Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:27:00 (2712)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og þátttöku þriggja hæstv. ráðherra í henni. Ég vona sannarlega að hún leiði til þess að eitthvað verði það aðhafst í málinu að þessi hnútur verði leystur því að svo er að sjá af umræðunni og ummælum hæstv. ráðherra að það sé þeim í rauninni mjög á móti skapi að Landsbankinn hafi ekki svarað síldarútvegsnefnd jákvætt um lánafyrirgreiðslu vegna þessara viðskipta. En hvers konar sambandsleysi er það sem er á milli ríkisstjórnarinnar og þeirra sem með völdin fara í bankakerfinu í landinu, í einum ríkisbankanum, að þessi vilji skuli þá ekki koma með öðrum hætti fram en raun ber vitni og bankastjórinn vitnar um, Sverrir Hermannsson fyrrv. alþm.? Hvernig má þetta vera? Ég held að ef ríkisstjórnin ekki treystir sér til að taka upp símann og koma sínum raunverulega vilja á framfæri verði að finna einhvern til að ganga í málamiðlun í þessu. Ég var að stinga upp á því að nefndir þingsins, sem eru mjög önnum kafnar við viðskiptamál m.a., efh.- og viðskn., líti á þetta efni og reyni að brúa þetta bil. Svo held ég að utanrmn. ætti að reyna að setja sig inn í þessa miklu hagsmuni og frambúðarviðskipti í austurveg á nýjum grundvelli.
    Ég heyri að hæstv. forsrh. tekur undir að hér sé hið mikilvægasta mál á ferðinni. En eftir fjögurra vikna umhugsun sendir hæstv. viðskrh. til Landsbankans svar með neikvæðri umsögn Seðlabankans sem er eina vísbendingin sem fram kemur og ríkisstjórnin leggst ekkert á aðra sveif en Seðlabankinn gerir í sinni skýrslu um þetta efni. Það er í það álit sem bankastjórar Landsbankans hengja sig þegar þeir taka afstöðu til málsins og þeir hafa þar nokkuð til málsbóta fyrst þeir fóru að spyrja ríkisstjórnina í þessu efni.
    Ég heiti á ráðherrana að bera sig nú saman um þetta og taka á málinu eins og að því er virðist vilji þeirra stendur til. Það þýðir ekkert að vísa í einhverjar viðræður sem eiga að fara fram varðandi viðskipti næstu ára. Við erum að spyrja um aðgerðir hér og nú. Það væri áreiðanlega þakkað fyrir það að hluti af þessum viðskiptum kæmist á og færi í gang, einhver söltun hæfist og einhver viðskipti hæfust á grundvelli þessa nýja samnings. Það er um það sem verið er að biðja og síðan eiga menn að geta prófað sig áfram hvernig þetta gengur. Áhættan virðist ekki vera svo skelfileg nema í enn meira óefni fari þar austur frá sem enginn út af fyrir sig getur fullyrt um. Enn er þar þó unnið að framleiðslu og viðskiptasamningurinn kveður á um vöruskipti. Mér er sagt af sendiráði okkar austur þar að samningamenn Rússa hafi lagt sig í framkróka um að tryggja sér að þeir hefðu eitthvað að bjóða á móti í þessum viðskiptum þannig að áhættan virðist ekki vera sú sem menn eru að mála hér á vegginn. Því er að rista sig fram úr þessum vanda og reyna að taka undir þær jákvæðu vonir sem kviknuðu víða um land þegar síldarafli fór að glæðast í byrjun ársins.