Lánsfjárlög 1992

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 14:25:00 (2680)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
     Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frhnál. á þskj. 380 frá minni hluta efh.- og viðskn. Frv. til lánsfjárlaga hefur verið til umfjöllunar hjá Alþingi og efh.- og viðskn. um alllangan tíma. Þegar mál þetta var afgreitt til 2. umr. í desember sl. gat minni hluti nefndarinnar ekki stutt afgreiðslu málsins, m.a. með tilliti til þess að mikil óvissa væri enn að því er varðaði fjárlagagerðina, bæði tekju- og gjaldahlið. Þótt margt hafi skýrst í sambandi við þessa mynd, þá er langur vegur frá því að það liggi næginlega vel fyrir hver verði útgjöld ríkisins á næsta ári og í nokkrum atriðum liggur ekki endanlega fyrir um tekjurnar þó að sú mynd sé vissulega skýrari.
    Til umfjöllunar hér á Alþingi er enn þá frv. ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum og væri eðlilegt að mínu mati að lánsfjárlögin kæmu til afgreiðslu þegar það mál hefur verið afgreitt. Það mun ekki liggja endanlega fyrir hver verður lántökuþörf ríkisins fyrr en það mál hefur verið afgreitt hér á Alþingi. Það er jafnframt til þess að líta að kjarasamningar eru lausir og má segja að allir þeir aðilar sem hafa komið til viðtals við efh.- og viðskn. hafa lýst því yfir að farsæl lausn kjarasamninga muni fyrst og fremst byggja á því að vaxtalækkanir muni eiga sér stað.
    Ég ætla í upphafi máls míns að ræða nokkuð um það hvaða líkur eru til þess að vextir muni lækka nú á næstunni. Efh.- og viðskn. kallaði til allmarga aðila til þess að leggja mat á þetta mál.
    Í svörum viðskiptabankanna kom skýrt fram að þeir mundu ekki geta lækkað raunvexti. Eini aðilinn í landinu sem hefði tök á því að ráða við slíka vaxtalækkun væri ríkissjóður. Það kom fram hjá viðskiptabönkunum að þeir töldu ekki neitt efni til almennra vaxtalækkana. Þeir hefðu litla vissu um það hver yrði verðbólga á næstunni, ekki síst með tilliti til þess að kjarasamningar væru lausir, og það kom skýrt fram að þeir treystu ekki þeim verðbólguspám sem nú koma fram af hálfu ríkisstjórnar og Seðlabanka. Það er því alveg ljóst að viðskiptabankarnir bíða eftir því að sjá hvað muni gerast í kjarasamningum og munu ekkert hreyfa sig fyrr en sú mynd skýrist.
    Af hálfu Seðlabankans kom það fram að Seðlabankinn telur að vextir ættu að geta lækkað nokkuð og að svigrúm sé til raunvaxtalækkunar í einhverjum mæli. Þrátt fyrir tilmæli Seðlabankans í gegnum viðræður við viðskiptabankana er ljóst að viðskiptabankarnir hafa ekki farið að þeim tilmælum. Það má því segja að á fjármagnsmarkaðnum ríki mikil óvissa og afar lítil tiltrú á frumkvæði ríkisvaldsins í þessum efnum, enda hefur hæstv. fjmrh. beinlínis lýst því yfir að ekki standi til á næstunni að lækka vexti. Það má því segja að þeir menn sem nú glíma við lausn kjaramálanna bíði eftir því að vextir muni lækka en bankarnir bíði eftir því að sjá hvað gerist á vinnumarkaði og ríkisstjórnin situr einfaldlega hjá í málinu, enda hafði hún áður lýst því yfir að ríkisstjórnin færi þar með hlutverk aukaleikara.
    Það vita allir að ekki er að vænta þess að mikið frumkvæði komi frá þeim sem velja sér slíkt hlutskipti, svo að notuð séu þeirra eigin orð, orð forsrh., og því má segja að pattstaða ríki á fjármagnsmarkaðnum. Það er við þessar aðstæður sem við leggjum til að þetta mál verði ekki afgreitt að svo komnu máli og beðið eftir því hvað þarf að leggja að mörkum til þess að vextir geti lækkað á fjármagnsmarkaði.
    Hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hafa lagt allt upp úr því að koma fram ákveðnum niðurskurði á fjárlögunum. Það er góðra gjalda vert að spara útgjöld ríkisins og nauðsynlegt, en það er jafnframt mikilvægt að sá niðurskurður beinist að þeim atriðum sem hvað minnstum deilum valda við aðila vinnumarkaðarins þótt vissulega sé rétt að það er vandfarið. Það hefur þó verið mjög áberandi í þeim viðræðum sem við höfum átt við aðila vinnumarkaðarins að þeir hafa almennt haldið því fram að lítið eða ekkert samráð hafi verið við þá haft. Það hefur jafnvel komið fram í þeirra máli að allri samvinnu og samráði sé beinlínis hafnað, það sé talað við þá á síðustu stundu og þeir sjái ekki betur en það sé stefna ríkisstjórnarinnar að gera ekkert á grundvelli samvinnu. Og ekki batnar málið þegar send eru þau skilaboð að koma skuli upp sérstökum sveitum manna til að fylgjast með öllu saman. Eins og einhver orðaði það: Allt skal ákveðið ofan frá, síðan tekur miðstýringin við og síðast eftirlitssveitirnar.
    Það er ekki mjög traustvekjandi mynd sem við fáum af samstarfi hæstv. ráðherra við aðila vinnumarkaðarins. Það er jafnframt ljóst þegar talað er við þetta fólk að það mun verða ein aðalkrafan í þeim samningum sem nú eru fram undan að draga þangað inn fulltrúa ríkisvaldsins í þeim tilgangi að ná til baka ýmsu af því sem hæstv. ríkisstjórn hefur komið til framkvæmdar eða á eftir að koma til framkvæmdar.

    Nú má sjálfsagt spyrja sem svo: Hvað skal koma í staðinn fyrir þann niðurskurð sem ríkisstjórnin hefur lagt til? Og vill nú oft verða að þar verði ekki mikið um svör. En þó tel ég að það sé afar þýðingarmikið að gera a.m.k. fulla tilraun til að hafa um slík mál sem best samráð við aðila vinnumarkaðarins til að undirbyggja komandi kjarasamninga. Mér virðist hins vegar að hæstv. ríkisstjórn leggi ekkert upp úr því að undirbyggja þá heldur fari sínu fram og skeri niður eftir því sem henni líst best á og eru áætlanir í því sambandi nokkuð undarlegar oft og tíðum. T.d. er rétt að minnast á að fyrst þegar tillögur um niðurskurð á sjómannaafslætti komu fram átti það að skila 180 millj. kr. Síðan var gerð allveruleg breyting þar á og eftir þá breytingu átti það jafnframt að skila 180 millj. kr. Síðan var enn gerð breyting á og þá átti tiltækið enn sem fyrr að skila 180 millj. kr.
    Mér hefur verið bent á að þessi tala sé nokkuð föst í sambandi við fleiri niðurskurðarmál, 180 millj., og má vera að allar breytingar sem hæstv. ríkisstjórn tekur upp á skili þessari tilteknu fjárhæð. Ekki fannst mér áætlunargerðin vera traustvekjandi í sambandi við sjómannaafsláttinn, en ég er því miður ekki nægilega vel kunnugur ýmsu öðru sem nefnt hefur verið í þessu sambandi.
    Það hefur jafnframt komið fram í máli þeirra aðila sem við höfum kallað til að þeir hafa ekki nægilega mikla tiltrú á fjárlögunum, telja að þar sé um of byggt á flötum niðurskurði og þar hafi yfirleitt ekki tekist vel til og þess vegna megi ætla að fjárlagahallinn verði meiri. Jafnframt hefur komið fram að t.d. menntmrh. lítur ekki á almanaksárið í sambandi við þau mál sem að honum snúa heldur skólaárið og þar af leiðandi er ljóst að með því er á vissan hátt verið að lýsa því yfir að ekki sé ætlunin að fara í einu og öllu eftir fjárlögunum í sambandi við útgjöld til menntamála. Þótt það sé mjög gagnrýnt hve þar er gengið langt ber svo að skilja að ríkisstjórnin ætli sér ekki að fara í einu og öllu eftir ákvæðum fjárlaganna í þeim efnum og jafnvel þá ekki að ganga svo langt að senda hina sérstöku eftirlitsmenn á vettvang til að koma vilja fjárlaganna í framkvæmd.
