Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 18:45:00 (2661)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Herra forseti. Ég vil byrja á því þegar hér er komið umfjöllun hins háa Alþingis um þetta mál að þakka hv. þm. fyrir málefnalega umræðu og sérstaklega vil ég þakka hv. sjútvn. og varaformanni hennar, sem hafa leitt málið í nefndinni upp á síðkastið, fyrir vaskleg og góð og vönduð vinnubrögð.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vil víkja að nokkrum þeirra atriða sem hefur verið vikið að í umræðunni, einkanlega þeim sem borin hafa verið fram í spurnarformi.
    Í máli allnokkurra þingmanna, sem hér hafa talað, hefur verið vikið að samningi stjórnarflokkanna um myndun þessarar stjórnar og tengsla hans við þetta frv. Það er nauðsynlegt að gefa hér á nokkrar skýringar. Þá er fyrst ástæða til þess að minna á að í samningi stjórnarflokkanna var kveðið á um að þessi ríkisstjórn mundi standa að endurskoðun á gildandi fiskveiðilöggjöf í samræmi við bráðabirgðaákvæði gildandi laga þar um. Það yrði gert með því að setja á fót nefnd stjórnarflokkanna sem hefði forustu þar um og síðan að höfðu samráði, í samræmi við ákvæði laganna, við hagsmunaaðila og sjávarútvegsnefnd þingsins. Allir þessir aðilar hafa verið kvaddir til þess samráðs. Í þessum samningum var hvergi sérstaklega vikið að breytingum á lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er ávöxtur af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og tillaga sjútvrn. í þeim efnum, m.a. í ljósi þröngrar stöðu ríkissjóðs og þess að sjútvrn. taldi óhjákvæmilegt að skapa skilyrði til að stórauka rannsóknaumsvif Hafrannsóknastofnunar. Það mátti ljóst vera að við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum yrði ekki unnt að ná því markmiði með hefðbundnum hætti. Ég hef litið svo á að það væri brýnasta verkefnið sem við stæðum frammi fyrir að efla hafrannsóknir og með þeim ráðstöfunum sem í þessu frv. felast var það svigrúm skapað. Með öðrum orðum, hér er um að ræða þátt í ríkisfjármálaðagerðum til þess að treysta þessa mikilvægu starfsemi sem ég veit að hv. þm. eru sammála um að er mikilvæg forsenda fyrir skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar og skynsamlegri stjórnun fiskveiða í landinu.
    Það hefur verið mjög að því vikið í máli nokkurra hv. þm. hvort hér væri á ferðinni ný skattlagning, hvort hér væri á ferðinni auðlindaskattheimta eða hvort hér væri einungis um að ræða óbreytt ástand að þessu leyti. Menn hafa rætt hér fram og til baka hvort fulltrúar einstakra stjórnmálaflokka hafi skipt um skoðun frá því að vera í stjórn og yfir í stjórnarandstöðu eða öfugt. Kjarni málsins er hins vegar sá að því er þetta varðar að í tíð fyrri ríkisstjórnar voru sett lög um Hagræðingarsjóð. Þáv. sjútvrh., núv. hv. 1. þm. Austurl., hafði flutt þetta mál hér á Alþingi, að vísu í öðru formi en endanleg niðurstaða varð. Þar var gert ráð fyrir sérstökum úreldingarsjóði. Síðan varð hugmyndin um Hagræðingarsjóð til í samningum þáv. stjórnarflokka. Í þeim samningum komu m.a. inn þau ákvæði sem eru í gildandi lögum um heimildir til þess að framselja aflaheimildir sjóðsins til byggðarlaga og í undantekningartilvikum að framselja á lægra verði en gangverði eða gefa. Með öðrum orðum, ákvæði laganna eins og þau eru í dag voru samkomulagsatriði, málamiðlunarniðurstaða í þeirri ríkisstjórn.
