Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:10:00 (2705)

     Jón Kristjánsson :
     Herra forseti. Aðalatriðið í þessu máli er að hætta er á að ef síldarviðskipti við Rússa falla niður þetta ár falli þau niður til frambúðar. Það er óbætanlegt tjón fyrir þennan atvinnuveg því að þessi markaður er afar þýðingarmikill. Þetta fólk hefur vanist á það í gegnum tíðina að borða íslenska síld, en við eigum harða keppinauta á þessum markaði.
    Nú eru, eins og hér hefur komið fram, ríkisstjórnin og Landsbankinn að velta þessu máli á milli sín og vísar hver frá sér. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mörg, en hins vegar vil ég geta þess að við nokkrir þingmenn Framsfl. höfum flutt brtt. við lánsfjárlög um hógværa leið í þessu máli til að taka af öll tvímæli um vilja Alþingis til þessara hluta. Það er tillaga sem kveður á um að ganga í ábyrgð fyrir 300 millj. kr. láni sem mundi nægja fyrir söltun á þessari vertíð á um 50 þús. tunnum af síld. Alþingi hefur tækifæri til að taka afstöðu til þessarar hógværu tillögu núna næstu daga og leysa þetta mál a.m.k. í bili meðan menn eru að átta sig á framhaldinu.
    Ég undrast þann vandræðaskap sem um er að ræða vegna þess að hér er um mikla framtíðarhagsmuni að ræða og ég undrast þá skammsýni sem kemur fram og þann vandræðagang sem kemur fram í svörum ráðherra í þessu efni.