji felist í því að þetta verði sett fram sem efnislegir og formlegir fyrirvarar af Íslands hálfu. Öll efnisatriðin, sem í skjali ríkisstjórnarinnar eru, auk þess sem æskilegt væri að utanrmn. og landbn. ræddu þau viðbótarefnisatriði sem hér hefur verið bent á að gjarnan mættu fylgja með í skjalinu. Það er æskilegast að mínu mati til að varðveita þá yfirgnæfandi samstöðu sem í þessu máli hefur tekist að hið endanlega skjal og þá ekki síst form þess eða haus komi til skoðunar í utanrmn. samanber og lagaákvæði um samráð ríkisstjórnar við þá fagnefndina sem í þessu tilviki er landbn. áður en skjalið fer í póstinn.