Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:44:00 (2656)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Það mál sem hér er á dagskrá um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins hefur hlotið allnokkra umræðu á hv. Alþingi. En það sýnir sig að það veitir ekki af að ræða mál ítarlega og eftir því sem þau fá ítarlegri umræðu því meiri líkur eru til að einhverjar lagfæringar verði gerðar að lokum. Hér er um að ræða breytingu á lögum sem tóku gildi 1. jan. 1991. Þessi löggjöf er ekki nema árs gömul og það vildi svo til að í þessari löggjöf voru í ákvæðum til bráðabirgða, mjög skýr og ákveðin ákvæði um endurskoðun

þessarar löggjafar þannig að enginn hefði átt að velkjast í vafa um það hvernig sú endurskoðun ætti að fara fram.
    Nú er það svo að lögin um stjórn fiskveiða ásamt þeim lagabálki sem hér er til umræðu um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins eru í endurskoðun í nefnd stjórnarflokkanna sem varð til með miklum endemum. Síðan er vaðið inn í þessa löggjöf og tekið og samið frv. á vegum ríkisstjórnarinnar. Ekki hefur verið haft neitt samráð um það frv. við þá aðila sem er þó skýrt tekið fram í lögunum að eigi að hafa samráð við um þessa endurskoðun. Þetta hefur komið fram í þessari umræðu áður. Það stendur skýrt hér í ákvæði til bráðabirgða II: ,,Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi við þá endurskoðun.``
    Það væri rétt á þessu stigi að vísa því til hæstv. forseta hvort hann er ánægður með það að þingið skuli vera sniðgengið með þessum hætti. Ef um það er deilt hvort þingið hafi verið sniðgengið væri auðvelt að fá álit Lagastofnunar Háskólans eða einhverra hlutlausra aðila. Ég tel að takmörk séu fyrir því hvað Alþingi getur látið bjóða sér í sambandi við löggjöf og auðvitað er ekki hægt að bjóða Alþingi það að það sé sniðgengið við endurskoðun löggjafar. Það er skýrt kveðið á um að samráð eigi að hafa við sjávarútvegsnefndir um þá endurskoðun. Það getur vel verið að menn greini á um það hvað samráð sé, hvort samráð sé samvinna við undirbúning frumvarpa eða hvort samráð eigi að vera bara eftir á þegar frumvörpin eru komin fram og eru til meðferðar í hv. Alþingi. Ef það væri ætlunin að samráð væri eingöngu á því sviði væri óþarfi að taka slíkt fram í löggjöf. Auðvitað er þetta tekið fram í löggjöfinni vegna þess að ætlast er til að á undirbúningsstigi sé haft samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis.
    En þetta frv. er bara í samræmi við þann flumbrugang sem einkennir lagasetningu hjá þessari ríkisstjórn á miklu fleiri sviðum. Hér erum við þessa dagana og vorum fyrir jól á löngum fundum og með ítarlegum umræðum að fjalla um alls konar löggjöf sem hefur verið hnýtt inn í svokallað frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar er ríkisstjórnin að breyta ýmsum viðkvæmum lagabálkum sem eiga að gilda til lengri tíma. Þar er hnýtt inn ákvæðum um að breyta löggjöf um skólamál. Nú síðast, sem frægt er, er hin mjög viðkvæma löggjöf um almannatryggingar. Henni er hnýtt inn í þennan bandorm þannig að það er engin nýlunda með þetta frv. að vaðið sé inn í þá viðkvæmu löggjöf sem hér er um að ræða og sem er það viðkvæm að hv. Alþingi hefur þótt ástæða til að kveða sérstaklega á um það í lagagrein hvernig lögin skuli endurskoðuð. Það er meira en lítið vafasamt --- þó að mér séu fullljós vandræði og vandkvæði í ríkisfjármálum og slæm staða ríkissjóðs --- og það er ekki næg ástæða til þess að brjóta upp viðkvæma löggjöf á mörgum sviðum og afgreiða hana á handahlaupum í kringum jól og áramót eins og vill verða í sambandi við fylgifrumvörp fjárlaga.
