Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 14:35:00 (2689)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Það er bersýnilegt að formaður þingflokks Alþfl. á í nógum erfiðleikum með að svara fyrir Alþfl. á líðandi stundu, hina miklu herleiðingu hans, þó að hann sé ekki að reyna að verja stefnu hans frá 1934. Og það verð ég að segja þó að ég hafi ekki mikla kunnáttu í vísdómi þeirrar tíðar að mikið held ég að að mörgu leyti hafi alþýðuflokksmenn þeirrar tíðar verið geðþekkari sem börn síns tíma en þeir sem nú ráða ferðinni. Og það er hlutskipti hv. 17. þm. Reykv. og þingflokksformanns þeirra alþýðuflokksmanna að styðja og vinna að mörgu leyti skítverkin fyrir einhverja ómenguðustu hægri stjórn síðari áratuga ef ekki bara frá upphafi lýðveldisins og upphafi ríkisstjórna. Þannig er eðlilegt að honum sé ekki rótt, hv. þm., enda sprettur hann upp og gerir athugasemdir við ræður manna og ber af sér sakir og Alþfl. þó að hann kjósi að biðja um orðið undir öðrum lið, þ.e. að gera athugasemdir eða veita andsvör.
    Herra forseti. Ég er með hluta af málsskjölum efh.- og viðskn. varðandi lánsfjárlögin og ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og er meira til gamans gert að hafa þetta með í ræðustólinn rétt til að sýna mönnum það sem þarna hefur verið lagt fram af pappírum. Ég ætla ekki að lesa þetta allt upp né heldur fara langt aftur í tímann í sögulegar útlistanir þó að það sé áhugavert og þarft og bíði síns tíma að ræða m.a. við Alþfl. um slíka hluti, en ég held að mér veiti ekkert af þeim ræðutíma sem talist getur innan kristilegra marka og sem ég þarf í það að ræða ástand líðandi stundar og stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún er í dag og það sem snýr fram á veginn í íslenskum þjóðmálum. Ég held að ég láti öðrum eftir að mestu leyti hina frjóu umræðu t.d. um fortíðarvandann, en reyndar er ég með hefti ríkisstjórnarinnar um fortíðarvandann sem forsrn. gaf út á Þorláksmessu. Þann 23. des. 1991 kom út þessi bók um fortíðarvandann og ég kem kannski lítillega inn á verksvið þeirrar nefndar og skilgreiningu þá sem forsrn. lét henni í té að vinna eftir.
    En í upphafi vil ég segja, herra forseti, varðandi umræðuna um lánsfjáráætlun að það sem einkennir öllu öðru fremur ástand mála nú snemma í janúarmánuði 1992, þegar enn er verið að ræða viðamikil frumvörp sem tengjast afgreiðslu fjárlaga og efnahagsstefnu, ef efnahagsstefnu skyldi kalla, hæstv. ríkisstjórnar, er óvissan. Það er sú upplausn sem afar skýrt kom fram í viðtölum efh.- og viðskn. þingsins við fjölmarga málsmetandi aðila í þjóðfélaginu. Það var nánast sama hvar borið var niður, hvort rætt var við

forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar, fyrirtækjanna, bankastofnana eða annarra fjármálastofnana og yfirleitt alla helstu málsaðila úti í þjóðfélaginu, að upp úr þeim stóð sú óvissa og það upplausnarástand sem ríkti í landinu í öllu sem snerti fjármagnsmarkaðinn, vaxtamál, peningamál, kjaramál og yfir höfuð alla stjórnarstefnu í þessum efnum.
    Það kom mjög skýrt fram þegar rætt var við t.d. talsmenn viðskiptabankanna, Seðlabankans og peningamarkaðarins að þar ríkir fullkomið upplausnarástand og hefur gert síðan á sl. hausti. Það ótrúlega sem hefur skeð er að það er fyrst og fremst ríkisstjórnin sjálf sem hefur skapað þessa óvissu með ýmsum óskynsamlegum ákvörðunum og að öðru leyti með því að hafa enga stjórnarstefnu og sleppa taumunum lausum svipað og hnýtt væri upp á hjá hestum og slegið í lendina á þeim og þeir sendir út í myrkrið. Ég hef áður tekið þá líkingu af hrossarekstri til þess að gera mál mitt myndrænt í þessum efnum.
    Sömuleiðis kom mjög skýrt fram að það eru allir að bíða eftir öllum hvað snertir vinnumarkaðinn og möguleikana á að koma á einhverjum kjarasamningum. Það hvarflar stundum að manni að hæstv. ríkisstjórn hafi gleymt því að það eru allir samningar lausir í landinu, svo til allir með tölu. Kjarasamningar allra stærstu samtaka launafólks í landinu eru lausir og mjög víða eru þegar komnar verkfallsheimildir í hendur þeirra sem með samningsumboðið fara fyrir hönd launafólks. Við þessar aðstæður er það með ólíkindum sem nú er fram reitt og sýnt fram á af t.d. forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands, að einmitt núna í jólaföstunni og fram yfir áramótin hefur hæstv. ríkisstjórn verið að leggja sitt af mörkum til þess að kjarasamningar gætu tekist í landinu --- eða hvað? Með því t.d. að skerða kjör landsmanna um 2%. Það er búið að kippa í burtu 2% af kaupmætti launatekna almennings í landinu með ráðstöfunum þessarar sömu ríkisstjórnar. Og það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsrh. að því: Hefur hæstv. forsrh. ekki áttað sig á því að kjarasamningar eru lausir í landinu? Hafa hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. ekki áttað sig á því að það bendir þar hver á annan? Bankarnir benda á vinnumarkaðinn og segja: Við getum ekki lækkað vexti meðan hvorugt gerist að ríkisstjórnin lækki vextina hjá sér og samningar takist á vinnumarkaðnum. Og á vinnumarkaðnum segja menn: Við getum ekki samið nema vextirnir lækki og svo og svo mikið af álögum og árásum ríkisstjórnarinnar á launafólk gangi til baka. Það er satt best að segja með slíkum ólíkindum miðað við það sem viðgengist hefur áður í þessu þjóðfélagi að ríkisstjórn, sem maður skyldi halda að væri þó það viti borin að hún áttaði sig á því að hún á nánast allt undir því að farsæl niðurstaða takist á vinnumarkaðnum á næstu vikum úr því að það er ekki skeð fyrir mörgum mánuðum, sem hefði þurft að vera, að þjóðarsáttin eða sambærilegir samningar hefðu verið framlengdir strax í haust sem menn hefðu auðvitað átt að nota sumarið til að gera --- en að sú ríkisstjórn, hverrar líftóra hangir væntanlega á því að það takist þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður að leiða þessi mál til lykta með farsælum hætti, skuli leggja sitt af mörkum með því að undirbúa samningagerð verkalýðshreyfingarinnar með 2% alveg extra skerðingu á kjörum fólks og fjölþættum árásum á réttindi margra starfsmanna og hópa í þjóðfélaginu, það er algerlega með ólíkindum.
