Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 17:56:00 (2715)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Þó að aðalerindi mitt í þessari umræðu um lánsfjárlögin sé að mæla fyrir brtt. sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum hv. þm. við lánsfjárlögin ætla ég að fara örfáum orðum í upphafi um málið í heild, en hér er um að ræða heildarramma um lántökur ríkissjóðs á næsta ári. Þessi heildarrammi verður með engu móti slitinn úr samhengi við fjárlög og frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem liggur fyrir hv. efh.- og viðskn. og þingsaga þessara frv., sérstaklega um ráðstöfun í ríkisfjármálum eða svokallaðs bandorms, er að verða nokkuð skrautleg.
    Það má segja að saga frv. sé ein hörmungarsaga. Því var frestað fram yfir jólahlé eins og hv. þm. vita. Síðan bregður svo við að ofan í breytingar sem komu á frv. rétt fyrir jólin koma núna enn þá meiri breytingar við þessa umfjöllun sem átti aðeins að standa í 2--3 daga eftir því sem talsmenn ríkisstjórnarinnar upplýstu. Þá koma brtt. um svo viðkvæm mál að ótrúlegt er. T.d. er tekjutengingu ellilífeyris blandað inn í þetta mál og breytingum á almannatryggingalögunum. Það er satt að segja alveg ótrúlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli hugsa sér að slík mál fari í gegn á skömmum tíma. Þar að auki kemur þetta tekjutengingarmál inn á margs konar aðra löggjöf og nú er upplýst vegna vinnu í hv. heilbr.- og trn. að enn þá er vegið að sjómönnum með frv. ofan á þau átök um sjómannaafslátt sem urðu fyrir jólin. Þetta er allt með miklum ólíkindum og það er satt að segja erfitt að afgreiða frv. um lánsfjárlög fyrr en þessi heildarmynd liggur fyrir.
    Alltaf hafa verið að koma nýjar og nýjar upplýsingar í nefndum það sem af er þessu ári og ég veit ekki á þessari stundu hvaða enda það hefur. En einkenni á þessu öllu saman er það sama og var í desember við fjárlagagerðina, að það er verið að brjóta upp viðkvæma lagabálka, breyta þeim til lengri tíma og hnýta inn í bandorm um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Auðvitað verða lánsfjárlög ekki slitin úr samhengi við þessa heildarmynd.
    Ég get ekki stillt mig um að minnast á eitt efnisatriði varðandi lántökur ríkissjóðs og beina spurningum til fjmrh. um hvort það sé ætlunin að halda enn áfram á þeirri braut á næsta ári að selja húsbréf erlendis. Ég segi þetta að gefnu tilefni af því að í janúar barst skýrsla frá Jóhönnu Sigurðardóttur félmrh. um framkvæmd laga um húsbréfaviðskipti og þar er eitt af því sem starfshópurinn leggur til að húsbréf verði seld erlendis. Það var upplýst í viðtölum við fjárln. fyrir jól af ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar, sem ég hygg að Þjóðhagsstofnun sé, talsmönnum hennar, að þetta væri sú allra vitlausasta lántaka sem hugsast gæti og þetta væri vísasta leiðin ef menn vildu taka þau óhagstæðustu lán sem hugsast gætu erlendis. Beinar lántökur og þá að endurlána þær innan lands væri miklu betri leið í þessu efni. En nóg um það.
    Erindi mitt hingað upp var aðallega að mæla fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 382 við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992 og meðflm. mínir eru Halldór Ásgrímsson, Jón Helgason, Guðni Ágústsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Brtt. er þess efnis að á eftir 5. gr. komi ný grein er orðist svo sem þar segir:
    ,,Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast lán, allt að 300 millj. kr., til að greiða fyrir síldarviðskiptum við Rússland.``
    Þessi tillaga er fram komin vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í saltsíldarviðskiptum við Rússland.
    Ég get ekki annað í þessu sambandi en rifjað upp með örfáum orðum það ástand sem verið hefur í sjávarútvegi síðari hluta ársins 1991. Afli hefur verið mjög tregur á hinum hefðbundnu tegundum í bolfiskveiðum og niðurskurður fiskveiðiheimilda mikill. Ég ætla ekki að orðlengja það. Það hefur oft verið rakið hér. Þar á ofan hefur bæði loðnu- og síldarvertíð brugðist að verulegu leyti, sú hefðbundna haustvertíð sem veitt hefur mikla atvinnu og veitt hefur miklum peningum til byggðarlaga þeirra sem hafa byggt á þessum veiðum. Þetta þýðir, eins og fram hefur komið í fréttum, að atvinnuleysi hefur verið það mesta í desember sem hefur verið mörg undanfarin ár og atvinnuleysi er komið yfir 5% í einstökum landshlutum. Það eru tölur sem við höfum ekki séð í mörg ár. Þetta er sú mynd sem blasir við og það fylgir því, ég heyrði í gærkvöld í fréttum það álit starfsmanna félmrn., að janúarmánuður mundi verða enn erfiðari í þessu efni.
