Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 13:59:00 (2671)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Það er nú alveg óþarfi af hæstv. sjútvrh. að taka það illa upp þó að við viljum ganga úr skugga um þetta ákvæði. Hér er verið að gera grundvallarbreytingar á lögunum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins sem hefur áhrif á fiskveiðistefnuna. Það er alveg ljóst að þegar lög þessi voru sett í maí 1990 þá var það skilyrði af hálfu Alþingis að þessi lög, bæði um stjórn fiskveiða og Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, yrðu endurskoðuð fyrir árslok 1992. Það er alveg ljóst að í þeim vilja kom það fram að ekki væri gert ráð fyrir grundvallarbreytingum fyrr en á þeim tímapunkti og þá samhliða.
    Það er hins vegar alveg rétt að það var gerð breyting á þesum lögum á sl. ári. Um þær breytingar var a.m.k. haft mjög náið samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, enda voru þeir þeim breytingum allir sammála. Ég skal ekki fullyrða á þessari stundu hvaða samráð var haft við sjávarútvegsnefndir þingsins en það má ganga úr skugga um það. En aðalatriðið er það hvert er gildi þessara ákvæða. Það má vel vera að það sé ekki neitt og það hafi ekkert upp á sig að setja bráðabirgðaákvæði sem þetta í lög. En þegar núv. ríkisstjórn leggur til grundvallarbreytingar á þessum lögum sem snerta mjög stjórn fiskveiða í landinu, þá er a.m.k. lágmark að haft sé samráð við þá aðila sem bundnir eru í lögum. Við erum eingöngu að fara fram á það að við fáum að athuga þetta mál í þingnefnd vegna þess að ekki hefur verið orðið við þeirri beiðni að forsetadæmið láti fara fram sérstaka athugun á því.