Lánsfjárlög 1992

65. fundur
Mánudaginn 13. janúar 1992, kl. 15:58:00 (2683)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka það. Ég vildi aðeins upplýsa hæstv. fjmrh. um að mér er enginn hlátur í huga þegar ég er að ræða um þá tilsjónarmenn sem hann ætlar að senda af stað nú. Það er ekki nóg með að þeir eigi að hafa eftirlitshlutverk og þeir eigi að taka að sér fjármál viðkomandi stofnana heldur sagði hæstv. fjmrh., sem var allmerkilegt, að hann vænti þess að forstöðumenn ríkisstofnana, eins og ég skildi hann, læri það sem þeir þurfi að kunna. Er það sem sagt ætlunin að þessir menn verði jafnframt kennarar? Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því, hæstv. fjmrh., að það þarf að taka þessi mál föstum tökum en hæstv. fjmrh. er á rangri braut og hann á að viðurkenna það. En það er langt frá því að mér sé hlátur í huga þegar ég ræði þetta og það má vel vera að ég neyðist til að ræða þetta einu sinni enn miðað við undirtektir fjmrh.