Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:15:00 (2707)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
     Virðulegi forseti. Tími hinna sértæku aðgerða er liðinn, sagði hæstv. forsrh. í upphafi valdatíðar sinnar. Það er æ betur að koma í ljós hvað hann átti við. Tími skilnings á mikilvægi undirstöðuatvinnuveganna fer þverrandi sem best sést nú. Engin áhætta er tekin þó að samningar séu í húfi á sölu síldar á okkar stærsta og mikilvægasta markaði, Rússlandi. En þangað höfum við selt 70--80% allrar okkar saltsíldar um áratuga skeið.
    Í Rússlandi eru stærri markaðir fyrir saltsíld en í öllum okkar viðskiptalöndum, auk þess sem við höfum selt þeim mikið magn annarra fisktegunda, en við höfum aftur á móti keypt af þeim olíu og er svartolían einstaklega hagstæð fyrir íslenska fiskiskipaflotann hvað varðar gæði og verð. Þessi viðskipti hafa verið þjóðarbúinu mikilvæg og farsæl og það tæki verulega í hér á Íslandi ef þessi viðskipti þurrkuðust út. Þar er meiri áhætta tekin með því en tímabundnum ábyrgðum. En fyrir því er ekki nokkur einasti skilningur í hæstv. ríkisstjórn.
    Söltun síldar fer fram á haustin í flestum sjávarplássum á Austurlandi, Suðurlandi og Vesturlandi þegar daufasti tíminn er í verstöðvum, þegar lítill fiskur er, og síldin hefur skapað mikla vinnu. Nú er eftir að veiða um 40 þús. tonn af 110 þús. tonna síldarkvóta. Ef tillögur sem hér liggja fyrir frá hv. 2. þm. Austurl. o.fl. um brtt. við lánsfjárlög ná fram að ganga er möguleiki að salta þessi 40 þús. tonn, en það þarf að koma til ákvörðunar strax. En það sem er mest um vert er framtíðaröryggi viðskiptanna.
    Virðulegi forseti. Látum það ekki henda okkur að tapa mörkuðum í Rússlandi. Látum það ekki verða næsta framtíðarvanda.