Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:03:00 (2702)

     Halldór Ásgrímsson :
     Herra forseti. Í lok síðustu viku óskaði ég eftir að um þetta mál yrði fjallað í efh.- og viðskn. þingsins og vænti ég þess að svo megi verða. Ég tek undir það með hæstv. viðskrh. að auðvitað er um viðkvæmt mál að ræða, en það sem er ámælisvert í þessu máli er fyrst og fremst að þann 4. des. var gerður viðskiptasamningur milli Íslands og Rússlands og síðan má segja að ríkisstjórnin og Landsbankinn hafi verið að velta þessu máli á milli sín.
    Fyrst ríkisstjórnin tók þá afstöðu að hún ætti ekki að blanda sér í málið og þetta væri eingöngu mál Landsbankans, hvers vegna tók þá ríkisstjórnin málið til efnislegrar umfjöllunar? Hvers vegna leitaði ríkisstjórnin umsagnar í málinu? Það varð til þess að aðilar málsins máttu vænta þess að hér væri um raunverulega umfjöllun ríkisstjórnarinnar að ræða og ríkisstjórnin ætlaði sér að taka afstöðu til málsins. En málið endaði hins vegar með því að ríkisstjórnin tók enga afstöðu til þess.
    Ég spyr hæstv. viðskrh. hvernig það mál stendur að ríkisstjórnin, eftir þeim upplýsingum sem ég hef, hafi ákveðið að taka þátt í neyðarráðstöfunum við Rússland sem hljóta að felast í einhvers konar matvælasendingum þangað með einum eða öðrum hætti. Ég veit ekki betur en hæstv. viðskrh. muni taka þátt í fundum vesturveldanna um það efni. Ég spyr hæstv. viðskrh. hvort hann telji að það komi til álita að veita tiltölulega litla ríkisábyrgð í þessu máli til að tryggja framtíðarhagsmuni Íslands á þessu sviði og hvort hann telji vera mikla áhættu í því, sérstaklega með tilliti til þess að mér hefur skilist að olíuviðskipti komi á móti, og hvort ekki sé hægt að tryggja að olía geti komið sem greiðsla á þessum síldarsamningi þótt síðar verði.