Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 13:52:00 (2669)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um atkvæðagreiðslu) :
     Frú forseti. Vegna þessara ummæla hv. 1. þm. Austurl. er rétt að taka enn einu sinni fram sem gert hefur verið æði oft í umræðum og þingskapaumræðum í tengslum við þetta mál að ákvæði það til bráðabirgða sem hér er verið að fjalla um kveður á um endurskoðun þessara laga fyrir tiltekinn tíma. Ákvæði af þessu tagi eiga að tryggja að framkvæmdarvaldið sjái til þess að fyrir þá dagsetningu sem bráðabirgðaákvæðið kveður á um skuli heildarendurskoðun hafa farið fram. Ég hef margsinnis lýst því yfir að sú endurskoðun muni fara fram áður en að þeirri dagsetningu kemur. Það er hins vegar alveg ljóst að bráðabirgðaákvæði af þessu tagi getur ekki tekið frumkvæðisrétt, hvorki af þingmönnum né ráðherra, til þess að flytja breytingar við lög eins og hér stendur á. Það er alveg ljóst að hver einstakur þingmaður hefur rétt til þess að flytja brtt. og Alþingi að samþykkja þær þó að slíkt endurskoðunarákvæði sé í lögum.
    Það má öllum vera ljóst að þingmenn hafa ekki aðstöðu til að hafa það samráð við hagsmunaaðila og aðra sem kveðið er á um í slíkum ákvæðum og frumkvæðisréttur ráðherra getur ekki verið minni en einstakra þingmanna. Ég held að það hljóti að vera óumdeilt að þessi skýring sé rétt. Ég vísa enn fremur til framkvæmdar og fordæma í þessu efni því að í tíð fyrrv. sjútvrh. á síðasta þingi var flutt frv. um tímabundnar breytingar á þessum lögum sem gerðu það að verkum að lögin voru ekki framkvæmd og hafa reyndar aldrei komist til framkvæmda eins og þau voru upphaflega samþykkt. Meginhluta lagaákvæðanna var vikið til hliðar með löggjöf sem var flutt í frumvarpsformi af þáv. sjútvrh. og samþykkt hér á síðasta þingi. Þá voru engar athugasemdir um það gerðar að við undirbúning þeirrar löggjafar hafði ekki verið leitað formlegs samráðs við hagsmunaaðila og því síður haft samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis. Enginn hv. þm. á því þingi, og margir þeir sömu menn sitja nú á þessu þingi, gerði athugasemdir þegar breytingar voru gerðar með þessum hætti. Það er rétt að það voru tímabundnar breytingar en þær höfðu þá grundvallarbreytingu í för með sér að ákvæðum laganna var vikið til hliðar meðan á því tímabili stóð. Þannig að fordæmi eru skýr fyrir þessu og styðjast við alveg augljósa lagatúlkun.
    Og enn og aftur skal því lýst yfir að sú endurskoðun, sem bráðabirgðaákvæðið kveður á um að skuli lokið fyrir lok þessa árs, mun fara fram að höfðu samráði við hagsmunaaðila og sjútvn. Alþingis. En það hindrar ekki frumkvæðisrétt ráðherra og Alþingi í að breyta lögunum áður en sá tími rennur út.