    Þessi óvissa, herra forseti, og þessi staða, þetta upplausnarástand bæði á peningamarkaðnum, á vinnumarkaðnum og almennt talað í þjóðarbúskapnum og þjóðlífinu kom mjög skýrt fram í viðtölum efh.- og viðskn. við þá gesti sem þangað hafa komið á undanförnum dögum, mjög skýrt. Svo gengur hæstv. fjmrh. glottuleitur um gólf og er þá ástæða til að spyrja hvað valdi þessari sérstöku gleði hans. Er hann svona hreykinn af frammistöðu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Telur hann það mikil klókindi sem sýnd hafa verið á undanförnum vikum af hæstv. ríkisstjórn? ( Fjmrh.: Það er hin stórskemmtilega ræða ræðumanns.) Eru það hin jákvæðu samskipti ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins sem hann er að fagna, þessi hæstv. fjmrh. sem gengur glottandi um sali? Það er von að spurt sé.
    Sú ríkisstjórn sem sat á síðasta kjörtímabili og átti aðild að því og lagði grunninn að því að hér tókust einhverjir farsælustu kjarasamningar og einhver farsælasta efnahagsstjórn sem við höfum séð á síðari áratugum í landinu þurfti að sjálfsögðu að leggja mjög mikið af mörkum til þess að sú niðurstaða fengist. Ég ætla að fara aðeins yfir það til að gefa mönnum samanburð á því hvernig með ólíkum hætti og ólíkum viðhorfum var unnið að þessum málum, annars vegar í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem undirbjó og náði víðtækri þjóðarsátt um kaup og kjör og efnahagsstefnu í landinu á árunum 1989--1990. Hvernig var það gert?
    Það var í fyrsta lagi gert með því að beita mjög víðtækum ráðstöfunum til að ná niður vöxtum í þjóðfélaginu. Það tókst að lækka raunvaxtastigið í landinu umtalsvert, sérstaklega á árinu 1989, sem var viðamikill hluti af aðgerðum stjórnarinnar til að ná niður verðbólgu og vöxtum, skrá gengi krónunnar rétt, fá jákvæða afkomu í rekstri útflutningsatvinnugreinanna og skapa þannig forsendur og stöðugleika til þess að þjóðarsáttarsamningar gætu orðið.
    En fleira þurfti að koma til. Og ríkisstjórnin lagði af mörkum við þetta samkomulag margþættar ráðstafanir. Það voru til að mynda lækkaðar gjaldskrár opinberra fyrirtækja í stórum stíl og fjölmörg opinber fyrirtæki lögðu það af mörkum að það voru engar gjaldskrárhækkanir hjá þeim á tíma þjóðarsáttar. Það voru stórauknar niðurgreiðslur á matvörum og tókst með samstarfi ríkisvalds, bændasamtaka og aðila vinnumarkaðarins að halda verði á mikilvægustu matvörum heimilanna svo til óbreyttu í eitt og hálft ár. Og það voru leyst ýmis brýn réttinda- og hagsmunamál samtaka launafólks sem þau samtök óskuðu eftir og voru liður í þessari sátt. Þetta var allt saman gert með þeim afleiðingum, hv. þm., að flestra dómi held ég sem eitthvert skynbragð bera á þessi mál, að við nutum einhvers hagstæðasta tímabils í þessum efnum

og náðum þeim árangri t.d. í baráttunni við verðbólguna sem er sögulegur í þessu efni og núv. ríkisstjórn nýtur auðvitað góðs af eins og aðrir landsmenn.
    Auðvitað kostaði þetta vissar byrðar á ríkissjóð, það er rétt. En var það ekki þess virði að tryggja hérna stöðugleika, að tryggja jákvæða afkomu í atvinnulífinu, að tryggja lækkun verðbólgu, að tryggja að kaupmáttur fór heldur vaxandi á þessum tíma? Var það ekki þess virði? Til hvers eru menn að reyna að stjórna efnahagsmálum? Er það ekki til að reyna að auka hagsæld í landinu, bæði hjá atvinnulífi og launafólki? Ég hélt það. Það er þá kannski einhver misskilningur ef svo er ekki.
    Berum þetta svo saman við það sem núv. ríkisstjórn er að gera. Hvað vakir eiginlega fyrir þeim mönnum sem fara með forsjá ríkisins á slíkum tímum sem við núna upplifum og það verður ekki annað séð en a.m.k. kæri sig kollótta um hvort hér náist nokkur sú niðurstaða í kjarasamningum sem ásættanleg getur orðið ef ekki beinlínis, sem réttast er auðvitað að gera og liggur beinast við, að túlka ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem beinan fjandskap við þau mál og það sé beinlínis verið að torvelda það? Það kom einhver undarleg harka í málróm hæstv. fjmrh. í gær þegar hann var að minna samtök úti í þjóðfélaginu á þá staðreynd að ríkisstjórnin væri kjörin og henni kæmi það ekki mikið við hvað aðrir hugsuðu eða gerðu í þessum efnum, hún væri sko kjörin, hún hefði sko meiri hluta hér á þingi og þess vegna gæti hún gert það sem henni sýndist. Ég leyfi mér nú að endursegja með frjálslegum hætti það sem hæstv. fjmrh. sagði í gær. ( Fjmrh.: Mjög svo frjálslega.) Hæstv. fjmrh. hefur tækifæri til að koma upp og endurtaka orð sín.
    Síðan er, herra forseti, einn þáttur þessa máls, sem ég tel óhjákvæmilegt að ræða svolítið ítarlegar, sem lýtur að afgreiðslu lánsfjárlaganna og það er spurning um áhrif þessarar lánsfjáráætlunar á vaxtastigið í landinu. Það hefur verið upplýst og ekki hrakið að þar er á ferðinni einhver mikilvægasta breytan í allri þessari umræðu um efnahags- og kjaramál og er alveg ljóst að fátt ef nokkuð er okkur jafnhættulegt og erfitt viðureignar eins og nú standa mál og þeir okurháu vextir sem í landinu eru. Einnig að þessu leyti verður því tæpast trúað að hæstv. ríkisstjórn sé með fullri meðvitund þegar ákvarðanir hennar að undanförnu í þessum efnum eru skoðaðar. Ég vissi ekki hvort ég átti heldur að hlæja eða gráta eða hvað ég átti að gera af mér þegar hæstv. fjmrh. fór að ræða um framlag sitt eða hæstv. ríkisstjórnar á næstunni í þessum efnum sem væri að lækka ríkisvextina á ríkisskuldabréfunum um heil 0,2 prósentustig. Og til hverra? Til áskrifendanna að skuldabréfunum sem hvort sem er eru ekki á almennum markaði og hafa þar af leiðandi ekki með kaupum sínum nein markaðsáhrif á þessi bréf nema það selst eitthvað pínulítið af þeim í þessari lokuðu áskrift og það er hugsanlegt að einhverjir þeirra segi henni upp við þessa vaxtalækkun, en um það veit ég svo sem ekki.