    Þetta mál kemur inn á umræður um stjórn fiskveiða og stjórn fiskveiða er eitthvert stærsta mál og áreiðanlega það alstærsta sem er fjallað um í hv. Alþingi. Lögin um stjórn fiskveiða eru aðeins ársgömul, eins og ég sagði hér í upphafi, ásamt lögunum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Það virðist vera sem hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliðar, ef þeir samþykkja þetta frv., hafi enga þolinmæði til þess að sjá hvernig sú löggjöf reynist sem hér um ræðir. Það er þó eitthvað það alversta fyrir þá sem starfa í sjávarútvegi, fyrir fólkið sem starfar þar og fyrir hagsmunaaðila þar, þá sem eiga að reka sjávarútvegsfyrirtæki að vita aldrei hvar þeir standa. Vita aldrei hve lengi sú löggjöf stendur sem þeir eiga að búa við. Því er ekki að leyna, eins og hefur komið fram í þessari umræðu fyrr, að þetta frv. er afsprengi þeirrar stefnumörkunar Alþfl., ef svo má segja, að koma hér á auðlindaskatti í sjávarútvegi. Það hefur komið fram hjá form. Alþfl., hæstv. utanrrh., að hann lítur á þetta frv. sem fyrsta vísi að komandi veiðileyfakerfi í sjávarútvegi. Auðvitað er

veiðileyfakerfi, það er alveg sama hvaða nöfn menn hafa um það, ekkert annað en auðlindaskattur, annað er bara orðhengilsháttur og það er stefnumál Alþfl. að koma slíkum auðlindaskatti á. Ég man ekki betur en að hæstv. utanrrh. hafi reifað hér kosningastefnuskrá Alþfl. í umræðum í gær með þessum áformum.
    Ég sagði það fyrr í haust, þegar þessi málefni bárust í tal í umræðu sem var að vísu um annað mál, að ég hefði grun um að hæstv. sjútvrh. hefði lagt fram þetta frv. til þess að hafa frið um tíma í þessari ásókn samstarfsflokksins í það að koma á auðlindaskatti. En ég er hræddur um að þetta verði aðeins gálgafrestur fyrir hæstv. sjútvrh. Greinilegt er að samstarfsflokkurinn ætlar sér að halda áfram þessari umræðu og það er áreiðanlega jafngott fyrir hæstv. sjútvrh. að vera vel á verði í þeim efnum því að ég hef heyrt af hans yfirlýsingum til þessa að hann er ekki hrifinn af þessari leið og hann hefur tekið mjög myndarlega á því máli í umræðunni. Það er alveg jafngott fyrir hann að vera á verði áfram, reyna að verjast eins og hann getur og ég treysti honum til þess. Hins vegar hefði það verið betra ef hann hefði getað varist því að þetta frv. kæmi hér fram og yrði samþykkt --- sem er reyndar ekki búið enn þá því að þetta frv. er í miðjum klíðum og langt í land að það verði útrætt.
    En um hvað fjallar svo þetta mál? Ég vil aðeins drepa á það, þótt auðvitað hafi það verið rakið, og benda á nokkur atriði í því efni. Það fjallar einfaldlega um að taka 525 millj. eða selja veiðiheimildir, hluta af veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs fyrir 525 millj. kr. á gangverði og nota andvirðið til að kosta Hafrannsóknastofnun. Nú vil ég taka skýrt fram að auðvitað er það markmið gott og gilt að efla hafrannsóknir, síst ætla ég að lasta það. Ég tel starfsemi Hafrannsóknastofnunar afar mikilvæga og það eru góðir menn sem þar vinna og hafa unnið ómetanlegt starf á undanförnum árum. Ekki ætla ég að draga úr mikilvægi þess að styrkja þá starfsemi. Hins vegar árar ekki þannig nú að tímabært sé að taka það upp að sjávarútvegurinn kosti þessa starfsemi, að þetta fé sé tekið úr sjávarútveginum. Þetta á áfram að vera sameiginlegt verkefni þjóðarinnar og alls ekki tímabært við þessar aðstæður að taka upp það fyrirkomulag að sjávarútvegurinn kosti það að fullu.
    Þar að auki er þannig meðferð á sjávarútveginum í frv. til fjárlaga að hann er enn þá verr undir þetta búinn en ella því að í frv. til fjárlaga úir og grúir af álögum á sjávarútveginn og þessar álögur nema u.þ.b. einum milljarði kr. Gert er ráð fyrir því að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Ríkismat sjávarafurða hækki gjaldskrá til að standa undir útgjöldum. Auðvitað lendir þetta á sjávarútvegsfyrirtækjum. Reiknað er með því að ríkisframlag til Veiðieftirlits ríkisins sem nemur 80,7 millj. kr. falli niður. Þetta kemur að sjálfsögðu niður á sjávarútvegsfyrirtækjum sem þurfa að nota þessa þjónustu. Það er gert ráð fyrir því að leggja hafnagjöld á sjávarútveginn þó að fallið hafi verið frá því í afgreiðslu fjárlaga að leggja þau á annað en unnar afurðir, sem er þá á fiskvinnsluna en hún stendur ekki vel um stundir. Þetta eru aðeins nokkur atriði sem sýna að því fer víðs fjarri að það ári til þess nú að fara að leggja þennan bagga á sjávarútveginn. Hér er náttúrlega um verulega upphæð að ræða, rúman hálfan milljarð króna. Þó að maður voni auðvitað að auknar hafrannsóknir skili einhverju til baka þá fer því víðs fjarri að þessar álögur séu tímabærar.
