Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 19:11:00 (2663)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vil fyrst ítreka að ég tel að það sé alveg kórrétt afstaða hjá hv. forsætisnefnd sem hér hefur komið fram vegna þess að það er ekki hlutverk hennar að skera úr um ágreining af þessu tagi.
    Ég vil aðeins ítreka það að bráðabirgðaákvæðið felur í sér þá skyldu að framkvæmdarvaldið láti framkvæma endurskoðun á lögunum að höfðu samráði við hagsmunaaðila og sjávarútvegsnefndir fyrir lok þessa árs. Þeirri skyldu mun framkvæmdarvaldið sinna og því verki verður lokið á tilsettum tíma hvort sem það leiðir til breytinga eða ekki. En á hinn bóginn verður sá réttur ekki tekinn hvorki af eintökum þingmönnum né ráðherra að flytja inn á þingið brtt. um einstaka þætti jafnvel þó að þeir séu veigamiklir eins og ég hef áður rakið. Ég tel það í fullu samræmi við það sem áður hefur gerst í þessu máli af hálfu fyrri sjútvrh. og í fullu samræmi við rétta lagalega túlkun á bráðabirgðaákvæði af þessu tagi.