    En hvernig er staðan, herra forseti? Jú, hún er þannig að hæstv. ríkisstjórn, hæstv. fjmrh. hefur rétt nýlega ákveðið að það verði engar vaxtalækkanir á næstunni, að vaxtastig ríkisskuldabréfanna verði um 8% á næstunni á nýjum flokkum skuldabréfa ofan á verðtryggingu. Og hvað þýðir það? Það þýðir að innlánsvextir ríkisins verða áfram nokkurn veginn jafnháir og lægstu útlánsvextir bankanna eru í dag. Og ætlast menn til þess í alvöru, þó að ég skuli ekki skorast úr leik úr hópi þeirra sem vilja gera harðar kröfur til bankakerfisins um að halda niðri vöxtum, að bankakerfið fari með útlánsvexti sína niður fyrir innlánsvexti ríkisins? Það þyrfti að gerast ef vextir þyrftu að lækka hér á næstunni í ljósi þeirrar ákvörðunar sem ríkisstjórnin hefur tekið. En það er þannig að lægstu útlánsvextir bankanna eru 11. desember sl. á vísitölubundnum lánum, þ.e. svonefndir kjörvextir, frá 8% í Búnaðarbankanum og upp í 8,5% í Landsbanka og Íslandsbanka. ( Fjmrh.: Hverjir fá þá vexti?) Þetta eru kjörvextirnir, hæstv. fjmrh., og úr því að hæstv. fjmrh. veit þetta ekki skal ég fræða hann um það og er tími til kominn að hann átti sig á þessu. Það eru traustustu og bestu viðskiptavinir bankanna sem eru svo sterkir að það er ekki umtalsverð áhætta fólgin í útlánum þeirra. Þannig ætti það að vera almennt í þjóðfélaginu ( Fjmrh.: Hvað borgar ræðumaður í vexti?) að bankarnir gætu lánað yfirleitt á þessum vöxtum. En svo er ekki, því miður, og það segir sína sögu um ástandið í íslensku atvinnulífi þessa dagana og hæstv. fjmrh. ætti að hugleiða það. Auðvitað er staðreyndin sú að allt of fáir og reyndar sárafáir njóta þessara kjörvaxta bankakerfisins, en þeir eru samt útlánsvaxtabotninn og hann mun ekki fara niður fyrir innlánsvextina, hæstv. fjmrh., sem þú ert að bjóða. Það er vonlaust mál.
    Með ákvörðun hæstv. fjmrh. hefur því verið ákveðið að vextirnir lækki ekki hér á næstunni þegar það er enn fremur upplýst af bönkunum að þeir haldi nú að sér höndum af tveim ástæðum: vegna þess að verðbólguspá Seðlabankans er hærri en núverandi verðbólgustig og vegna þess að það eru lausir kjarasamningar. Viðskiptabankarnir segja ósköp einfaldlega á fundi með efh.- og viðskn.: Við drögum lappirnar, við höfum borð fyrir báru vegna þess að verði síðan gerðir kjarasamningar og verðbólgan fari upp á nýjan leik ætlum við ekki að lenda í því að þurfa að hækka vextina. Það er eins gott að þetta komi fram hér opinberlega. Reyndar er það að nokkru leyti staðfest í nýjasta tímariti af Hagtölum mánaðarins, en þar er fróðlegt yfirlit um vaxtaþróunina undanfarið ár og stöðuna í dag sem ég bendi hv. alþm. á að lesa. Það er greinargott og ekki nema tvær síður þannig að seinlæsir menn eru tiltölulega fljótir að átta sig á þessu. Þar eru mjög fróðleg línurit sem sýna vaxtastigið og stöðu þessara mála í dag. Það skýrasta er það hrikalega stökk sem vaxtastigið í landinu tók í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar í maímánuði sl. Um hvað? Um að fíra raunvaxtstiginu í landinu upp um 2%. Það er að verða deginum ljósara, hæstv. fjmrh., að það hefur ekki skilað árangri. Og að þetta skuli gerast með þessum hætti, að vaxtastigið í landinu sé sett upp

um 20 eða 25% eftir því við hvað er miðað, hærri eða lægri töluna, úr 8% raunvöxtum í 10 á örfáum vikum, er með ólíkindum. Það er með ólíkindum í ljósi þeirra efnahagsráðstafana sem við búum við á Íslandi.
    Og vaxtastigið eins og það birtist núna gagnvart þeim þolendunum sem erfiðasta hafa stöðuna og eru fjærst því að geta notið kjörvaxtakjara bankanna, hvernig er það? Við skulum hugsa okkur einn viðskiptavin Íslandsbanka, þessa merka einkabanka sem var búinn til og átti nú heldur ekki að vera fáninn fyrir einkaframtakið en hefur gengið dapurlega að reka hann, a.m.k. miðað við ríkisbankana, og hefði það einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að það væri hægt að reka ríkisbanka mikið betur en einkabanka. Passar það inn í einkavæðingarformúlurnar hjá hæstv. ríkisstjórn? En það er samt þannig að vaxtamunurinn er meiri hjá Íslandsbanka og tapið meira en hjá hinum. Hvernig er það með viðskiptavin, sem er í erfiðri stöðu, t.d. sjávarútvegsfyrirtæki með miklar skuldir, kannski í Vestmannaeyjum þar sem Íslandsbankinn er fyrirferðarmikill, sem labbar inn til síns bankastjóra og biður um skuldabréfalán, óverðtryggt lán til nokkurs tíma og honum bjóðast skuldabréf? Bankinn segir við hann: Því miður er þín staða og þíns fyrirtækis svo veik að þú átt ekki kost á láni nema í C-flokki. Hvað þýðir það? Það þýðir að þetta fyrirtæki þarf að taka lán í dag á 18,25% vöxtum í 2% verðbólgu. Og hvað er það? Það eru 16,25% raunvextir á þeim lánum. Hvaða atvinnustarfsemi þolir það? Þetta er staðan í dag. Þetta er sú staða sem skuldsett fyrirtæki, eins og íslensk fyrirtæki eru upp til hópa, eða skuldsett heimili þurfa að búa við og þetta er sá veruleiki sem hæstv. ríkisstjórn ætti að hafa í huga þegar hún er að tala um þessi mál. Og er það nema von að forsvarsmenn íslenskra atvinnuvega og forsvarsmenn íslenskrar verkalýðshreyfingar vilji fá einhverja niðurstöðu í þessi mál, sjá einhvern árangur í verki áður en þeir setjast að samningaborði með ríkisstjórn sem komið hefur fram eins og raun ber vitni undanfarna daga?