    Við hljótum að gagnrýna þessi vinnubrögð og benda á það sem hefur komið fram hjá fulltrúum Alþýðusambandsins, en þeir hafa bent á að það sé búið með skattahækkunum og hækkun þjónustugjalda að skerða kaupmátt um 2%. Þeir halda því fram að það sé innlegg ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræður núna að koma með þessa viðbótarkjaraskerðingu upp á 2%. Nú skyldi maður ætla að verulegur árangur næðist með slíku, ekki aðeins í fjárlögunum heldur ætti það jafnframt að hafa veruleg áhrif á fjármagnsmarkaðinn, það ætti að geta skapast sú tiltrú þar að þetta mundi hvetja til vaxtalækkana. En svo virðist því miður ekki vera og vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. hvað hann ætlist fyrir í þessum efnum og hvort hann telur það raunhæft, sem hefur komið fram í þessum viðræðum okkar, að það sé grundvallaratriði að raunvextir lækki um 2,5--3% ef skynsamlegir kjarasamningar eiga að nást. Þetta er mikil lækkun og hefur komið fram hjá viðmælendum okkar að þessi vaxtalækkun muni ekki nást fram nema dregið sé úr útgáfu skuldabréfa af hálfu ríkisins. Það sé t.d. ákveðið að húsbréf séu ekki seld á markaði nema miðað við tiltekið raunvaxtastig og spariskírteini ekki heldur.
    Ég geri mér grein fyrir að ef á að draga með þeim hætti úr útgáfu spariskírteina gæti það orðið til þess að meiri yfirdráttur yrði hjá ríkissjóði við Seðlabankann, en það hlýtur að vera meginatriði að koma þessari vaxtalækkun fram og því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort eitthvað slíkt komi til greina, að selja ekki þessi bréf, t.d. húsbréfin, nema miðað við ákveðna viðmiðun raunvaxta. Það er afar mikilvægt fyrir það fólk sem er að leita út á þennan markað um þessar mundir að hafa einhverja tiltrú í þessu sambandi. Ef menn mættu t.d. vænta þess að innan skamms væri ríkisstjórnin ekki tilbúin að gangast fyrir sölu húsbréfa nema raunvextir lækkuðu um við skulum segja 2%, þá skiptir það miklu máli að því er varðar afföll af þeim bréfum. Það er ekkert lítið mál fyrir þá sem eru að koma á skuldbindingum, ekki til næstu tveggja ára eða þriggja ára heldur til næstu 25 ára, að vita hvers megi vænta. Það er nefnilega aðalgallinn við húsbréfakerfið að þeir sem selja slík bréf í dag eru bundnir þeim kjörum alla tíð og ef þar verður skyndileg breyting á, sem við skulum vona að verði, munu þeir ekki njóta þess á einn eða annan hátt.
    Það er afar merkilegt, hæstv. fjmrh., að fjalla um húsbréfakerfið. Við höfum nokkur á Alþingi haft uppi nokkra gagnrýni á framkvæmd þessa máls og bent á að það gæti verið nauðsynlegt að draga um sinn eitthvað úr útgáfu þessara bréfa til að koma fram almennri vaxtalækkun, en þá hefur hæstv. félmrh. staðið upp og talið það af og frá og ekki viljað hlusta á neina gagnrýni í þessum efnum. Það gekk svo langt að Seðlabanki Íslands leyfði sér að hafa nokkrar efasemdir um ágæti allrar þessarar útgáfu og birti sérstaka greinargerð um það mál sem Alþingi fékk aðgang að, en þá stóð hæstv. félmrh. upp og gagnrýndi Seðlabankann mjög harðlega fyrir tiltækið og tilkynnti að bankastjórar þess banka yrðu kallaðir fyrir. Við höfum fengið upplýst að þessir tilteknu bankastjórar hafa verið kallaðir fyrir af félmrh. og fengið að heyra skoðanir ráðherrans á málinu, en þeir hafa jafnframt upplýst nefndarmenn í efh.- og viðskn. um að þeir hafi ekki breytt um skoðun. Þeir telja að sú gagnrýni sem þeir hafi sett fram sé rökstudd og málefnaleg og sú greinargerð sem félmrh. hefur lagt fram um húsbréfin breyti engu í því, enda snúi sú greinargerð fyrst og fremst að húsbréfaviðskiptunum sem einangruðu fyrirbæri og án samhengis við fjármálamarkaðinn að öðru leyti. Það er e.t.v. helsti gallinn á umfjöllun félmrh., sem er slæmt að skuli ekki vera viðstaddur þessa mikilvægu umræðu því að það er ekki neinn smáhluti af lánsfjárlögunum sem snýr að hennar ráðuneyti eða rúmir 20 milljarðar til húsnæðismála. Verður nú nánast að gera kröfu til þess að hæstv. félmrh. fylgist með umræðum um þessi mál hér á Alþingi því það verður ekki gengið fram hjá því að þessi mikla stærð á peningamarkaðnum hefur þar veruleg áhrif. Það er ekki nóg að standa upp og segja: Þeir sem gagnrýna hafa

