Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 15:47:00 (2697)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Mér dettur helst í hug að hæstv. sjútvrh. hafi einhvern tíma verið í Heimdalli. Þannig er málflutningur hans.
    Hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson verður fyrsti sjútvrh. á Íslandi sem skrifar undir bréf þar sem útgerðarmönnum verður boðið að borga 525 millj. kr. fyrir aflaheimildir á Íslandsmiðum.
    Í öðru lagi er það þannig að hið myndarlega framlag hæstv. sjútvrh. til hafrannsókna á Íslandi úr ríkissjóði er um 70 millj. kr. í ár. Það var 500 millj. kr. á síðustu fjárlögum. Það segir það sem segja þarf um hvað er að gerast hér. Það er verið að færa rekstur Hafrannsóknastofnunar í formi nýrra álaga yfir á sjávarútveginn svo nemur nýjum útgjöldum fyrir sjávarútveginn í landinu fyrir þjónustu sem áður hefur verið greidd af landsmönnum öllum úr ríkissjóði svo nemur 525 millj. kr. Framlög hins opinbera til hafrannsókna dragast saman úr 1 / 2 milljarði í eitthvað á milli 60--70 millj.
    Ef þetta dugar ekki sem aðferð til að útskýra þetta fyrir hæstv. sjútvrh., þá er ég algerlega þrotinn og bið aðra hv. alþm., sem eru kannski vanir kennslu í grunnskólum eða jafnvel gagnfræðaskólum, að aðstoða mig við að reyna að útskýra þetta fyrir hæstv. sjútvrh. að lokum áður en þingið fer í leyfi þannig að hann skilji það. ( SvG: Þetta er sérkennsluverkefni.)