    Hæstv. fjmrh. spurði: Hvaða vexti borgar ræðumaður? Það var ágæt spurning því það vill svo til að ræðumaður borgar vexti af lánum, keypti t.d. íbúð 1986, tók þá lífeyrissjóðslán eins og menn gerðu gjarnan til viðbótar láninu úr gamla húsnæðiskerfinu. Og hvernig voru vaxtakjörin þá? Þau voru 5--5,2% á útlánum lífeyrissjóðanna ofan á verðbólgu, reyndar með þeim skilmálum að þetta væru hæstu lögleyfðir vextir samkvæmt tiltekinni viðmiðun í bankakerfinu. Hverjir eru þessir vextir í dag? Þeir eru 9,75% og þá er svarið komið handa hæstv. fjmrh. Ræðumaður borgar m.a. af lífeyrissjóðsláni sínu 9,75% vexti þessa dagana. Og hvers vegna borga ég 9,75% raunvexti ofan á verðbólgu? Það er vegna þess að sú viðmiðun sem nú er tekin í bankakerfinu fyrir það sem áður hétu samkvæmt gömlu lögunum fyrir 1985 ,,hæstu lögleyfðu vextir`` í bankakerfinu eru ekki kjörvextirnir. Ónei. Ég ræð engu um það hvort sem ég er sæmilega stöndugur og hef staðið í skilum eða ekki. Ég fæ ekki kjörvexti ef ég er með lán á skilmálunum ,,hæstu lögleyfðu vextir``. Ég fæ þessa útlánsvexti bankanna með því álagi sem að meðaltali er lagt ofan á útlánin, sem er frá 1,5 og upp í 2%, þannig að með þessum vaxtabotni bankakerfisins að viðbættu álaginu er ekki bara verið að festa þessa vexti gagnvart útlánum bankanna heldur líka á öllum lánum sem eru með þá skilmála inni að taka beri hæstu lögleyfða vexti samkvæmt þeirri viðmiðun sem áður var bundin í lögum fyrir breytingar á lögum um Seðlabankann og viðskiptabanka árið 1985. Þar er í grófum dráttum ramminn markaður um vaxtastigið í landinu. Þessi lán eru óháð eftirspurn, auknum sparnaði eða aukinni eftirspurn í lán. Þau eru ekki á markaðnum. Þau eru ósköp einfaldlega á herðum þeirra sem tekið hafa þessi lán undanfarin ár og það breytir engu um hvaða þróun verður á lánamarkaðnum í dag að öðru leyti en í gegnum hina óbeinu viðmiðun.
    Það er mat þeirra sem reynt hafa að botna í fjármagnsmarkaðnum að hvert prósentustig í hækkun raunvaxta þýði 1.500 millj. kr. í útgjöldum fyrir atvinnulífið og samkvæmt mínum lauslegu útreikningum frá sl. vori gætu það verið um 700--1.000 millj. kr. fyrir heimilin. Þetta segir manni að þeir hlutir sem hér hafa gerst síðan í maí í vor hafa fært til fjármuni í þjóðfélaginu frá skuldsettu atvinnulífi og skuldsettum heimilum yfir til fjármagnseigendanna, í skattfrjálsum tekjum 4--7 milljarða kr. hið minnsta. Hér er verið að tala um stóra hluti og miklar tilfærslur á fjármunum í þjóðfélaginu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki hversu heillum horfin hæstv. ríkisstjórn er í þessum efnum, gersamlega heillum horfin. Er þá sama hvort borið er niður gagnvart vaxtamálum eða öðru sem snýr t.d. að því að greiða fyrir kjarasamningum og skynsamlegri lendingu að öðru leyti í efnahags-, atvinnu- og kjaramálum.
    Herra forseti. Það mætti margt segja um þessa vexti og satt best að segja er það þannig að þegar farið er að skoða þessa hluti og stöðuna eins og hún raunverulega er úti á markaðnum í þessum efnum er maður harla sleginn. Ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir því fyrr en ég fór að fara ofan í þessar töflur um vexti bankakerfisins frá 11. desember að það væru til í 2--3% verðbólgu nafnvextir sem liggja á bilinu 18--19% af almennum lánum, venjulegum lánum. Þá er ég ekki að tala um neina refsivexti sem eru auðvitað enn hærri. Fjöldinn allur af fyrirtækjum og einstaklingum er á yfirdráttar- eða refsivöxtum sem eru mun hærri en þetta. Hér er bara um skilmála á almennum pappírum lána að ræða sem fjölmargir eru neyddir til að taka af þeirri einföldu ástæðu að þeirra staða býður ekki upp á hagstæðari lánskjör en þetta.
    Síðan er ljóst að þegar um er að ræða innbyrðis viðskipti og kaup skuldabréfa af öðrum aðilum bætast ofan á þetta afföll o.s.frv. og vaxtatölurnar fara upp í t.d. 19--20%. Hæst sé ég að ígildi nafnvaxta er orðið 20,4% þegar Landsbankinn er að kaupa skuldabréf af öðrum en þeim sem hann á viðskiptin við, þ.e. bréf gefin út af öðrum. Þá eru raunvextirnir komnir yfir 18% á þeim pappírum. Þetta eru því miður viðskipti sem eru kannski hin dagsdaglegu viðskipti þeirra sem virkilega þurfa á fyrirgreiðslu og viðskiptum í bankakerfinu að halda. Það er hin dapurlega staðreynd. Satt best að segja er ekki mikil ástæða til að hafa þungar áhyggjur af kjörvaxtamönnunum, kjörvaxtaklúbbnum sem er sennilega því miður að verða harla fámennur eins og hæstv. ríkisstjórn býr að atvinnulífi og fólki á Íslandi.
    Nei, það er alveg deginum ljósara, herra forseti, og mér hefur aldrei verið það eins rækilega ljóst og núna, m.a. í viðtölum við gesti efh.- og viðskn., að ríkisstjórnin er fullkomlega stefnulaust rekald og tilvist hennar er kannski einn aðalþrándur í götu þess að aðrir aðilar í þjóðfélaginu nái saman um farsæla niðurstöðu í málum því ég er sannfærður um að það er mikill vilji fyrir hendi úti á vinnumarkaðnum að reyna við erfiðar aðstæður að finna farsæla lendingu í þessum efnum. En tilvist ríkisstjórnarinnar, stefnuleysi hennar að hluta til og fjandskapur hennar að öðru leyti við fjölmenna hópa í þjóðfélaginu og heilar atvinnugreinar torveldar mjög alla vinnu slíkra aðila. Það er þetta furðulega sambland af hægri stefnu og ,,kemur-mér-ekki-við``-afstöðu ríkisstjórnarinnar sem er einhver versti kokkteill, einhver versta blanda sem boðið hefur verið upp á um áratuga skeið að mínu mati í stjórnarstefnu í landinu. Svo bætist það við að þegar á hólminn er komið í mörgum tilvikum reynist þessi ríkisstjórn með öllu kjarklaus og hin mesta gunga, samanber þá aumingjalegu niðurstöðu sem varð gagnvart mögulegri saltsíldarsölu til Sovétríkjanna og mér skilst að verði rædd utan dagskrár síðar á fundinum í dag, en sama er, eftir stendur skömm ríkisstjórnarinnar fyrir það kjarkleysi og þann aumingjaskap sem hún þar sýndi og verður hún lengi uppi ef ekki tekst að hnekkja þessari niðurstöðu.
    Þegar til umræðu eru, herra forseti, lánsfjárlögin við 2. umr. er óhjákvæmilegt að minna á þá staðreynd að fjárlög hæstv. ríkisstjórnar sem lánsfjárlög taka mið af eru einhver þau götóttustu sem lengi hafa verið afgreidd. Það er vissulega svo að margt hefur verið umdeilanlegt í forsendum fjárlaga á undanförnum árum, enda hefur gengið svona og svona hjá hinum ýmsu ríkisstjórnum að koma því öllu saman og niðurstaðan oftar en ekki orðið sú að eitthvað hefur farið úrskeiðis og þá oftast á verri veginn. Það er helst í tíð fjmrh. Alþb., þeirra hv. þm. Ragnars Arnalds og Ólafs Ragnars, sem tekist hafi að hafa sæmilegan skikk á þessu um skeið. Sérstaklega var það í tíð þess fyrrnefnda sem varð frægur fyrir að reka ríkissjóð með miklum ágætum um árabil og er auðvitað þegar kominn á spjöld Íslandssögunnar fyrir það afrek að saxa jafnt og þétt á skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann og reka ríkissjóð með þeim hætti.