ekki vit á málum, þeir vita ekki hvað þeir eru að tala um. Þótt svo megi vera að seðlabankamenn hafi ekki vit á öllum hlutum hefur það verið svo að þeir hafa oftast, eftir því sem ég hef séð, lagt fram málefnalega gagnrýni á málum þótt því hafi ekki alltaf verið vel tekið hjá starfandi ríkisstjórnum. Þannig á Seðlabankinn að starfa. Hann á að veita ríkisstjórnum visst aðhald og skapa meiri tiltrú á fjármálamarkaðnum. Það er lífsins ómögulegt fyrir Seðlabankann að skapa meiri tiltrú ef ekkert hlustað á gagnrýni sem hann hefur fram að færa og lítið gert úr því sem þaðan kemur. En það er það sem einmitt hefur gerst í þessu máli að hæstv. félmrh. telur að ekki beri að hlusta á slíka gagnrýni og auðvitað heyrir fjármálaheimurinn þessi samskipti og bregst þannig við að ekki sé ástæða til að hafa mikla tiltrú á því sem á að gerast á næstunni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég vildi gjarnan að hæstv. fjmrh. upplýsti Alþingi um með hvaða hætti hann hyggst koma á lækkun raunvaxta á næstunni til að greiða fyrir kjarasamningum eða hvort hann telur að ríkisstjórnin eigi ekki að hafa þá ábyrgð og það hlutskipti.
    Það hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstjórn að hún neitar handafli og telur að það muni ekki gagnast við þessar aðstæður. Því er jafnframt haldið fram að ekki sé nóg að beita handafli heldur þurfi að taka pólitískar ákvarðanir í framhaldi af slíkum aðgerðum sem þurfi ávallt að fylgja í kjölfarið. Það hefur komið fram hjá hæstv. forsrh. að nauðsynlegt sé að beita fortölum við bankana, en nú virðist vera að þessar fortölur hafi að litlu gagni komið. Það var upplýst í samtölum við seðlabankamenn að þeir hafa reynt fyrir sér í samtölum við viðskiptabankana, en lítill árangur hefur orðið af því. Þeir vilja eiga borð fyrir báru, eins og einhver orðaði það, ef þeir mundu verða dregnir inn í kjarasamningana.
    Þá kemur sú stóra spurning hvort það sé í reynd að verða niðurstaðan að vextir séu að verða samningsatriði á vinnumarkaði. Það á ekki að beita handafli, fortölur gagna ekki, fjármagnsmarkaðurinn hefur ekki tiltrú á ríkisstjórninni og bregst þannig við að þeir bíða og bíða og svo virðist vera að nú sé fyrst beðið eftir því hvað aðilar vinnumarkaðarins muni geta knúið fram. Er það stefna hæstv. ríkisstjórnar að bíða eftir að aðilar vinnumarkaðarins knýi fram vaxtalækkun á fjármagnsmarkaðnum? Það er ekki ólíklegt að í það sé að stefna. En það er mjög mikilvægt fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta á þessu sviði að gera sér einhverja grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu sambandi, m.a. til þess að þeir taki ekki skjótar ákvarðanir sem skipta verulegu máli um framtíðarhag þeirra. Það er t.d. alveg ljóst að aðilar sem eru nú að selja bréf á markaði til mjög margra ára með háum raunvöxtum mundu verða fyrir miklum skaða ef vextir lækkuðu skyndilega.
    Þetta er e.t.v. aðalatriði þessa máls, hæstv. fjmrh. Þótt það sé vissulega svo að margt er í frv. sem snertir lántöku ríkisins og ég hef gert að umtalsefni alloft áður og tel ekki ástæðu til að hafa um mjög langt mál, þá vildi ég koma þessum almennu sjónarmiðum á framfæri.