    Það er nú svo með síldarsöltun að hún er eitt af því sem skapar mesta atvinnu af öllu því sem hægt er að taka sér fyrir hendur í sjávarútvegi svo að ætla mætti að allt hefði allt verið reynt til að halda þessari starfsemi í gangi og nýta þá markaði sem fyrir hendi eru. Ég bendi á að þetta er aðeins ef maður horfir til skamms tíma, en kannski eru langtímamarkmiðin enn mikilvægari hvað þetta varðar. Síldarsala til Rússlands hefur legið niðri í eitt ár og ef hún liggur niðri öllu lengur vex alltaf hættan á því að við missum þennan markað. Það er staðreynd að við erum ekki einir á þessum síldarmörkuðum. Það höfum við verið rækilega minntir á. Við höfum getað selt síld m.a. til Rússlands á hærra verði en aðrir. Ef við hverfum út af þessum mörkuðum er hætta á að önnur lönd komi þar inn með ódýrari vörur og ábyrgðir því að um þessar mundir eru vestræn ríki að ganga í miklar ríkisábyrgðir vegna viðskipta við Rússland. Það þarf ekki að minna á að t.d. Kanadamenn eru miklir framleiðendur síldar.
    Síldveiði hefur glæðst eftir áramótin og það er um 40 þús. tonna veiði eftir af kvótanum. Auðvitað standa fyrirtækin sem hafa séð um vinnslu síldarinnar höllum fæti eftir þá vertíð sem yfir hefur dunið síðasta haust.
    Það vakti vonir í þessu sambandi að 12. des. sl. var undirritaður viðskiptasamningur milli ríkisstjórna Íslands og Rússlands til tveggja ára og viðskiptabókun í tengslum við þann samning. Það var utanríkisviðskiptaráðherra sem undirritaði þann samning. Hann gerir ráð fyrir gagnkvæmum viðskiptum að andvirði 80 millj. dollara á samningstímanum og samkvæmt vörulistunum sem fylgja viðskiptabókunum landanna er gert ráð fyrir að Rússar kaupi af Íslendingum saltaða síld, frystan fisk, lagmeti og ullarvörur, þar af saltsíld fyrir allt að 30 millj. dollara, en við kaupum aðallega af þeim olíuvörur, timbur og bíla.
    Ég vitna áfram, með leyfi forseta, í upplýsingabréf sem síldarútvegsnefnd gaf út 6. jan. sl. Þar segir:
    ,,Samkomulagið gerir ráð fyrir sölu á 30 þús. tonnum eða 300 þús. tunnum af léttverkaðri, hausskorinni og slógdreginni síld fyrir um 28 millj. US dollara eða um 1.600 millj. ísl. kr. Þetta magn svarar til um 40 þús. tonna af síld upp úr sjó. Þess má geta að frá því að síldveiðar hófust að nýju árið 1975 hefur sala á síld til Sovétríkjanna á einni vertíð mest numið 200 þús. tunnum. Vegna þess hversu langt var liðið á síldarvertíðina varð samkomulag um að helmingur magnsins yrði afgreiddur á tímabilinu janúar/apríl 1992 og síðari helmingurinn á tímabilinu desember 1992/mars 1993.
    Síðan segir: ,,Í viðskiptasamningi landanna er gert ráð fyrir jafnvægi í viðskiptunum. Enn fremur hafa Rússar óskað eftir því að gerður verði sérstakur bankasamningur milli íslensks banka og banka rússneska lýðveldisins í tengslum við viðskiptasamninginn.``
    Og síðan segir: ,,Einhvern tíma mun taka að ganga frá samningum um kaup á rússneskum vörum og ganga frá bankasamningi. Til að umsamin saltsíldarviðskipti geti átt sér stað á þessari vertíð hafa Rússar því óskað eftir lánafyrirgreiðslu vegna þessara upphafsviðskipta í formi láns til Vneshtorgbank, banka rússneska lýðveldisins, með svipuðu sniði og samkomulag tókst um á sl. ári milli Landsbankans og Vneshtorgbank vegna útflutnings á annarri íslenskri útflutningsafurð.`` --- Þetta munu hafa verið ullarvörur.
