Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 15:35:00 (2690)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) ( andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins örstutt um lítinn þátt úr langri ræðu síðasta hv. ræðumanns.
    Seðlabankinn hefur með bréfi sem ég las í gær lýst því yfir að ekki hafi verið um neina verðbólguspá að ræða, en hv. ræðumaður endurtók a.m.k. tví- eða þrívegis að um verðbólguspá Seðlabankans hefði verið að ræða. Það er ekki rétt samkvæmt því bréfi sem ég hef undir höndum og hef þegar lesið í þinginu.
    Hv. ræðumaður sagði líka að það væri biblía fyrir hv. alþm. að lesa grein úr Hagtölum mánaðarins, desembermánuði, um vaxtaþróun 1991. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að lesa upphaf greinarinnar. Hún er svohljóðandi:
    ,,Á árinu 1991 hefur peningalegur sparnaður dregist saman og lánsfjáreftirspurn aukist. Þessar aðstæður hlutu að valda hækkun vaxta. Framan af árinu héldu ríkissjóður og innlánsstofnanir þó að sér höndum með vaxtabreytingar þrátt fyrir vaxandi verðbólgu. Það leiddi til þess að raunvextir óverðtryggðra inn- og útlána lækkuðu verulega. Fjáröflun ríkissjóðs fór úr skorðum og illa horfði um afkomu innlánsstofnana. Á verðbréfamarkaðnum urðu hins vegar raunvaxtahækkanir á tímabilinu febrúar til maí, t.d. í viðskiptum með húsbréf. Síðustu vikur þess tímabils var ávöxtun slíkra bréfa hærri en meðalvextir verðtryggðra bankaútlána.``
    Svo er þessu lýst og sagt að húsbréfaávöxtunarkrafan hefði farið upp í 8,4 í maí og eins með spariskírteini upp í 8,65. Þetta er órækasti vitnisburðurinn um hvert stefndi í tíð síðustu ríkisstjórnar.
    Síðan segir Þjóðviljinn, það er að síðustu forseti sem mig langar til að minnast á það, í dag frá umræðum sem hér urðu í gær þegar ég gat um vaxtalækkun á spariskírteinum, að það hafi ég gert undir fyrirsögninni ,,Engar vaxtalækkanir í nánd``. Mér fannst ræða hv. síðasta ræðumanns vera í stíl við þennan fréttaflutning blaðsins sem styður stefnu hv. síðasta ræðumanns.