    Eitt er það atriði jafnframt sem skiptir allmiklu máli og það er hverjir eru kaupendur að þeim pappírum sem stendur til að selja á þessum markaði. Það hefur komið fram hjá öllum viðmælendum okkar að það er skoðun þeirra að eðlilegur atvinnurekstur geti ekki staðið undir þeim vöxtum sem nú eru í þjóðfélaginu. Það er almennt sjónarmið allra. Það hlýtur því að vera ljóst að vextirnir skapa mikla kyrrstöðu og verða til þess að ekki er ráðist í ný atvinnufyrirtæki. Það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar að stuðla fremur að því að fyrirtæki verði gjaldþrota en að hjálpa til við nauðasamninga. Það hefur komið skýrt fram. Það er alveg ljóst að í stað þeirra fyrirtækja sem verða gjaldþrota koma fá og því ríkir almenn stöðnun í þjóðfélaginu. Stærstu aðilarnir á þessum markaði eru lífeyrissjóðirnir. Þeir hafa nú dregið að sér hendur í sambandi við kaup á skuldabréfum, fyrst og fremst vegna þess að þeir vilja fá upplýsingar um hvað eigi að verða um ríkisábyrgð á launum sem hæstv. fjmrh. hefur talið mjög óeðlilegt. Það kom hins vegar fram hjá þeim að með því væru þeir ekki að blanda þeim málum saman heldur vildu þeir eingöngu vita hver ættu að vera starfskjör þeirra áður en þeir hæfu kaupin. Einn orðaði það þannig að það væri í reynd ekki hægt að ætlast til þess að lífeyrissjóðirnir hjálpuðu sjálfir til við að saga af sér fæturna. Það er e.t.v. eðlilegt sjónarmið ef rétt væri, en ég býst ekki við að það sé hægt að leggja svo mikla áherslu á það að réttmætt sé að lýsa því með þeim hætti. Það er hins vegar alveg ljóst að það er mikil andstaða hjá lífeyrissjóðunum við að hefja kaup á skuldabréfum fyrr en starfskjör þeirra liggja fyrir.
    Síðan er spurningin, hæstv. fjmrh., um hvað á að semja við lífeyrissjóðina. Það er t.d. alveg ljóst að lánsrétturinn tengist ekki kaupum sjóðanna í dag eins og hann gerði áður. Hvatinn til þess að kaupa tiltekin skuldabréf er ekki lengur fyrir hendi. Það stendur til að opna fjármagnsmarkaðinn í verulegum mæli með þeim afleiðingum að lífeyrissjóðirnir geta þá farið að kaupa skuldabréf á erlendum mörkuðum. Hvaða áhrif mun þetta hafa? Er þá ekki langeðlilegast að lífeyrissjóðirnir komi einfaldlega með sín skuldbréf út á markaðinn án sérstakra samninga við ríkisvaldið? Er einhver ástæða til að stunda sérstaka samninga við lífeyrissjóðina og hvaða árangri hafa þeir skilað, hæstv. fjmrh.? Ég er ekki nægilega kunnugur því til að ég geti lagt mat á það. En ég held að það hafi ekki verið neinir sérstakir samningar sem ríkisvaldið hefur náð við lífeyrissjóðina. Og spurningin er þessi ef markaðurinn á að taka þarna algerlega við: Af hverju er það þá hreinlega ekki gert og framboð og eftirspurn látin ráða á þessum markaði eins og öðrum? Er ekki líklegra að það muni valda meiri lækkun á fjármagnsmarkaðnum en þeir fyrirhuguðu samningar sem fjmrh. ætlar í við lífeyrissjóðina?
    Ég ætla ekki að spyrja hæstv. fjmrh. um það hvað hann sé tilbúinn að bjóða í þessum samningum. Ég tel það ekki sanngjarnt að fara þess á leit við hann að hann upplýsi það í opinberri umræðu á Alþingi því að ég ætla að hann hyggist ná þar góðum samningum. Og það er e.t.v. heldur ekki sanngjarnt að spyrja hæstv. fjmrh. um það hvernig hann metur sína samningsstöðu. En ég held að sú samningsstaða hans sé ekkert sérlega góð og ekki líkleg til þess að hann nái þar fram mikilli lækkun ef hægt er að taka mark á því sem heyrist frá þessum aðilum varðandi stöðuna á fjármagnsmarkaðnum. Það virðist vera að þar sé ekki mikið traust, þar sé óvissa og menn bíði átekta og því sé beinlínis óskynsamlegt að ganga til stórra samninga um kjör þessara mikilvægu bréfa eins og nú standa sakir.