    Hlutverk Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins er markað í 1. gr. laganna sem eru ekki nema ársgömul eða gildistaka þeirra er ekki nema ársgömul eins og ég kom að. Það er að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð og koma til aðstoðar byggðarlögum sem standa höllum hæti vegna breytinga á útgerðarháttum. Þetta er tekið fram hér í 1. mgr. 1. gr. laganna. Þetta hlutverk sjóðsins er afar mikilvægt. Það var mikilvægt þegar lögin voru sett 1. maí 1990, það var mikilvægt þegar þau tóku gildi 1. jan. 1991 og það er enn mikilvægara nú vegna þess að síðan hefur það gerst að veiðiheimildir hafa verið skornar niður um

allt að 1 / 4 . Auðvitað var nauðsynlegt að gera það, ég er sammála því að við getum ekki tekið of mikla áhættu í veiðunum og því var þessi niðurskurður nauðsynlegur. Þess vegna er það hlutverk sjóðsins að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð og koma til aðstoðar byggðarlögum er standa höllum fæti vegna breytinga á útgerðarháttum í fullu gildi og sjóðurinn þarf á öllum styrk sínum að halda til þess að svara þessu hlutverki sínu. Það er alveg ljóst að eru ýmis byggðarlög standa höllum fæti, ekki síst ef þær breytingar verða á útgerðarháttum að menn sameina, eins og ofarlega er á baugi nú, og getur vissulega verið hagkvæmt þar sem það á við. Þegar samdráttur er þá eykst hættan á því að einstök byggðarlög missi frá sér veiðiheimildir.
    Hvernig er það í frv., hvaða ráðstafanir eru gerðar þar ef slíkt kæmi á daginn? Það virðist hafa flökrað að þeim sem sömdu frumvarpið að það gæti orðið erfitt mál ef einstök byggðarlög missa frá sér veiðiheimildir. Á bls. 3 í almennum athugasemdum við frv. er sagt neðst, með leyfi forseta:
    ,,Þá er í frumvarpinu lagt til að það hlutverk sjóðsins að koma til aðstoðar við einstök byggðarlög verði fellt úr gildi. Mun eðlilegra er að Byggðastofnun eða öðrum stjórnvöldum sé falið að grípa til þeirra ráðstafana sem þurfa þykir til að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu.``
    Þar hafa menn það. Það er Byggðastofnun sem á að sjá um þetta hlutverk. Það getur verið sjónarmið út af fyrir sig að Byggðastofnun eigi að sjá um þetta og það er í sjálfu sér til umræðu. Ekki ætla ég að útiloka að það geti verið hlutverk Byggðastofnunar að sjá um þessa hluti enda í samræmi við hlutverk hennar sem byggðastofnunar og felst í nafninu. En hvernig skyldi hafa verið búið að þeirri stofnun í fjárlagagerðinni til að sinna þessum verkefnum? Það mætti ætla að til þess að taka að sér þetta mikla verkefni hefðu framlög til Byggðastofnunar verið hækkuð eða vegur hennar hefði verið gerður meiri og þar með möguleikar hennar til að taka að sér það mikla verkefni sem þetta getur orðið ef illa fer. Nei, það er ekki aldeilis svo. Strax við framlagningu fjárlaga í haust var gert ráð fyrir því að framlög til Byggðastofnunar yrðu skorin niður um 50 millj. kr. Og það sem meira var og manni þótti undarlegra er að nú rétt fyrir jólin þótti ríkisstjórninni ekki nóg að gert að taka af Byggðastofnun þessar 50 millj. heldur var stofnunin skorin niður um 20 millj. til viðbótar þannig að framlög til hennar eru 180 millj. en voru 250 millj. á sl. ári. Þetta rekst dálítið hvað á annað hjá hæstv. ríkisstjórn og þarf a.m.k. meiri gáfumann en mig til þess að fá í samhengi í þessar aðgerðir.