    En hitt er alveg ljóst að í fjárlagafrv., og að nokkru leyti kemur það inn í forsendur lánsfjáráætlunarinnar, eru stórfelld göt hjá hæstv. ríkisstjórn, alveg stórfelld göt. Það er að vissu leyti ljóst að það er eingöngu dagaspursmál hvenær þessi spilaborg verður meira og minna hrunin hjá hæstv. ríkisstjórn, t.d. varðandi flata niðurskurðinn. Þar er allt í upplausn og allt á flótta. Hæstv. menntmrh. er á handahlaupum í fjölmiðlunun þessa dagana og á flótta undan sínum eigin áformum um niðurskurðinn, byrjar með því að segja: Nei, það er að sjálfsögðu ekki hægt að taka þetta á vormissirinu, það er ekki hægt á miðju skólaári, við verðum að geyma þetta til haustsins. Og þá kemur í ljós að það er ekki nokkur leið að ná öllum þessum niðurskurði jafnvel þó að menn séu tilbúnir að fara út í hina ótrúlegustu hluti eins og að keyra smábörnum fram og til baka á höfuðborgarsvæðinu eins og pinklum. Þá er ekki verið að hafa áhyggjur af því þó að skipt sé um skóla og kennara, nei, nei, heldur verður þeim pakkað inn í rútur eins og bögglum og keyrt fram og til baka. Og fleira af því tagi er jafnvel til umræðu. Eftir sem áður er orðið ljóst í þessu tilviki að áform ríkisstjórnarinnar munu ekki ná fram að ganga og það er gat, hæstv. fjmrh. Það er von að hæstv. fjmrh. sé órór og vilji fara að ljúka afgreiðslu lánsfjárlaga því að hann veit að með hverjum deginum sem líður hrynur meira af þessari spilaborg ríkisstórnarinnar.
    Það er einn kostulegur liðurinn í fjárlagafrv. sem á að færa á annan milljarð kr. í tekjur til ríkissjóðs á næsta ári, þ.e. þessu ári, og það er sala ríkisfyrirtækja. Í merkri ræðu sem hæstv. forsrh. flutti fyrir bandormsfrv. í desember, hvað sagði hann þá? Hæstv. forsrh. sagði: ,,Í byrjun næsta árs verður Búnaðarbankanum breytt í hlutafélag og hann seldur.`` Nú er þegar komin byrjun næsta árs, þó nokkur byrjun á þessu ári, og ég veit ekki til þess að Búnaðarbankanum hafi verið breytt í hlutafélag enn þá og þaðan af síður að hann hafi verið seldur og enn síður á hálfvirði eins og er hugsun hæstv. fjmrh. Þannig er þarna sömuleiðis á ferðinni stórt gat hjá hæstv. ríkisstjórn fyrir nú utan þá gamansemi að vera með þær hugleiðingar að selja ríkisfyrirtæki fyrir milljarða kr. í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin sjálf hefur t.d. eyðilagt hlutabréfamarkaðinn í landinu samkvæmt yfirlýsingum færustu sérfræðinga og hafa þeir þó sennilega ekki af hugsjónaástæðum mikil tilefni til að gagnrýna Sjálfstfl. En það er engu að síður svo að þessir spekingar á verðbréfamarkaði og hlutabréfamarkaði hafa ósköp einfaldlega viðurkennt að framganga ríkisstjórnarinnar hafi verið skemmdarverk gagnvart þessum ræfli, hlutabréfamarkaðnum, sem enn er á barnsskónum. Og er þá líklegt að það gangi bara si svona í byrjun þessa árs þegar ríkisstjórninni þóknast að henda ríkisfyrirtækjum á markaðinn og fá fyrir þau milljarða kr.? Auðvitað er þetta kjaftæði. --- Afsakið forseti, ég leyfi mér að nota venjulega íslensku. --- Auðvitað er þetta rugl og mun ekki ganga eftir þannig að þarna er gat, hæstv. fjmrh. Og eigum við að sulla saman lánsfjáraætluninni vitandi það og fáandi um það nýjar upplýsingar dag frá degi að það eru sífellt fleiri og fleiri göt að bætast í þetta sigti hæstv. ríkisstjórnar sem fjárlögin og lánsfjáráætlunin eru?
    Ég kemst ekki hjá því, herra forseti, að nefna lítillega í tengslum við umræður um ríkisfjármálin og sparnaðaráformin, sem ég hef hér lítillega gert að umtalsefni, tilsjónarlögregluna nýju hjá hæstv. ríkisstjórn af því að hér get ég átt orðastað við hæstv. fjmrh. sem að sjálfsögðu er sá maður sem eðlilegt er að snúa sér til fyrst og fremst í umræðum um það kostulega ákvæði þó svo að það vilji þannig til að bandormsfrv. það sem hýsir ákvæðin, ef af verður, sé flutt af hæstv. forsrh. En það er hæstv. fjmrh. sem fer með ríkisfjármálin og á að reyna að hafa bönd á því að útgjöldin séu þar innan settra marka.
    Sú niðurstaða sem hæstv. ríkisstjórn slampaðist á þar er náttúrlega með slíkum endemum eins og það ákvæði var upphaflega fram sett í breytingartillöguformi í bréfi frá hæstv. forsrh. að morgni 7. janúar sl. að ég hygg að annað eins sé fáheyrt. Það kom síðan fram á fundum efh.- og viðskn. að það hefur ekkert minnsta samráð verið haft við Ríkisendurskoðun um þetta efni frekar en yfirleitt samráð við nokkurn mann. Nei, nei. Vararíkisendurskoðandi kom á fund okkar í gærmorgun og hafði aldrei verið spurður álits á þessu ákvæði. Það er ekki vegna þess að Ríkisendurskoðun hafi talið það skynsamlega eða nærtæka ráðstöfun sem þetta ákvæði er flutt. Nei, þeim datt þetta í hug einhvers staðar uppi í fjmrn., að sögn í einhverjum sparnaðar- og niðurskurðarhópi sem er aðallega mannaður aðstoðarmönnum ráðherranna, og má svo sem sama vera hvaðan þetta er komið.
    En eins og þetta ákvæði er úr garði gert fullyrði ég að það er einhver mesti bastarður sem sést hefur í tillögum um breytingu á stjórnsýslunni í landinu og ber þá margt til, fyrir það fyrsta hvernig það er fram sett. Það er sett fram í frv. um efnahagsráðstafanir en ekki á þeim stað sem það ætti þá að vera, í ákvæðum stjórnsýslulaga, í það samhengi sem önnur stjórnsýsla er sett í landinu og væri þar í fyrsta lagi mikill munur á. En mestu skiptir þó að þarna er á skjön við allt annað og þvert ofan í öll önnur lagafyrirmæli í landinu sett inn ákvæði um ákvarðanatöku og vald þessara tilsjónarmanna sem eru nú skammstafaðir eða styttir í daglegri umræðu úti í þjóðfélaginu núna og er víst ekki við hæfi að fara með í ræðustóli á hinu virðulega Alþingi en allir vita við hvað er átt. ( Fjmrh.: Þú skalt bara segja það.) Hæstv. fjmrh. er eitthvað órór, herra forseti. Ég bendi á að það er hægt að ná í róandi ef þetta kemur til með að fara úr böndunum hjá hæstv. fjmrh. og bendi forseta á að það er oft hægt að leysa ýmis mál með þeim hætti þó að það sé að vísu farið að kosta mikla peninga.