    Ég vildi jafnframt spyrja hæstv. fjmrh. um hvað hann hyggst fyrir með eftirlit af hálfu ríkisins með framkvæmd fjárlaga og með framkvæmd lánsfjárlaga, hvort það sé hans ætlan að koma þar upp í stórum mæli opinberum tilsjónarmönnum og hverjum hafi dottið í hug að koma á fót sérstökum aðilum sem taki á sig fjárhagslega ábyrgð í tilteknum stofnunum. Ég veit að hæstv. fjmrh. er skynsamur maður í rekstri fyrirtækja og hins opinbera og vill gera það sem skynsamlegra er talið. Og ég veit að honum er fullkunnugt um að það eru starfandi ýmsar hjálparstofnanir hjá ríkisvaldinu sem geta aðstoðað menn ef eitthvað fer úrskeiðis. Þar má nefna ríkisbókhaldið, þar má nefna hagsýsluna sem er á vegum hæstv. fjmrh., þar má nefna greiðsludeild fjmrn. og þar má jafnframt nefna Ríkisendurskoðun. Allar þessar stofnanir eru mikilvægur þáttur í stjórnsýslunni og má alltaf spyrja hvort ekki sé ástæða til að styrkja framkvæmd þessara stofnana. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að það sé rétt að styrkja framkvæmd ráðuneytanna sjálfra í sambandi við framkvæmd fjárlaganna. Ég vil í því sambandi spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki sé rétt að taka til við það frv. sem hér var flutt af fjárveitinganefnd um greiðslur úr ríkissjóði til að styrkja framkvæmd fjárlaganna.
    Það er ekki eingöngu um það að ræða að vondir forstöðumenn stofnana séu valdir að fjárlagahallanum. Það er ekki síst að oft er áætlanagerð ekki nægilega góð. Ráðuneytin sjálf stofna til margvíslegra útgjalda án þess að nægilegar heimildir liggi fyrir í fjárlögum. Ýmsir forstöðumenn stofnana hafa áreiðanlega stofnað til útgjalda af hálfu þeirra að beiðni ráðuneytanna og ég er nokkurn veginn viss um að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér ekki að setja opinbera tilsjónarmenn í ráðuneytin sjálf. Því er öll þessi umræða með miklum eindæmum. Það sem stendur til að gera er einfaldlega það að ef um stofnun er að ræða þar sem menn telja að menn standi sig ekki nógu vel á einfaldlega að fá nýja menn og senda þá þangað inn og þeir eiga að bera fjárhagslega ábyrgð á viðkomandi stofnunum. Ég hef aldrei heyrt að mönnum hafi áður dottið í hug í sambandi við eftirlit, aðhald og stjórnun fyrirtækja að standa þannig að málum. Það er alveg ljóst að það mun engum árangri skila og ekkert annað en sjálfsblekking að halda því fram að þetta tiltekna ákvæði muni skila einhverju í aðhaldi að fjárlögum, enda viðurkenndu aðstoðarmenn ráðherranna þetta og sögðu: Það er ekki einu sinni nauðsynlegt að setja þetta ákvæði lagalega séð. Það eru allar heimildir fyrir hendi. Það er mikilvægt pólitískt og það er mikilvægt efnahagslega. Það á að nota Alþingi Íslendinga til að setja ónauðsynlegt ákvæði í lög til að hrella menn. Það finnst mér vera ljótur leikur, hæstv. fjmrh. Mér finnst að ríkisstjórnin geti verið í því að hrella þessa menn með þeim hætti sem hún telur nauðsynlegt á grundvelli gildandi laga, en það eigi ekki að vera að reyna að skapa einhverja sérstaka umræðu um ónauðsynleg ákvæði og þar að auki óskynsamleg ákvæði til að koma þessum vilja fram.
    Við höfum reynt, hæstv. fjmrh., allt okkar besta í efh.- og viðskn. til að fara yfir þetta mál með málefnalegum hætti og áttum satt best að segja von á að því yrði einfaldlega kippt til baka og menn viðurkenndu að hér hafi verið visst fljótræði á ferð. En það gerðu menn ekki heldur fóru í skúffurnar og leituðu og leituðu hvort það hefði ekki verið eitthvað svipað sem fyrri ríkisstjórn hefði látið sér detta í hug. Það er svo undarlegt með hæstv. ríkisstjórn að ef hún finnur eitthvað sem fyrri ríkisstjórn hefur látið sér detta í hug er það sönnun fyrir því að málið sé gott. Þar sem fyrri ríkisstjórn hafði látið setja eitthvað því um líkt á blað, sem er þó allt annars eðlis, var gefinn út sá úrskurður að hér væri um hið besta mál að ræða og þá gerðar nokkrar breytingar og tekið lítils háttar tillit til þess sem áður hafði verið sett á blað í þessum efnum að því er varðar heildarendurskoðun á lögunum um Stjórnarráð Íslands. En það frv. var samið af tiltekinni nefnd og fékk aldrei efnislega umræðu, hvorki í ríkisstjórn eða hér á Alþingi. Ég býst við að við getum verið sammála um að það sem kom frá þessari tilteknu nefnd sé gagnrýni vert eins og allt annað sem sett er fram í þessu sambandi, enda á það ekki að vera aðalatriði málsins.