    Það er satt og rétt sem hér hefur verið bent á að þingmenn Sjálfstfl. voru andvígir þessari löggjöf og töldu að hún mundi ekki ná tilgangi sínum. Ég held að það sé ekki mikið tilefni til þess að eyða löngum tíma þingsins í að reyna að fjalla um þær spurningar sem settar hafa verið fram í þessu sambandi. Hv. 1. þm. Austurl. beindi þeirri spurningu til mín hvort ég teldi að hér væri fyrsti vísir að því sem koma skyldi. Var þá að vísa til þess að að því hafði verið vikið í því frv., sem hér liggur fyrir, fælist fyrsti vísir að auðlindaskatti. Ég minnist þess þegar fyrrv. stjórnarflokkar náðu málamiðlun sín í milli um Hagræðingarsjóðinn þar sem kveðið var á um að taka skyldi aflaheimildir til tiltekinna þarfa og selja á gangverði, eins og segir í lögunum, þá sömdu fyrrv. stjórnarflokkar um það að selja aflaheimildirnar á gangverði, í undantekningartilvikum á lægra verði eða gefa þær. Þegar þetta samkomulag lá fyrir lýstu ýmsir því yfir, sem innan þeirrar stjórnar töldu rétt að efna til auðlindaskattheimtu, eins og ég hef kallað það en þeir hafa kallað veiðileyfagjald, að hér væri stigið fyrsta skrefið í framkvæmd þeirrar stefnumörkunar. Með öðrum orðum, af hálfu þessara aðila lágu slíkar yfirlýsingar fyrir þegar sú málamiðlun var gerð.
    Ég hef aldrei dregið dul á það að í gildandi lögum og með þeim breytingum sem hér er verið að gera er verið að leggja gjald á sjávarútveginn. Það fór ekki á milli mála þegar þessi lög voru sett að í þeim fólst gjaldtaka af sjávarútveginum og sú gjaldtaka er enn fólgin í lögunum.
    Ég tel á hinn bóginn að sú breyting, sem hér er verið að gera, sé skynsamleg og það þjóni betur hagsmunum sjávarútvegsins að nýta þessa gjaldtöku með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Ég tel að hún muni koma sjávarútveginum að betri notum með þessum hætti en vitaskuld má um það deila. Ég geri mér fulla grein fyrir því að aðrir hv. þm. bæði hafa og kunna að hafa aðra skoðun þar á.
    Að því hefur einnig verið vikið hvernig mæta eigi vanda einstakra byggða þegar sú breyting hefur verið gerð sem þetta frv. miðar að. Nú er það svo og ég hygg að það sé flestra mat að þær heimildir, sem í gildandi lögum eru til þess að styðja einstök byggðarlög sem lenda í erfiðleikum, eru þröngar og á það hefur líka verið bent að það væri í raun mjög takmarkaður stuðningur sem unnt væri að veita byggðarlögum með þessum hætti enda væri hann aðeins tímabundinn til eins árs. Ég ætla ekki hér að fara í neinar deilur um það hvernig menn, sem að þessari löggjöf stóðu, vildu túlka lögin. Sumir af talsmönnum fyrri ríkisstjórnar hafa litið svo á að heimildin til þess að gefa aflaheimildir hafi verið býsna rúm, aðrir hafa litið svo á að hún væri býsna þröng. Ég vísa hér til þess sem hv. 1. þm. Austurl. sagði í umræðu að hann efaðist um að til þess hefði komið við núverandi aðstæður að þessum ákvæðum hefði verið beitt og er þó sjávarútvegurinn í miklum vanda og mikill vandi víða í sjávarplássum. Af hálfu þeirra sem að þessari löggjöf stóðu eru því mismunandi skoðanir á því hversu víðtækur byggðastuðningur gat falist í gildandi lögum.
    Það kom einnig fram í máli hv. 1. þm. Austurl. að vandasamt væri að styðja einstakar byggðir með því að afhenda kvóta með þessum hætti. Til að mynda rifjaði hann upp í því sambandi að hann sjálfur lagðist gegn brtt. sem flutt var hér á sínum tíma sem miðaði að því að skylda ráðherra til þess að afhenda byggðum aflakvóta við tiltekin skilyrði. Hann benti á að slík skylda hefði getað leitt til þess að aflaheimildakerfið spryngi í loft

upp þannig að það er að ýmsu að hyggja þegar ákvæði sem þessi eru skoðuð og ég hygg að það hafi komið mjög glöggt fram hér í umræðunni.
    Hv. 9. þm. Reykn. innti eftir því hvernig vanda byggða í landinu yrði mætt eftir að sú breyting hefði verið gerð sem hér er mælt fyrir um. Ég vil í fyrsta lagi minna á að við meðferð hv. sjútvn. hefur verið gerð breyting á frv. þar sem heimilað er að framselja byggðum, þar sem sérstaklega stendur á, aflaheimildir. Að vísu er ekki tekin með sú gamla heimild að gefa í undantekningartilvikum kvóta en til þess að koma til móts við þau sjónarmið, sem hér voru uppi, var þessi breyting gerð.
