Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 13:56:00 (2670)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
     Hæstv. forseti. Ég tek undir óskir hv. 1. þm. Austurl. um það að því verði frestað að vísa þessu máli til 3. umr. og ráðrúm gefist til þess að gera þá athugun á réttaráhrifum nefndra samráðsákvæða og hvernig með þau hefur verið farið í þessu tilviki sem beðið er um. Málflutningur hæstv. sjútvrh. byggir á þeim misskilningi að ekki er verið að ræða um rétt hans eða annarra til að leggja fram breytingar á þessum lögum heldur er verið að tala um málsmeðferðina ef til stendur af hálfu hæstv. ráðherra að, eins og hér á við, leggja til varanlegar grundvallarbreytingar á þessum lögum með ótakmarkaðan gildistíma og þar með langt fram yfir það endurskoðunartímabil sem í hlut á. Það er málsmeðferðin og sú staðreynd að ekki var haft þetta lögboðna samráð við sjútvn. Alþingis og helstu hagsmunasamtök sem hér er til umræðu.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, óska ég eftir því að áður en málið verður meðhöndlað frekar hér í þinginu og því verður vísað til 3. umr. komi fram skýr svör um það hvaða áhrif sú atkvæðagreiðsla sem fór fram hér fyrir fáeinum mínútum við 7. tölul. brtt. meiri hlutans en sú grein hljóðar svo: ,,9. og 10. gr. laganna, svo og ákvæði til bráðabirgða II, falli brott.`` En í ákvæði til bráðabirgða II eru einmitt þessi samráðsákvæði við sjútvn. og hagsmunasamtök sem hér eru til umræðu. Spurning mín er því sú: Ber að túlka þessa afgreiðslu svo, og ef lögin yrðu síðan samþykkt að lokinni 3. umr. þannig að þessi samráðsákvæði væru í brottu fallin, að hæstv. sjútvrh. sé þar með laus undan þessari samráðsskyldu? Og hvað vakir þá fyrir hv. meiri hluta að leggja slíkt til? Ég ítreka sem sagt óskir mínar, réttmætar að ég tel og rökstuddar, og hv. 1. þm. Austurl., að málið verði ekki afgreitt lengra en komið er hér í þinginu fyrr en ráðrúm hefur gefist til að kanna þessa hluti nánar.