    Ég bendi hæstv. fjmrh. á að sú stofnun sem Alþingi hefur sett á stofn til að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaganna varar mjög við þessum hugmyndum, þ.e. Ríkisendurskoðun. Hún hefur ekki sent álit, enda kom í ljós að Ríkisendurskoðun hefur ekkert verið spurð um málið og ekkert samráð haft við hana og býst ég þá við að það staðfesti annað sem kemur í ljós í störfum efh.- og viðskn., að það er yfirleitt ekki talað við nokkurn aðila. Ég veit ekki hvar hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn leita ráðlegginga í málum sem þessum og við hvaða aðila í stjórnsýslunni þeir ræða til að setja fram mál af þessu tagi. Ég trúi því ekki að einhver sá aðili sem kennir stjórnun eða er sérfræðingur á sviði eftirlits eða fjármálastjórnar ráðleggi hluti sem þessa og ætti það nú verða til þess að hæstv. ríkisstjórn dragi þetta einfaldlega til baka því að það er engin leið að verja þetta, hæstv. fjmrh., og ríkisstjórnin á ekki að vera að eyða dýrmætum tíma sínum í svona endalausa vitleysu. Hún á að snúa sér að því sem máli skiptir, þ.e. hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaganna, reyna að tryggja sem best að fjárlögunum sé framfylgt og átta sig þá betur á því hvar veilurnar eru. Ég held að það sé ljóst að veilurnar eru ekkert síður í ráðuneytunum sjálfum og veilurnar eru ekkert síður í þeirri áætlanagerð sem liggur til grundvallar þegar fjárlög eru samþykkt sem hvetja oft og tíðum til þess að fjárlög eru ekki framkvæmd af þeirri virðingu sem ber og menn telja að það sé hægt að fara fram

úr fjárlögum vegna þess að áætlanir hafi verið óraunhæfar. Þannig varð frægt að þegar flugmálastjóri ætlaði að fara eftir fjárlögum að sagt er og hætta snjómokstri var honum jafnvel hótað brottrekstri ef það yrði gert. En auðvitað kemur oft upp í þessu sambandi að menn verða að minnka eða stöðva þá þjónustu sem á að láta í té ef á að fara að vilja fjárlaganna. Ég held að engir opinberir tilsjónarmenn muni verða til að breyta miklu í þessu sambandi, hæstv. fjmrh., en það læðist að okkur mörgum að það standi þarna til að senda inn sérstaka pólitíska kommissara til að framkvæma skipanir ríkisstjórnarinnar. Ég tel að það sé mikill óþarfi, hæstv. fjmrh., og ég held að flestir opinberir starfsmenn séu svo góðir embættismenn að þeir vilji framfylgja skipunum yfirmanna sinna. Ef þeir vilja ekki framfylgja skipunum yfirmanna sinna eru til lög sem taka á því máli, sem fjalla um opinberar skyldur, og það er sú löggjöf sem hverjum og einum opinberum starfsmanni ber að halda í heiðri.
    Ég sé að hæstv. félmrh. er kominn hingað á Alþingi og ég þakka það. Ég vildi þá aðeins endurtaka það, hæstv. félmrh., að ég ásamt fleiri hv. þm. er mjög upptekinn af því og hæstv. fjmrh. er jafnframt afar upptekinn af því að fjármagnskostnaður lækki. Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram ýmsar niðurskurðarhugmyndir í sambandi við fjárlög og gengið út frá því að þessar niðurskurðarhugmyndir gætu nægt til þess að vextir lækkuðu. Það hefur komið fram hjá aðilum vinnumarkaðarins að þeir telja að það sé alger forsenda þess að skynsamlegir samningar takist að vextir lækki um 2--3%. Það hefur komið fram í þessum viðtölum að viðskiptabankarnir telja sig ekki hafa nein ráð á að standa fyrir þessum vaxtalækkunum. Seðlabankinn segist hafa reynt að beita fortölum og koma því til leiðar að vextir lækkuðu lítillega, en það hefur ekki borið árangur. Því er alveg ljóst að aðilar vinnumarkaðarins meta það svo að ríkisstjórnin sé eini aðilinn sem þarna geti komið að málum og lýst því yfir að það muni því aðeins gerast ef vextir verði lækkaðir á spariskírteinum og húsbréf ekki seld nema ávöxtunarkrafan lækki. Þetta getur þýtt það, hæstv. félmrh., að draga yrði úr framboði á þessum bréfum um stundarsakir til að ná fram vaxtalækkun sem ég tel að verði að gera ef með því er hægt að tryggja vaxtalækkun eins og ég held að sé hægt.
