Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 15:43:00 (2695)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Mér þykir leitt hvernig ráðherrar Sjálfstfl. tefja að sú umræða sem tímasett hafði verið komist á dagskrá og það er algerlega tilgangslaust hjá þeim því að ekki bæta þeir málstað sinn með því sem þeir hafa verið hér að flytja.
    Það er þannig, herra forseti, að einhvern tíma í vor eða sumar eða e.t.v. undir haust munu eigendur allra skipa á Íslandi fá bréf frá hæstv. sjútvrh. þar sem hann býður þeim að kaupa hluta af veiðiheimildunum sem þeir hafa haft undanfarið og senda sér ávísun og samtals verður nafnverð þessara ávísana 525 millj. kr. Svona bréf hafa útgerðarmenn í landinu aldrei fengið áður. Þeir hafa aldrei þurft að borga fyrir þessar veiðiheimildir. Þeir hafa aldrei þurft að greiða neitt fyrir þær. Það sem nýtt er í málinu og hæstv. sjútvrh. veit er að í fyrsta sinn mun rekstur þeirrar þjónustustofnunar sjávarútvegsins sem hér á í hlut, Hafrannsóknastofnunar, ekki greiðast úr sameiginlegum sjóði landsmanna heldur verður byrðunum af þeim rekstri velt yfir á sjávarútveginn og allir eigendur skipa í landinu þurfa nú næsta haust að senda hæstv. sjútvrh. ávísun til að borga þann rekstur. Það hafa þeir ekki þurft undanfarin ár. Það er held ég skýrasta aðferðin til að skýra það fyrir hæstv. sjútvrh., sem virðist eiga ákaflega erfitt með að skilja þetta, að hér er um nýjar álögur á sjávarútveginn að ræða. Karlarnir munu skilja það í haust. Karlarnir munu átta sig á því þó það verði ekki fyrr en í sumar þegar bréfin koma til þeirra þar sem þeim verður boðið að kaupa kvótann. Og þá verður fjör, ég spái því og hef áður spáð.
    Síðan hafði hæstv. sjútvrh. ekki einu sinni fyrir því að fara rétt með aðrar álögur því þær eru meiri en tvöföldun veiðieftirlitsgjaldsins. Það hefur meira að segja sjútvrn., hans eigin ráðuneyti, viðurkennt í bréfi til mín því að til viðbótar tvöföldun veiðieftirlitsgjalds er um að ræða hækkun á þjónustugjöldum, bæði hjá Ríkismati sjávarafurða og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, og þar er um að ræða greiðslur í hinn nýja iðgjaldasjóð ábyrgðar vegna launa í gjaldþrotum ef hann verður settur á fót. Fleira og fleira mætti telja sem telur sig samanlagt upp á þessar 800--1.000 millj. kr. sem ég hef rækilega sannað að eru í vændum í formi nýrra álagna á sjávarútveginn.