    Það þarf ekki að rekja að Landsbankinn bað um álit ríkisstjórnarinnar og ráð og væntanlega bakstuðning þó að því sé neitað af hæstv. ráðherrum sem hafa talað í dag í umræðum um þetta mál utan dagskrár, en Landsbankinn sendi þetta erindi til ríkisstjórnarinnar og viðskrh. Ríkisstjórnin tekur þetta erindi til efnislegrar meðferðar og sú efnislega meðferð tekur heilan mánuð og á meðan líður dýrmætur tími. Síðan fær Landsbankinn það svar frá ríkisstjórninni að Landsbankinn eigi að taka afstöðu til málsins á grundvelli bankalaga ef ég hef skilið hæstv. viðskrh. rétt í umræðunum áðan. Auðvitað er þetta ekkert svar. Þessu hefði verið hægt að svara í byrjun desember eða um það leyti sem þetta erindi barst ríkisstjórninni. Það hefði ekki þurft að fá álit Seðlabankans eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef þetta er niðurstaðan af því. Auðvitað átti ríkisstjórnin, ef hún ætlaði að gefa bankanum þetta svar, að gefa honum það strax. Það hefði þá gefist tími til að athuga málið frá öðrum hliðum.
    Það er skiljanleg sú afstaða Landsbankans að biðja um umsögn ríkisstjórnarinnar um málið. Ríkisstjórnin hefur í málflutningi sínum síðan hún tók við og ráðherrar hennar með forsrh. í broddi fylkingar yfirleitt legið í því að kenna mönnum um og velta sér upp úr ýmsum svokölluðum mistökum sem stjórnendur hafi gert í fortíðinni. Það er ekki nema von að menn vilji nú njóta visku hennar og ráða í sambandi við afdrifarík mál sem hér eru. En svörin eru þessi. Svörin eru nánast engin.
    Í Rússlandi er mikil óvissa, ekki skal ég draga fjöður yfir það. Þessu fylgir áhætta, ekki skal ég neita því. En hins vegar er það svo, eins og hér var rakið í umræðum utan dagskrár áðan, að öll vestræn ríki hafa nú miklar áhyggjur af ástandinu í Sovétríkjunum, hvort þar brestur á hungursneyð, og ef hún brestur á er áreiðanlega úti um friðinn í þessum ríkjum. Þess vegna kosta nú vestrænar þjóðir kapps um að aðstoða Rússa í þeirra þrengingum og önnur ríki austur þar sem þurfa aðstoðar við sem því miður eru öll þau ríki sem nú eru þar að myndast. Það hefur komið fram að Ísland ætlar að taka þátt í sérstakri neyðaráætlun til að aðstoða þessi ríki. Ég skil það, alvara málsins er mikil. Það er alveg ástæða til þess fyrir Ísland að taka þátt í slíkri neyðaráætlun. En ég held að það nærtækasta sem við gætum gert væri að greiða fyrir viðskiptum með þessa vinsælu matvöru og koma henni til Sovétríkjanna, taka áhættu í því efni. Auðvitað leitar Landsbankinn til ríkisstjórnarinnar í þessu efni vegna þess að sá viðskiptasamningur sem í gildi er er undirskrifaður af einum ráðherra ríkisstjórnarinnar og þess vegna er eðlilegt að leitað sé til ríkisstjórnarinnar um framkvæmd hans.
    Brtt. sem um ræðir er sú að fjmrh. fái heimild til þess fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast lán allt að 300 millj. til að greiða fyrir síldarviðskiptum. Þessa tillögu teljum við flm. raunhæfa. Við teljum að Alþingi geti tekið á málinu með þessum hætti, það geti veitt ríkisstjórninni heimild til að halda uppi þessum viðskiptum á þessari vertíð. Við flm. tillögunnar reynum að lágmarka þessa áhættu. Við flytjum tillögu um 300 millj. kr. ábyrgð í staðinn fyrir að það hafa verið allt að 800 millj. kr. til umræðu í þessu sambandi. Þessar 300 millj. kr. þýða um 50 þús. tunnur af síld sem mundu gera einkum tvennt: Þessi söltun mundi auka útflutningsverðmæti síldarinnar á þessari vertíð. Hún mundi tryggja að þessi viðskipti Rússa féllu ekki alveg niður og þráðurinn yrði ekki slitinn lengur. Þessi fyrirgreiðsla mundi verða lóð á þá vogarskál að aðstoða Rússa í þeim þrengingum sem þeir eiga í og allar þjóðir hafa miklar áhyggjur af og svo miklar áhyggjur að stjórnendur þeirra vilja setja upp sérstaka neyðaráætlun til hjálpar. Þar að auki mundi samþykkt þessarar tillögu veita atvinnu á næstu dögum og vikum af því að síldveiði er nú að glæðast og það lítur betur út með veiðina.