    Mér hefur fundist á hæstv. félmrh. að hann vildi lítið að þessu huga. Fyrir nokkru vitnaði hæstv. félmrh. til sérstakrar skýrslu um húsbréfin sem fjallar nú meira um þau sem einangrað fyrirbæri á fjármagnsmarkaðnum, en ekki mjög mikið um tengsl húsbréfanna við fjármagnsmarkaðinn að öðru leyti sem er að sjálfsögðu aðalatriðið. Við ítrekuðum okkar samtöl við Seðlabanka Íslands sem hefur leyft sér að gagnrýna þá miklu útgáfu sem hefur verið á húsbréfum. Ég gagnrýni það líka og tel að þar hafi verið gengið of langt og ekkert hugsað um hvaða áhrif þessi útgáfa hefði á fjármagnsmarkaðinn, orðið til þess að vaxtabyrði fólks hefur hækkað stórlega. Það virðist vera að hæstv. félmrh. telji litlu skipta hvaða vexti fólk þarf að borga. Það sé aðalatriðið að gefa út nóg af þessum pappírum. Því hljótum við að spyrja hæstv. félmrh.: Er hann tilbúinn að leggja eitthvað af mörkum til þess að hægt sé að ná fram vaxtalækkun? Og ég vil jafnframt upplýsa hæstv. félmrh. um að við spurðumst fyrir í Seðlabankanum um þá fundi sem menn þaðan hafa átt með hæstv. félmrh. og kom fram að Seðlabankinn hefur ekki breytt um skoðun. Hann ítrekar það sem hann hefur skrifað um þessa útgáfu og verður að ætla að Seðlabankinn sé sá aðili í þjóðfélaginu sem hefur besta yfirsýn yfir fjármagnsmarkaðinn. Ég hef tekið eftir því að hæstv. félmrh. hefur gagnrýnt þetta mjög og ekki talið að Seðlabankinn hafi farið með rétt mál. Þá er kannski ekki undarlegt að lítil tiltrú sé á fjármagnsmarkaðnum um þessar mundir þegar yfirlýsingar stofnana ríkisins og ríkisstjórnarinnar ganga jafnmikið á skjön og raun ber vitni. Félmrh. segir eitt, fjmrh. annað og Seðlabankinn e.t.v. eitthvað allt annað. Nú væri mikilvægt að fá upplýst hvort hæstv. fjmrh. er sammála Seðlabankanum eða félmrh. Að vísu upplýsti hann í frammíkalli um daginn að hann væri eiginlega sammála báðum aðilum. En það er mjög erfitt í þessu máli, hæstv. fjmrh., og mikilvægt að fjmrh. taki á sig rögg og segi einfaldlega að þetta gangi ekki lengur, hverju svo sem félmrh. heldur fram í þessu máli því að húsbréfin eru ekki einangrað fyrirbæri á fjármagnsmarkaðnum. Jafnvel þótt ríkisstjórnin hafi sett það í sína hvítu bók að komið verði á jafnvægi á þessum markaði m.a. með því að lækka ríkisútgjöld fær sú yfirlýsing ekki staðist því að fjármálamarkaðurinn er miklu flóknari en svo að hægt sé að lýsa því með þessum orðum.
    Ég vildi þá að lokum vísa til þess, sem ég sagði í upphafi máls míns, að minni hluti efh.- og viðskn. hefur ekki breytt um skoðun frá því að nál. var gefið út 9. des. 19 91. Minni hlutinn telur að enn sé mikil óvissa um fjármál þjóðarinnar. Það sé ljóst að aðilar vinnumarkaðarins muni mjög herða á nú á næstunni að koma fram þeim lagfæringum sem þeir telja nauðsynlegar til að koma á skynsamlegum samningum og þá sé mjög líklegt og nánast nokkur vissa fyrir því að það muni ekki gerast öðruvísi en með breytingum á lánsfjárlögum eða fjárlögum ríkisins. Þess vegna sé ekki skynsamlegt að afgreiða lánsfjárlög strax, a.m.k. ekki fyrr en meiri vissa liggur fyrir um stöðu mála. En vegna þess hve þessi staða er óljós vísar minni hlutinn allri ábyrgð á afgreiðslu málsins frá sér og mun ekki greiða þessu frv. atkvæði sitt.
    Aðrir nefndarmenn sem skrifa undir þetta minnihlutaálit munu gera nánari grein fyrir afstöðu sinni við umræðu um þetta mál við framhald 2. umr.