    Ég hygg á hinn bóginn að bæði að því er varðar rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og afkomu sjávarútvegsplássanna í landinu muni hér eftir sem hingað til mestu skipta, eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. benti á, rekstrargrundvöllur og afkoma sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þróun byggðanna í landinu ræðst auðvitað fyrst og fremst að því að þær atvinnugreinar sem þar eru helst starfræktar fái að blómstra og græða. Ég tek undir það með hv. þm. að það er það sem sköpum skiptir. Þróun byggða og viðgangur byggða og einstakra sjávarútvegsplássa er auðvitað fyrst og fremst undir því kominn.
    Að hinu leytinu hefur verið allvíðtæk samstaða um það að ég hygg í öllum stjórnmálaflokkum að við sérstök skilyrði gæti verið nauðsynlegt að koma til móts við einstök byggðarlög. Óumdeilt er að Byggðastofnun er sá stjórnsýsluvettvangur sem Alþingi og stjórnvöld hafa valið til þess að hafa forustu þar um. Svo geta menn vitaskuld deilt um hvort sú stofnun á hverjum tíma er næganlega vel í stakk búin til þess að gegna þeim skyldum. Um það geta menn deilt eins og fram hefur komið í umræðunum. Ég geri mér fulla grein fyrir að eðlilegt er að menn hafi mismunandi skoðanir á.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. innti síðan eftir því hver afstaða ríkisstjórnarinnar væri til þess að fyrirgreiðsla yrði veitt af hálfu Landsbankans vegna síldarsölusamninga við Rússland. Landsbankinn hafði beint þeirri fyrirspurn til ríkisstjórnarinnar, eins og kunnugt er, hvað hún segði um slíka lánveitingu. En um leið lýsti bankinn því yfir að hann væri reiðubúinn til þess að veita slíka fyrirgreiðslu. Ríkisstjórnin leitaði eftir áliti Seðlabankans í þessu efni en ákvað á fundi sínum í morgun að svara bréfi Landsbankans á þá leið að beina því til bankastjóranna að taka ákvörðun í þessu máli á grundvelli allra fyrirliggjandi upplýsinga og þeirra laga og reglna sem um bankann gilda. Með öðrum orðum að fela bankastjórunum að taka ákvarðanir um lánveitingar eins og þeim ber að gera. Ég vil svo aðeins ítreka að ég fagnaði því þegar ég heyrði og sá afstöðu Landsbankans að hann væri reiðubúinn að greiða fyrir þessum viðskiptum og ég vona að hún sé óbreytt. Ég ítreka að auðvitað er það bankastjóranna að taka ákvarðanir um lánveitingar bankans. En hér er um mjög mikilvæga hagsmuni að tefla því að allmiklu meira er upp úr því að hafa fyrir þjóðarbúið og atvinnugreinina ef unnt er að salta síldina fremur en að bræða hana.
    Þá vil ég aðeins víkja að þeim þætti sem nokkrir þingmenn hafa einnig gert að umtalsefni hér og beint fyrirspurnum jafnvel til forseta þingsins og það er endurskoðunarákvæði frv. Það hefur færst nokkuð í vöxt á undanförnum árum, einkanlega varðandi mikilvæga og umdeilda löggjöf þar sem flokkar hafa þurft að leita allra leiða til að ná málamiðlun, að í slík lög hefur verið sett bráðabirgðaákvæði um endurskoðun innan tiltekins tíma. Meginmarkmið slíkra endurskoðunarákvæða eru þau að tryggja að framkvæmdarvaldið láti fara fram endurskoðun á gildandi löggjöf á tilsettum tíma. Að Alþingi hafi tryggingu fyrir því að framkvæmdarvaldið sjái til þess, í ljósi reynslu, að löggjöfin verði endurmetin. Slík endurskoðun getur leitt til meiri eða minni breytinga eða hreint engra breytinga. En fyrst og fremst miða slík ákvæði að því að tryggja að þetta endurmat fari fram. Hins vegar liggur alveg í augum uppi að slík ákvæði geta ekki vikið rétti þingsins til hliðar til þess að gera breytingar á viðkomandi lögum á því tímabili sem endurskoðunarákvæðið nær til. Slík endurskoðunarákvæði geta ekki vikið