    Það er verst að Alþfl. flúinn úr þingsölum eftir umræðurnar um GATT-málið, ( Gripið fram í: Síðan hvenær var það?) þó að hæstv. viðskrh. hafi skotist hér inn. Ég veit reyndar ekki hvað margir alþýðuflokksmenn eru í húsinu en ég hef a.m.k. ekki orðið var við samþingmann minn úr Austurlandskjördæmi hér í dag, hv. 5. þm. Austurl. Hann mun hafa lýst því yfir hér í umræðunni að hann hafi bjargað þessu öllu saman. Ég vona að þau orð sem ég segi um þetta komi til hans og þá í þingtíðindum ef ekki vill betur til. Ég ætla ekki að láta hafa fyrir því að sækja hann. Hann mun hafa lýst því yfir að hann hafi bjargað þessu öllu saman með því að hann hafi komið inn ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga að veiðiheimildum. Það hefur komið fram hér áður að auðvitað er þessi forkaupsréttur á fullu verði og skiptir ekki máli í þessu sambandi. Þarna er hv. 5. þm. Austurl. mættur og þykir mér það miklu betra að hafa hann hér nærstaddan. Ég var að enda við að segja það, hv. þm., að þessi aðgerð að koma inn forkaupsrétti skiptir ekki nokkru máli í þessu sambandi. Auðvitað efast ég ekkert um einlægni hv. 5. þm. Austurl. í þessu máli. Hann þekkir þessi mál og hefur reynt hvað það þýðir fyrir byggðarlög að missa frá sér skip og veiðiheimildir og ég skil hans áhyggjur. En því miður verð ég að hryggja hann með því að það er ekki nein vörn í þessu ákvæði.

    Hv. 5. þm. Austurl. talaði um það, það er alveg rétt, á síðasta ári fyrir kosningarnar að veiðheimildir þyrftu að haldast í byggðarlögunum. Það var rétt og skynsamlegt eins og margt annað sem hann sagði. Hann talaði eins og góður framsóknarmaður og rakaði að sér fylgi og komst á þing fyrir Austurland. En því miður, þetta nægir ekki. Með þessu ákvæði er langt frá því að nokkur vandi sé leystur. Byggðarlög, sem berjast í bökkum og eru búin að ganga í gegnum það að missa frá sér skip, hafa ekki efni á því að kaupa veiðiheimildir á fullu verði. Það er því ekki nein trygging í því.
    Hlutverk Hagræðingarsjóðs að hagræða í sjávarútvegi. Að hagræða í sjávarútvegi er risavaxið verkefni og full þörf er á slíkri hagræðingu. En sú hagræðing kostar mikið fé. Til að greiða fyrir henni hefði þurft að efla t.d. Byggðastofnun eða halda því fé sem Hagræðingarsjóðurinn hefur. Enn þá meiri ástæða er til þess að benda á þetta vegna þess að í þeim umræðum sem verið hafa um efnahagsmál og vandræði sjávarútvegsins í landinu og þann vanda sem skapast af minnkandi veiðiheimildum hafa talsmenn ríkisstjórnarinnar talið þessa hagræðingu grundvallaratriði í efnhagsstefnu hennar og það sem sjávarútvegurinn getur helst horft á til þess að þola þann tíma sem fram undan er með þessum minnkandi veiðiheimildum. Þeir hafa litið á það sem tæki til þess að þola þann samdrátt sem fyrirsjáanlegur er í sjávarútvegi. Þess vegna er þetta frv. sem hér um ræðir alveg stórfurðulegt og undarlegt að hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnin skuli á sama tíma flytja þetta frv. til þess að lama þá sjóði og skera jafnframt niður þær stofnanir sem eiga að fást við þetta verkefni.
    Ég skil það alveg í sjálfu sér og hef margtekið það fram að auðvitað hefur Alþfl. knúið þetta fram af því forustumenn hans telja þetta vera fyrsta skrefið til væntanlegs veiðileyfagjalds. Alþfl. hefur sjálfsagt unnið þarna áfangasigur með þessu frv. þó að hann tapi vonandi orrustunni varðandi GATT-málið, þrátt fyrir það að hæstv. viðskrh. hafi verið að reyna að klóra í bakkann af þrjóskunni einni saman og lýsa því yfir að þar sé ekki um fyrirvara að ræða. Alþfl. hefur unnið orrustuna um þetta mál og ég vara hæstv. sjútvrh. við því að þegar maður réttir litla fingurinn frekum mönnum er hætt við að þeir taki alla höndina áður en lýkur. ( Gripið fram í: Var það reynslan í gömlu stjórninni?) Áreiðanlega hefur það einhvern tíma komið fyrir í gömlu stjórninni, ég efast ekki um að það hafi komið fyrir. Nú held ég að hæstv. þingflokksformaður Alþfl. þyrfti að koma hér inn og hlusta á ræður um sinn flokk og hans aðgerðir í málinu. Hann hefur verið með miklar yfirlýsingar um þetta mál. Þingflokksformaðurinn vill --- það er sama hvað hv. 5. þm. Austurl. segir --- þingflokksformaðurinn vill koma auðlindaskatti yfir sjávarútveginn sem allra fyrst. Mér þykir mjög ánægjulegt að hafa hér hv. þingflokksformann Alþfl. viðstaddan ræðu mína. Hin raunverulega ástæða fyrir þessu frv. eru samningar flokksformannanna úti í Viðey sem ég veit ekki hvort hv. þingflokksformaður Alþfl. eða hv. 5. þm. Austurl. hafa fengið að sjá. Þar er einmitt sagt, eða svo segir hv. formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., í viðtali við Alþýðublaðið, að þetta frv. sé vísir að komandi veiðileyfakerfi.