    En þetta má ekki dragast. Það þýðir ekki að segja eins og viðskrh.: Nú ætlar maður að skoða og athuga þessa hluti og athuga um þennan bankasamning og taka sér í það tíma. Síldin bíður ekkert eftir því. Hún er duttlungafullur fiskur, það hélt ég að menn vissu. En það er eins og hæstv. ráðherrar viti það ekki og er ekkert víst að síldin verði hæf til söltunar þegar hæstv. ráðherrar eru búnir að athuga og skoða. Ég er viss um að dr. Össur Skarphéðinsson, hv. 17. þm. Reykv. og þingflokksformaður Alþfl., veit ósköp vel um ástand síldarinnar og ég er hissa ef hann er ánægður með það að hæstv. viðskrh. sé að athuga og skoða bankasamninga meðan síldin syndir hjá. ( ÖS: Hún syndir ekki hjá.) Hún syndir ekki hjá. Ja, það er gott ef hv. 17. þm. Reykv. getur tryggt það. En hv. 3. þm. Suðurl. er í einhverju fréttasambandi við síldina og tilkynnti það áðan í umræðunum að hún synti hjá. En þetta virðist vera eitt af þessum ágreiningsmálum milli Alþfl. og Sjálfstfl., og ágreiningsmál í ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Já, það virðist vera. Sjálfstfl. ræður hér eins og í öðrum málum og Alþfl. er alger bandingi í málinu. Þó að hv. þm. hans séu hámenntaðir á þessu sviði láta þeir hv. 3. þm. Suðurl. jafnvel kúska sig í málefnum síldarinnar.
    En þetta var útúrdúr og er í rauninni ekki gamanmál á ferð. Af þessu máli höfum við þingmenn mjög miklar áhyggjur vegna þess að hér er um tekjutap að ræða fyrir þjóðfélagið. Hér er vissulega um áhættu að ræða. Við flm. þessarar tillögu reynum að stilla í hóf þeirri áhættu með því að minnka þá upphæð sem er til umræðu og halda málum gangandi á þessari vertíð og við trúum ekki öðru en hv. þm. taki nú höndum saman og samþykki þessa tillögu þannig að ríkisstjórnin hafi heimildir Alþingis til að taka á málum.
    Ég vil í lokin geta þess að auðvitað hafa aðilar úti í þjóðfélaginu, sem þessi mál brenna á, miklar áhyggjur af málinu. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp ályktun Verkamannasambands Íslands um málið sem er dagsett í dag og barst okkur fyrir stundu og er send öllum hv. þm. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Sameiginlegur fundur stjórnar og samninganefndar deildar fiskvinnslufólks innan Verkamannasambands Íslands skorar á ríkisstjórnina að heimila Landsbanka Íslands að veita fyrirgreiðslu til þess að sölusamningur á saltaðri síld til Rússlands nái fram að ganga.
    Hér er meira í húfi en svo að tvískinnungsháttur þar sem hver vísar af sér megi verða endalok þessa máls. Hér er um framtíðarhagsmuni okkar að tefla og óvíst er ef við töpum þessu tækifæri til síldarsölu á stærsta markað fyrir saltaða síld að við eigum þess kost síðar að nýta hann.
    Það er með öllu óskiljanlegt í þeim atvinnu- og efnahagshorfum sem nú eru uppi að sá aðili sem á að gæta viðskiptahagsmuna okkar telji ekki verjanlegt að taka nokkra áhættu í ljósi þeirra hagsmuna sem hér er um að ræða. Atvinnulíf og afkoma fólks í mörgum byggðarlögum krefst þess að málið verði endurmetið án tafar.``
    Svo mörg voru þau orð og hnígur þetta mjög í sömu átt og ég var að rekja.
    Það eru margir fleiri sem hafa tjáð sig um þetta. Í Dagblaðinu í dag telur Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, að þjóðarbúið muni tapa um 1 milljarði kr. ef ekki tekst að koma síldinni á Rússlandsmarkað á þessu ári og mestar líkur á því að öll sú síld sem Rússar vildu kaupa mundi fara í bræðslu. Það er satt að segja ömurlegt þó að loðnubræðslurnar vanti vissulega verkefni, en þar tapa menn eins og Finnbogi tekur réttilega fram mörg hundruð millj. kr. eða jafnvel milljarði kr.
    Sú brtt. sem hér um ræðir er hógvær tillaga. Hún er ekki yfirboð. Þetta er raunhæf tillaga, byggð á því ástandi sem nú er. Hún byggir á því að láta hjólin snúast á þessari vertíð, 50 þús. tonna söltun mundi nægja til þess og þá mundi gefast tími til að meta framhaldið. Þess vegna trúi ég ekki öðru en að þessi tillaga fái góðan hljómgrunn í hv. Alþingi. Ég hef ástæðu til að ætla að svo verði og ég skora á hv. þm. að samþykkja þessa tillögu ef hæstv. ríkisstjórn verður ekki búin að sjá að sér í málinu fyrr og leitast við að leysa þetta mál nú án tafar.