    En þetta er nú svona, þetta ákvæði, herra forseti, að ég fullyrði að það er leitun að annarri eins hugmyndaauðgi og þeirri að láta sér detta í hug að setja með sérstöku lagaákvæði ákvarðanatöku og vald í hendur einhverra tilsjónarmanna sem koma utan úr bæ, banka upp á dyrnar hjá einstökum stofnunum og fyrirtækjum hins opinbera, víkja til hliðar ráðnum eða kosnum forstöðumönnum og ábyrgðarmönnum viðkomandi starfsemi án þess að nokkuð sé kveðið á um hvernig ábyrgð dreifist þá, hver ber ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis eftir að hinir nýju tilsjónarmenn eru komnir inn á stofnunina o.s.frv. Hvernig kemur þetta við sérlög sem mæla fyrir um verksvið viðkomandi forstöðumanna eða kjörinna stjórna eins og getur átt við í fjölmörgum tilvikum? Dæmi: Ríkisspítalar, Síldarverksmiðjur ríkisins eða eitthvað þvíumlíkt. Hvernig kemur þetta við starfslýsingu og ráðningarsamninga viðkomandi opinberra starfsmanna? Hefur það verið athugað? Svarið er nei. Enginn hefur skoðað það. Væri ekki með þessu verið að brjóta jafnvel samningsbundinn rétt ráðinna starfsmanna ríkisins á grundvelli tiltekinnar starfslýsingar og ráðningarsamnings? Fjölmörg álitamál af þessu tagi, en þó síðast en ekki síst skörun við lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, hljóta að koma upp og það ótrúlega er upplýst að hæstv. forsrh. hendir þessu ákvæði fram í bréfi til efh.- og viðskn. 7. janúar sl. án þess að litið hafi verið á nokkur lögfræðileg álitamál í þessum efnum. A.m.k. hefur lítið farið fyrir gögnum til nefndarinnar fyrr en um þau var beðið í þessu sambandi. Og þegar aðstoðarmenn ráðherranna komu á fund nefndarinnar til að útskýra hugsunina á bak við þetta ákvæði, ef einhver væri, og þeir voru spurðir um lagatilvitnanir í þessum efnum stóðu þeir á gati og urðu að viðurkenna að þeir gætu ekki númerað upp eina einustu lagagrein í lagasafninu til þess að styðjast við hliðstæður eða fordæmi í þessum efnum. Hv. formaður efh.- og viðskn. greip til þess í þeim þrengingum sem stjórnarliðar voru í þessu máli að fara í fjölmiðla og fullyrða að í frv. til laga um Stjórnarráð Íslands, sem lagt var fram af fyrrv. forsrh. til kynningar á Alþingi vordagana 1990, væri um hliðstæðu að ræða. Þetta er rangt sem augljóslega sést ef texti þessara frv. er borinn saman. Þar er eingöngu um að ræða eftirlitsmöguleika viðkomandi ráðherra sem reyndar eru þegar fyrir hendi og það er eingöngu unnt að beita þeim að undangengnum þeim lögformlegu aðgerðum sem lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna kveða á um, þ.e. að því undangengnu að menn hafi ekki brugðist við hafandi fengið ábendingar með þeim hætti sem þar er gert ráð fyrir. Þess vegna er hér um ósambærilega hluti að ræða, auk þess sem þarna var á ferðinni ákvæði sem átti að koma inn í stjórnarráðslög og reyndar var það svo, svo að öllu sé til haga haldið, og veit hv. formaður efh.- og viðskn. þetta þá vonandi í eitt skipti fyrir öll: Þetta frv. var lagt fram til kynningar óbreytt eins og nefnd hafði gengið frá því án þess að þáverandi stjórnarflokkar tækju afstöðu til þess. Reyndar lá fyrir að fjölmargar athugasemdir voru gerðar við frv. bæði af flokkunum, af til að mynda öllum ráðuneytisstjórum og fleiri aðilum. Þá hef ég gert þannig grein fyrir þessu, herra forseti, að ég vona að frekari misskilningur verði ekki uppi í því efni.
    Það væri, herra forseti, að lokum ákaflega gaman að taka sér einhvern tíma tíma í þetta plagg, þessa Þorláksmessuskýrslu hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar um fortíðarvandann, þetta merka rit sem kom út 23. desember anno domini 1991, fortíðarvandaskýrslan í fölblárri kápu. Eru það sennilega þau áhrif sem Alþfl. hefur í málinu að liturinn er fölblár.
    Það sem vekur fyrst og fremst athygli mína er sú kostulega verklýsing sem þessi fortíðarvandanefnd hefur fengið. Ég leyfi mér að spyrja t.d. hæstv. fjmrh. sem eðlilegt væri að væri að grúska í hvaða skuldbindingar hafa lagst á ríkissjóð á undanförnum árum ef menn eru að velta því fyrir sér: Telur hæstv. fjmrh. þau fyrirmæli sem fortíðarvandanefndin fékk í erindisbréfi sínu vel til þess fallin að fá þá hlutlægu

úttekt á þessum málum sem nauðsynleg væri? Nú er ég ekki að saka þessa ágætu menn um að hafa í sjálfu sér unnið óheiðarlega á nokkurn hátt, en ég held að það sé óhjákvæmilegt að benda á það, úr því að verið er hér að ræða ríkisfjármál og stöðu m.a. sjóðanna sem um er fjallað í lánsfjáráætlun, að erindisbréf hæstv. forsrh. til nefndarinnar er jafnsérkennilegt og raun ber vitni. Það segir í 1. lið að hlutverk nefndarinnar skuli vera að afla upplýsinga um þann fjárhagsvanda sem hingað til hefur ekki verið gerð grein fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Auðvitað er þetta rangt. Þetta er í fyrsta lagi rangt vegna þess að við afgreiðslu fjárlaga undanfarin ár hefur verið gerð grein fyrir heilmiklu af því sem hér er verið að tala um. Í fylgiskjölum með fjárlagafrv. a.m.k. undanfarin ár hafa fylgt upplýsingar um skuldbindingar byggingarsjóðanna svo að dæmi sé tekið. Það hefur verið rætt um fjárhagsvanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar o.fl. Þarna er fyrsta rangfærslan en það setur hlutina í ákveðið samhengi. Það er verið að reyna að segja með erindisbréfi: Grafið upp það sem var verið að leyna. Komiði nú upp um strákana.
    Síðan segir að það sé nauðsynlegt að nefndin geri tillögur um leiðir til að einangra þennan fortíðarvanda, einangra hann, þannig að með skýrum hætti megi draga markalínu milli þess sem hefur viðgengist og þess sem er fyrirhugað. Og í þriðja lagi að afla upplýsinga um orsakir þess að framangreindur vandi náði að safnast upp án þess að á honum væri tekið.
