Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:17:00 (2708)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, fyrir að hreyfa þessu máli og vona að það geti leitt til farsællar niðurstöðu. Ég hef eins og margir fleiri fylgst með þessu undanfarnar vikur vegna þess að miklir hagsmunir eru þarna í húfi, m.a. fyrir mitt kjördæmi, eða gætu verið það, og lengi vel voru allir málsaðilar mjög vongóðir. Síldarútvegsnefnd var vongóð vegna jákvæðra viðbragða Landsbankans o.s.frv. Þeim mun meiri vonbrigði eru svo aftur niðurstaða ríkisstjórnarinnar, að hún skuli reynast jafnneikvæð og kjarklaus og raun ber vitni, ekki treysta sér til að hafa jákvæða afstöðu til málsins fyrir sitt leyti, um annað er ekki beðið, ekki treysta sér til þess að veita þann móralska stuðning sem bankastjóri Landsbankans í einum fjölmiðli sagði að eftir hefði verið leitað. Ég tek fram að það er að mínu mati ekki óeðlilegt þó að Landsbankinn vilji vita hvar hann stendur gagnvart stjórnvöldum þegar um viðskiptasamning milli þjóðanna er að ræða annars vegar og jafnstórt mál og bankinn þar á ofan í ríkiseigu hins vegar.
    Ég held að nauðsynlegt sé að gera skýran greinarmun hér á tvennu, annars vegar því að hæstv. ríkisstjórn treysti sér til að hafa afstöðu í málinu fyrir sitt leyti og hinu að skipa bankanum fyrir verkum. Þetta tvennt þarf ekki að fara saman. Og það ámælisverðasta af öllu er að það skyldi taka hæstv. ríkisstjórn fjórar vikur að komast að því að hún hefði enga skoðun á málinu, heilar fjórar vikur til þess. Það hefðum við kannski getað sagt henni strax sem höfum fundið nafngift á stjórnarstefnuna, ,,kemur-mér-ekki-við``-stefnan, gagnvart atvinnulífinu. Hún er auðvitað hér á ferðinni enn á nýjan leik.
    Það var svo á sínum tíma þegar hin farsælu viðskipti komust á milli Íslands og Sovétríkjanna um saltsíldarsölu að þau byrjuðu einmitt með slíkum lánsviðskiptum, að mér er tjáð af mönnum sem þá sögu þekkja, upp úr stríðinu. Þegar Sovétríkin voru í kaldakoli, eins og nú má segja um sömu landsvæði, náðu Íslendingar einmitt hagstæðum tengslum og ábatasömum framtíðarviðskiptum með því að sýna þá liðlegheit og kjark og veita þeim lán til að hefja slík viðskipti. Ég tek því eindregið undir áskoranir um að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína og fagna því að þetta mál skuli koma til skoðunar í þingnefndum og bind vonir um það að ef ríkisstjórnin nái ekki áttum geri þingið það og tryggi að þessi viðskipti geti hafist a.m.k. að einhverju marki á þessum vetri.