    Landsbyggðin hefur átt við mikinn vanda að etja að undanförnu. Þjóðhagsstofnun spáir því að þjóðartekjur dragist saman um 6,1%, sem er mikill vandi og mesti samdráttur frá stríðslokum. Þetta kemur niður á undirstöðuatvinnuvegunum, sjávarútvegi og landbúnaði. Því er við mikinn vanda að etja á þeim stöðum sem byggja á þessari starfsemi. Það er ljóst að fjárlagafrv., svo mikil efnahagsaðgerð sem það átti að vera, kemur ekki til hjálpar í þessu efni. Þrátt fyrir það að um mikinn niðurskurð er að ræða á sumum sviðum þá er þeim útgjöldum komið á einhverja aðra aðila í þjóðfélaginu. Ljóst er að vextir lækka ekki að sinni af völdum fjárlagafrv. þó að allt gangi eftir á hinn besta veg eins og ríkisstjórnin vill. Miklir erfiðleikar eru því fram undan í þeirri atvinnugrein sem hér um ræðir. Því er þetta frv. fáránleg tímaskekkja og algjörlega á skjön við það sem er að gerast

í þjóðfélaginu. Þó má segja um þetta frv., sem er skárra en aðrar miklar lagabreytingnar sem hér er um að ræða, að það fer til sinna fagnefnda þar sem rætt verður um það sérstaklega. Það er ekki inni í bandormi þó að svo hafi verið til þess stofnað í upphafi eins og ég rakti hér í upphafi ræðu minnar að það hefur ekki verið haft neitt samráð um samningu þess við þá aðila sem ákveðið hefur verið um í lögunum.
    Í umræðum í gær tóku til máls hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og sögðu álit sitt á yfirlýsingum utanrrh. í Alþýðublaðinu þann 31. des. Forsrh. tók þann pól í hæðina að segja að hæstv. utanrrh. gæti gefið yfirlýsingar að vild. Það bæri ekki að taka svo mjög alvarlega eða það var helst á honum að skilja í sambandi við þetta mál. Það er skynsamlegt út af fyrir sig að gefa visst frelsi í þeim efnum að gefa yfirlýsingar að vild út og suður. Það er þægilegra fyrir hæstv. forsrh. en hins vegar verður að ætlast til þess af ríkisstjórninni og af hæstv. ráðherrum að ekki séu gefnar út yfirlýsingar út og suður um þessi mál. Þjóðin á heimtingu á því að vita hvort það er ætlunin að leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn og hvort í bígerð sé samkomulag um það eða hvort það liggi einhvers staðar að baki þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem fóru fram hér sl. vor. Þetta er allt of alvarlegt mál til þess að hæstv. utanrrh. gefi yfirlýsingar um það í blöðum og hæstv. forsrh. komist upp með að segja hér í umræðum um málið að hann leggi ekki dóm á túlkanir eða yfirlýsingar í þessu efni. Það væri kannski hægt að sleppa hæstv. ráðherrum í einhverjum smámálum með svona ræður. En í stórmáli eins og hér er til umræðu varðandi Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og fiskveiðastefnuna í landinu er ekki viðunandi að hæstv. ráðherrar sleppi svo billega. Og það verður að koma hér skýrt fram áður en þessari umræðu lýkur hver sé ætlunin í þessu efni. Hvert er ætlunin að stefna í sjávarútveginum á næstu árum? Er ætlunin að leggja á auðlindaskatt eða er ætlunin að búa við það kerfi sem við höfum núna og endurskoða það og endurbæta? Áreiðanlega er það ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk. Það eiga þeir sem starfa í sjávarútvegi heimtingu á að vita hvort hér er ætlunin að kúvenda í þessu kerfi og hvort þetta frv. sem við erum að ræða núna, frv. um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, er fyrsta skrefið í því efni. Það er sú stóra spurning sem verður að fást svar við áður en þessari umræðu lýkur.