    Sem sagt, erindisbréf nefndarinnar er fullt af fullyrðingum og í raun og veru rangfærslum af þessu tagi. Það er bersýnilegt að það er verið að setja hér á fót nefnd til að reyna að búa til sakaregistur fyrir allar fyrri ríkisstjórnir í landinu. Þarna er þetta plagg og þetta bréf svona gegnsýrt af þessum hugsunarhætti hæstv. núv. forsrh. sem er á því stigi að maður veit ekki hvaða lýsingarorð maður á að nota um hann, en hann kemur upp um sig aftur og aftur og aftur og aftur og m.a. með þessum hætti. Og er það þá furða þó að starfsmaður nefndarinnar, Guðmundur Árnason, sé ekki hagfræðingur, nei, heldur stjórnmálafræðingur að mennt. Það er fullkomlega rökrétt að þessi nefnd skyldi ekki ráða sér mann sem hefur vit á fjármálum í þeim skilningi að vera hagfræði- eða viðskiptafræðimenntaður, endurskoðandi eða eitthvað af því taginu. Ónei. Það var fullkomlega rökrétt að ráða einmitt stjórnmálafræðing því að þetta er pólitísk nefndarskipun, pólitískt erindisbréf, sakfellingarverklýsing sem þessi nefnd fær. Og ég hefði gaman af því að heyra eitthvað frá hæstv. fjmrh. um það hvort hann sé mjög stoltur af þessu erindisbréfi nefndarinnar og telji að það hafi verið líklegt til að greiða götu hlutlægs mats á þessum málum því að ég á ekki von á að hæstv. forsrh. hinn óskeikuli hafi mikið að athuga við þetta orðalag hjá sjálfum sér.
    Herra forseti. Ég veit ekki hvað maður á að taka mikið fleira undir við þennan hluta umræðnanna. Satt best að segja er það svo að manni finnst naumast taka því að fara efnislega ofan í hina einstöku þætti. Þeir eru í sjálfu sér flestir smámunir borið saman við þá dapurlegu heildarmynd sem hér er á ferðinni og þá niðurstöðu af þessu lánsfjárlagafrv. og fjárlögum og stefnu ríkisstjórnarinnar sem blasir við og er auðvitað fullkomin óvissa og upplausn í efnahagsmálum, vaxtamálum og peningamálum þjóðarinnar sem leiðir síðan af sjálfu að veldur óviðunandi ástandi fyrir þá aðila vinnumarkaðarins og fleiri sem þyrftu að vera í færum um að gera kjarasamninga og leggja þannig grundvöll að einhverri kjölfestu mála í framtíðinni.
    Það er þó eitt lítið atriði sem ég kemst ekki hjá að nefna og það varðar lið sem mikið hefur verið til umræðu á undanförnum árum og m.a. hæstv. núv. landbrh. og samgrh. hefur oft talað hátt um hér hinum megin við vegginn í efri deild sálugu meðan hún var og hét og það eru lánafyrirgreiðslur til skipaiðnaðarins á þessu nýbyrjaða ári. Ég man eftir býsna miklum hávaða í efri deild sálugu út af því þegar hæstv. landbrh. og samgrh. taldi að ekki væri nógu vel búið að þessari lánafyrirgreiðslu til skipasmíðaiðnaðarins. En satt best að segja varð ákaflega veiklulega frá þeim hlutum gengið í afgreiðslu meiri hlutans í þessum efnum. Það var ósköp einfaldlega þannig að á allra síðustu stundu var brugðist við aðsendum erindum um þetta þar sem óskað var eftir því að sambærilegar heimildir yrðu til lánafyrirgreiðslu til skipasmíðaiðnaðarins og verið hafa undanfarin ár --- velkominn hæstv. umhvrh. --- en það var gert með því að kalla á síðustu stundu fyrir forsvarsmenn skipasmíðaiðnaðarins og Byggðastofnunar og það var upplýst að Byggðastofnun hefði ákaflega lítið svigrúm til að leggja fé í þetta. Þó gæti það gengið svona upp undir 50 millj. kr. en ekki meir að mati forstöðumanns Byggðastofnunar. Það var eftir sem áður upplýst að ef eitthvað að ráði yrði úr viðgerðarverkefnum og endurbyggingarverkefnum í innlendum skipasmíðum hér á þessu ári gæti fjárþörfin miðað við fyrra ár farið upp í tölur af stærðinni 60--75 millj. kr. Þarna er vísað, samanber síðan afgreiðslu meiri hluta nefndarinnar, á ákaflega veikar forsendur í þessu máli. Og ég átel að menn skyldu ekki treysta sér til þess, eins og m.a. við í minni hlutanum buðum upp á, að hækka þá lántökuheimildir Byggðastofnunar um eins og 50 millj. þannig að öruggt væri að hún gæti mætt þessu verkefni með sómasamlegum hætti.
    Herra forseti. Ég ætla svo að lokum að greina frá lítils háttar samantekt sem ég hef hér gert og er í ellefu tölusettum liðum m.a. til þess að þeim mönnum innan ríkisstjórnarinnar sem eiga ákaflega erfitt með að hugsa rökrétt nema geta tölusett hugsun sína í fyrsta, öðru og þriðja lagi og þá gjarnan talið á fingrum sér mætti verða þetta að nokkru liði eins og ég set þetta fram. Þetta er listi yfir helstu fórnarlömb ráðstafana ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki bestukaupalisti, þetta er ekki einhver velvildarlisti ríkisstjórnarinnar, því miður, heldur er þetta akkúrat öfugt, listi yfir þá aðila í þjóðfélaginu, einstaklinga, hópa, samtök og aðila sem ég tel að verði fyrir þyngstum búsifjum í þessum efnum. Ég hef gert svolítið af því að reyna að taka saman hvernig þessir hlutir í heild sinni koma við hina einstöku hópa, svo sem eins og

sjávarútveginn eða sveitarfélögin í landinu. Það skortir að mínu mati stórlega á upplýsingar í þessum efnum, að unnin sé samantekt um útkomu hinna einstöku aðila í þessum ráðstöfunum ríkisstjórnarnnar, t.d. sjúklinga af því að ég sé hina heilbrigðu ásjónu hæstv. heilbrrh. koma í salinn. Það vantar t.d. alveg að þeir sem eiga að gæta hagsmuna sjúklinga í þjóðfélaginu, sem við héldum þangað til á sl. ári að væri heilbrrn. en síðan hefur eitthvað allt annað komið í ljós, taki sig til og geri úttekt á því hvernig þessi hópur í heild sinni verður fyrir barðinu á þessum ráðstöfunum. Ég óskaði t.d. eftir því í gær að félmrn. gerði svona úttekt á útkomu sveitarfélaganna í fjárlögum og ráðstöfunum ríkisfjármála. Það barst í morgun bráðabirgðaúttekt á því hvernig sveitarfélögin koma út úr bandormsfrv. einu saman.
    Ég ætla þá að fara yfir þetta og fer fljótt yfir sögu því að mér skilst að ætlunin sé að taka fyrir annað mál innan fárra mínútna.
    1. Sjávarútvegurinn. Það hefur verið upplýst í umræðum um fjárlög, lánsfjárlög og ríkisfjármál að nýjar álögur á sjávarútveginn í landinu eru 800--1.100 millj. kr. Þessu hefur ekki verið mótmælt.