til hliðar frumkvæðisrétti viðkomandi ráðherra til þess að leggja fram brtt. í þessu efni. Það liggur í augum uppi að slíkt ákvæði getur ekki vikið til hliðar rétti ákveðinna þingmanna til þess að flytja slíkar brtt. þó að þeir hafi eðli málsins samkvæmt engin tök á því að leita þess samráðs sem stundum er áskilið í bráðabirgðaákvæðum af þessu tagi og eins og áskilið er í þessum lögum. Sérhver þingmaður getur borið fram brtt. við lög af þessu tagi á Alþingi og Alþingi samþykkt þó að þingmenn hafi ekki tök á því að leita samráðs. Og vitaskuld má það vera ljóst að í þessu efni er frumkvæðisréttur ráðherra engu minni en þingmanna. Ég minni á að á síðasta þingi flutti þáv. sjútvrh., núv. hv. 1. þm. Austurl., frv. um breytingu á þeim lögum sem hér er verið að fjalla um. Breytingin var tímabundin en þess eðlis að í raun var öllum ákvæðum laganna vikið til hliðar tímabundið. Það var tímabundin grundvallarbreyting á þeim lögum. Nokkur ágreiningur varð um frv. og ég hygg að frv. hafi náð fram að ganga m.a. fyrir þá sök að Sjálfstfl. eða a.m.k. hluti hans var reiðubúinn að styðja málið í þinginu vegna hinna miklu og brýnu hagsmuna sem lágu þar að baki. En frv. var flutt þó að það hafi gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á Hagræðingarsjóðnum tímabundið án þess að formlegt samráð hefði átt sér stað við hagsmunaaðila og án samráðs við sjútvn. þingsins. Enginn þingmanna á síðasta þingi gerði athugasemdir við þetta. Öllum þótti sjálfsagt og eðlilegt að þáv. sjútvrh. hefði rétt til þess að leggja slíka breytingu fyrir þingið þó að hún viki ákvæðum sjóðsins að öllu til hliðar á þeim tíma sem hún átti að gilda. Og menn skiptust í hópa eftir því hvort þeir voru efnislega með eða á móti. Þannig er búið að gera breytingar á þessum lögum sem höfðu grundvallarþýðingu í tiltekinn tíma án samráðs við hagsmunaaðila eða sjútvn. og án athugasemda í þinginu. Og það var auðvitað mjög eðlilegt. Það var ekkert tilefni til þess að gera athugasemdir í þessu efni á síðasta þingi. Nákvæmlega sama á við hér og nú. Frumkvæðisrétturinn verður ekki fremur tekinn af núv. sjútvrh. í þessu efni en hinum fyrri. Sannleikurinn er sá að ákvæði þessara laga hafa aldrei komið til framkvæmda frá því að þau voru samþykkt árið 1990. Bæði vegna breytinga sem fyrri ríkisstjórn gerði, meðan þau voru í undirbúningi tók stjórnin engar ákvarðanir, og eins vegna þeirra breytinga sem verið er að leggja til nú. En við hitt verður svo að sjálfsögðu staðið að þessi lög koma inn í þá heildarendurskoðun sem nú fer fram og þeirri endurskoðun mun ljúka fyrir árslok og samráð verður haft um hana við hagsmunaaðila og sjávarútvegsnefnd þingsins þannig að því bráðabirgðaákvæði sem hér er verið að vitna til verður fullnægt af hálfu framkvæmdarvaldsins.
    Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að fara nokkrum orðum um þennan þátt málsins vegna þess að hann hefur komið allnokkuð til umræðu og kannski ekki óeðlilegt að misskilningur sé uppi í þessum efnum vegna þess að um þessi bráðabirgðaákvæði hefur lítið verið fjallað. Þau eru tiltölulega ný af nálinni og hafa færst í aukana á síðari árum og þess vegna ekki óeðlilegt að óvissa sé uppi um það hvernig beri að túlka þau. En ég held að óumdeilt sé að sú skýring sem ég hef gefið á frumkvæðisrétti ráðherra og þingmanna sé sú sem eðlilegt er að styðjast við. Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna meira á þessu stigi. Ég tel mig hafa vikið að flestum þeim atriðum sem helst hafa komið upp í umræðunni af hálfu þeirra þingmanna sem hér hafa talað og ítreka þakklæti mitt til þeirra fyrir góða og málefnalega umræðu.