Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:08:00 (2704)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Herra forseti. Ég tel mikilvægt að menn átti sig á því, sem reyndar á að liggja í augum uppi, að það var engin ástæða til þess fyrir ríkisstjórnina að búast við því að svar hennar, sem viðskrh. bar bankanum, mundi leiða til þess að bankinn hætti að veita þá fyrirgreiðslu sem hann sagðist áður hafa verið tilbúinn til að gera, því í svari ríkisstjórnarinnar fólst eingöngu að bankinn ætti að huga að bankalegum sjónarmiðum og sínum hagsmunum og ef þeim væri borgið hlyti bankinn auðvitað að veita lán. Þetta felst í svari ríkisstjórnarinnar. Bankinn sagðist áður hafa verið reiðubúinn til þess að veita þetta lán og hann hlýtur við slíkar yfirlýsingar að hafa haft í huga að hagsmunir bankans væru tryggðir. Þannig var engin sérstök ástæða fyrir ríkisstjórnina að ætla að það svar sem ríkisstjórnin gaf mundi leiða til þeirrar niðurstöðu að bankinn hyrfi frá þeim ráðagerðum sem hann áður sagðist hafa haft.
    Í annan stað vek ég athygli á því að talsmenn síldarútvegsnefndar hafa sagt sem svo að þeir gerðu ráð fyrir að bankinn mundi veita einhverja fyrirgreiðslu, ekki kannski í þeim mæli sem þarna var um rætt heldur eitthvað minni. Hafi bankinn treyst sér til að veita fyrirgreiðslu í þeim mæli sem hann hafði áður tjáð sig um að hann væri reiðubúinn til að gera, þó hann skjóti sér nú á bak við ríkisstjórnina, hlýtur bankinn að vera tilbúinn til að veita þá heldur minni fyrirgreiðslu en þá stóru fyrirgreiðslu sem hann hafði áður lofað.
    Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Auðvitað hefði verið mikilvægt að þessi viðskipti hefðu getað farið fram og það var engin ástæða til að ætla annað en að bankinn mundi halda sig við sína fyrri afgreiðslu. Hann gat ekki hengt það mál um hálsinn á ríkisstjórninni.