    2. Það hefur verið upplýst að nýjar álögur á sveitarfélögin, einhliða álögur, eru 700 til rúmlega 1.000 millj. kr. og er þá vægt reiknað. Samkvæmt mati félmrn. eru áhrifin af bandormsfrv. einu á milli 600--700 millj. kr. til íþyngingar fyrir sveitarfélögin og eru þá lögð saman áhrifin af lögguskattinum, áhrifin af því að skylda sveitarfélögin til að leggja fram 3,5% af kostnaðarverði hverrar einustu félagslegrar íbúðar í sveitarfélaginu og fleira þar fram eftir götunum.
    3. Ég nefni alla launamenn í landinu. Samkvæmt upplýsingum Alþýðusambands Íslands er kjaraskerðing launamanna um 2% sem leiðir eingöngu af samþykkt fjárlaganna og ráðstafana í ríkisfjármálum, um 1% vegna skattahækkana og um 1% vegna gjaldskrárhækkana og þjónustugjalda.
    4. Kem ég þá að sérstökum hópum eða aðilum í þessu sambandi sem eru á þessu syndaregistri, afrekaskrá hæstv. ríkisstjórnar: Barnafjölskyldurnar í landinu. Þar er um 500 millj. kr. skerðingu að ræða á hinum tekjutengda hluta barnabótanna og var það afgreitt rétt fyrir jólaleyfi.
    5. Ég nefni námsmenn. Í fimmta sæti á þessum lista hef ég námsmenn. Það liggur fyrir að í fyrsta lagi hafa verið tekin upp skólagjöld á háskólastigi sem nemendur þar verða að borga eða stuðningsmenn þeirra og í öðru lagi verða námslán stórskert og hafa reyndar þegar verið til þessa hóps þannig að námsmenn koma þarna í fimmta sæti.
    6. Aldraðir. Þar er fyrst og fyrirferðarmest skerðing grunnlífeyris sem verið er að ræða þessa dagana í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum og reyndar koma fjölmargar aðrar aðgerðir hæstv ríkisstjórnar einnig sérstaklega við gamalt fólk. (Forseti hringir.) --- Ég er rétt að ljúka máli mínu, forseti. Ef ég fengi eins og 2--3 mínútur í viðbót mundi það duga. ( Forseti: Eins og hv. þm. veit á að hefjast utandagskrárumræða, en ef þingmaðurinn á stutt eftir að ræðunni munum við ljúka umræðunni.) Ég þakka herra forseta fyrir það. Það er nóg um að ræður séu slitnar í sundur, jafnvel heil áramót líði inni í miðjum ræðum manna.
    7. Ég var kominn að því að nefna þá sem eru í 7. sæti á þessum lista. Ég tek fram að hér er ekki endilega um áherslu- eða mikilvægisröð að ræða. Það er þessi öfugi vinsældalisti ríkisstjórnarinnar, topp tíu, ef svo má að orði komast, hjá ríkisstjórninni. Í 7. sæti er ég með sjúklinga og aðra þá viðskiptamenn heilbrigðisþjónustunnar í landinu sem nú taka á sig aukinn lyfjakostnað, greiðslur vegna þjónustu svo nemur augljóslega hundruðum millj. kr. Sjöunda sætið fellur sem sagt í skaut sjúklinga og annarra viðskiptamanna heilbrigðisþjónustunnar.
    8. Í 8. sæti er ég með sjómannastéttina í landinu sem hefur orðið fyrir margföldum áföllum, flestum af völdum ríkisstjórnarinnar. Til viðbótar þeim aflasamdrætti sem aðstæður skapa kemur þar skertur sjómannafrádráttur og nú að taka á af sjómönnum réttinn til þess að hefja töku lífeyris við 60 ára aldur. Í reynd verður hann afnuminn með ákvæðum ráðstafana ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum þannig að 8. sætið fellur sjómönnum í skaut.
    9. Í 9. sæti set ég opinbera starfsmenn. Þar eru á ferðinni réttindasvipting, uppsagnir, tilsjónarlögreglan er auðvitað sérstaklega sett til höfuðs opinberum starfsmönnum, sérsveitir ríkisstjórnarinnar, stakkarnir nýju eru auðvitað sérstaklega settir til höfuðs opinberum starfsmönnum og þeim sem fara með forsjá og bera ábyrgð. Ég nefni hinn flata niðurskurð og ég nefni t.d. hluti eins og hækkun á aukatekjum ríkissjóðs sem bitnar sérstaklega á ýmsum hópum opinberra starfsmanna.
    10. sætið og ekki endilega það síðasta skipa ég börnum landsins. Þar er á ferðinni hópur sem er að fá á sig stórfelld áföll þessa dagana fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar. Það er verri skóli og það er lakari aðbúnaður að þeim á ýmsan hátt þannig að 10. sætið skipa börn landsins.
    Síðan leiðir það af sjálfu að fjölmargir af þessum aðilum og auk margra annarra sem þarna mætti því miður bæta við verða fyrir mörgum af þessum hlutum. T.d. er það þannig að barnmargir sjómenn fá þarna verri hlut en þeir sjómenn sem ekki hafa fyrir barnafjölskyldum að sjá og við getum áfram haldið í öðru lagi með sjómannafjölskyldur sem eiga börn þar sem um veikindi er að ræða. Það leggst þá á þær fjölskyldur með þreföldum hætti. Og við gætum haldið áfram og sagt í þriðja lagi: Sjómannafjölskylda, barnmörg, þar sem hvort tveggja er við að glíma veikindi annars vegar og hins vegar að eitt til tvö elstu börnin sæki háskóla og fái skert námslán og skólagjöld o.s.frv. Þannig er augljóst mál að ýmsir hópar geta þarna orðið fyrir barðinu á þessum árásum ríkisstjórnarinnar með margföldum hætti og er ástæða til að ætla að það sé í fjölmörgum tilvikum.

    En að lokum, herra forseti, og er ég nú alveg að ljúka máli mínu eins og ég lofaði. Í 11. sætinu, því þetta er svolítið óvenjulegur listi að þessu leyti til að hann er ekki með tíu sæti heldur ellefu, eru þeir sem ekki eru á listanum. Kannski er það þegar upp er staðið athyglisverðast af öllu hverjir eru ekki á listanum. Og hverjir eru það? Það eru ekki hátekjumenn, a.m.k. ekki ef þeir eiga ekki börn og það er ekki stóreignafólk. Í engum af þessum ráðstöfunum, sem eru fjölmargar og á dreif út um fjárlagafrv., ráðstafanir í ríkisfjármálum og fleiri sérmál sem tengjast afgreiðslu þessa pakka, í engu tilviki er hátekjufólk á ferðinni. Og í engu tilviki er hróflað við stóreignamönnum, ekki í einu einasta tilviki þó að með margvíslegum hætti og oft aftur og aftur sé ráðist að sjómönnum, öldruðum, sjúklingum og öðrum slíkum. En markhópurinn hátekjufólk og markhópurinn stóreignamenn er ekki til þarna, finnst ekki og þess vegna kemur 11. sætið til þeirra á þessum lista mínum sem ekki eru á honum, þ.e. hátekjumönnum og stóreignafólki. Þar eru bandamenn ríkisstjórnarinnar, þar eru vinir hennar og þeirra velgerðarmaður er hún auðvitað þessi ósvikna afturhalds hægri stjórn sem formaður þingflokks Alþfl. er svona hreykinn af að styðja.