Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:19:00 (2709)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Herra forseti. Það er beinlínis rangt, sem fram kom hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., að ríkisstjórnin hafi tekið neikvæða afstöðu í þessu máli og það er enn fremur rangt að hún hafi kosið að vera skoðunarlaus í málinu. Þvert á móti hefur hún lagt fyrir bankastjóra Landsbankans að taka ákvörðun í málinu á grundvelli þeirra laga og reglna sem um bankann gilda. Áður höfðu bankastjórarnir, eins og hæstv. forsrh. hefur vakið athygli á, lýst því yfir að þeir væru reiðubúnir að veita þetta lán. Það er þess vegna algerlega út í bláinn að halda því fram að í bréfi ríkisstjórnarinnar hafi komið fram neikvæð afstaða. Þvert á móti. Og það eru engin rök, hvorki fyrir hv. þm. né heldur fyrir bankastjóra Landsbankans, að líta svo á. Miklu fremur væri það athugunarefni fyrir bankaráð bankans að taka þau viðbrögð bankastjóranna til athugunar þegar þeir halda því fram að það lýsi neikvæðum viðbrögðum ríkisstjórnar þegar hún leggur fyrir þá að starfa eftir lögum og reglum bankans.
    Hér er hins vegar um mjög mikilvægt mál að tefla eins og hv. þm. hafa vakið athygli á. Það eru mjög miklir hagsmunir í húfi og brýnir. Það hefur aldrei staðið á ríkisstjórninni að fjalla um og taka afstöðu til þessa máls. Til hennar var hins vegar ekki beint neinu erindi um ábyrgð, hvorki frá Landsbankanum né síldarútvegsnefnd. Það liggur því einfaldlega þannig fyrir að Landsbankinn lýsti því yfir fyrir fram að hann væri reiðubúinn að veita slíkt lán. Hann biður um afstöðu ríkisstjórnar. Hún segir bankastjórunum að taka ákvörðun á grundvelli laga og reglna sem um starfsemi bankans gilda. Það er alveg út í bláinn að halda því fram að í þessu felist neikvæð afstaða.