Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:25:00 (2711)

     Árni Johnsen :
     Herra forseti. Það er mikilvægt fyrir íslenska þjóð að fá sem mest verðmæti fyrir þær afurðir sem hún hefur úr að spila. Síldin er komin og síldin sem ekki veiðist fer hjá og þess vegna er mikilvægt og tímabært að fjalla um það mál sem hér er á dagskrá svo að lausn fáist.
    Auðvitað taka stjórnendur Landsbanka Íslands sjálfir ákvörðun um lánafyrirgreiðslu í sínum banka. Ríkisstjórnin er ekki bankastjóri Landsbanka Íslands. Og það er ástæðulaust að rugla þannig saman reytum á óeðlilegan hátt eins og hér hefur komið fram í máli sumra hv. þm.
    Hér er um að ræða viðkvæmt mál, pólitískt mál vegna þess að erfiðleikarnir eru fyrst og fremst þeir að það er verið að semja við land þar sem hefur verið við lýði pólitískt spilavíti. Auðvitað hljóta íslensk stjórnvöld að kappkosta að koma á skilvirku og traustu viðskiptasambandi við Rússland og önnur Evrópulönd sem vonandi rísa sem fyrst úr rústum kommúnismans.
    Hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir sagði áðan að ríkisstjórnin vildi ekki leggja lið með litla fingri í þessu máli. Það er dýr litli fingur, 800 millj. Um það snýst ekki málið að mínu mati heldur að finna eðlilegan farveg fyrir viðskiptasambönd við Rússland og önnur Austur-Evrópulönd. Hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að unnið sé að málinu í hans ráðuneyti að því leyti sem unnt er og ég hvet til þess að það sé gert því að það er mikilvægt að nýta síldina þá hún kemur.