Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 18:26:00 (2716)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu, lánsfjárlögin, hefur legið fyrir þinginu frá því snemma í desember og hefur sú umræða út af fyrir sig farið nokkuð víða og er það eðlilegt þar sem lánsfjárlögin snerta svo stóran þátt í okkar þjóðlífi. Lánsfjárlögin ásamt með fjárlögunum hljóta að setja rammann um peningastefnu þess árs sem nú er byrjað.
    Það hefur verið mikið rætt um vexti og þróun fjármagnsmarkaðar í sölum Alþingis í vetur. Það er mjög eðlilegt miðað við það að seinni hluta síðasta árs voru raunvextir og raunar allir vextir í því horfi að það var ekki og er ekki hægt að ætlast til þess að atvinnurekstur geti staðið undir slíku, hvað þá eins og staðan er á mörgum sviðum atvinnurekstrarins, ekki síst í þeim greinum sem nýlega eru búnar að ganga í gegnum erfiða fjárhagslega endurskipulagningu. Það leiðir síðan hugann að blárri bók sem við alþingismenn fengum í hólf okkar í síðustu viku, svokallaðri skýrslu fortíðarvandanefndar. Þar segist ríkisstjórnin vera að setja punktinn fyrir aftan fortíðarvandaumræðuna sem heltók ríkisstjórnina fyrstu mánuði starfstíma hennar, einmitt þann tíma sem sérhver ríkisstjórn á að nota og þjóðin ætlast til að hún noti til að móta þá stefnu sem hún ætlar að framfylgja þann tíma sem hún situr. Sú ríkisstjórn sem ekki notar sínar fyrstu vikur og mánuði til þessara hluta er ekki líkleg til að njóta trausts þjóðarinnar. Sú er einnig reyndin. Hæstv. fjmrh. sagði hér úr ræðustól í gær að hann væri tilbúinn til að fara í samanburð þar um milli núv. og fyrrv. ríkisstjórnar. Það er svo sem mjög eðlilegt miðað við fortíðardýrkun núv. hæstv. ríkisstjórnar, en ef minni mitt bregst ekki er það svo að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur náð enn þá lengra í þeim metalista og er það sjálfsagt ekkert til þess að sækjast eftir.
    Einn af þeim þáttum sem tengist lánsfjárlögum er fjármögnun Byggðastofnunar, fjármögnun atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar, sem það heitir núna, þar sem menn höfðu mjög stór orð í upphafstíma þessarar hæstv. ríkisstjórnar, væntanlega var það einn þáttur í þeim leik að hrella þjóðina sem allra mest. Það var því mjög athyglisvert að hlusta á upplýsingar forstjóra Byggðastofnunar um stöðu atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar þar sem ætla mætti, miðað við yfirlýsingar sérstaklega hæstv. forsrh. í upphafi þessarar ríkisstjórnar, að þar hefði ekki staðið steinn yfir steini þó svo sami hæstv. ráðherra hafi lagt til nokkru seinna að atvinnutryggingardeildin yrði flutt yfir í Landsbankann til að styrkja eiginfjárstöðu hans.
    Það sem mér fannst kannski öðru athyglisverðara í yfirlýsingum um vexti og lánsfjármarkaðinn sem hefur komið fram í vetur var sú yfirlýsing hæstv. viðskrh. að í raun væri hér fákeppnismarkaður á fjármagnsmarkaðnum. --- Virðulegi forseti. Nú held ég að ég geri hlé á ræðu minni. ( Fjmrh.: Ég hlusta og heyri alveg.) Mér finnst það viðeigandi ( Fjmrh.: Þú skalt bara halda áfram að tala.) af því að hæstv. ráðherra kýs að koma með síma inn í þingsalinn sem ég hef reyndar ekki séð gert áður.
    Hæstv. fjmrh. Ég var kominn þar að ég ræddi yfirlýsingu hæstv. viðskrh. --- Hæstv. ráðherra. Ég sagði áðan að mér finnst sjálfsögð kurteisi þar sem hæstv. ráðherra kaus að koma með símann inn í þingsal að við töluðum ekki báðir samtímis, hann í símann og ég úr ræðustól. Og það mætti, virðulegi forseti, beina því til forsetans hvort það samræmist eðlilegum reglum og þingsköpum að menn séu með síma inni í þingsal. ( Fjmrh.: Þú varst ekki einu sinni í salnum þegar var komið að þér. Ég mátti bíða eftir því.) En ég held áfram ræðu minni og gagnvart athugasemd hæstv. ráðherra því að hann situr orðið bölvandi fyrir aftan mig ( ÓÞÞ: Eins og naut í flagi.) get ég upplýst hann um að ég var í húsinu þegar orðið var gefið laust, ég var ekki í þingsalnum. ( Fjmrh.: Þingmaðurinn var ekki í þingsalnum.) Virðulegi forseti. Nú þykir mér svo komið að það hafi svo reynt á þolinmæði hæstv. ráðherra að hann geti ekki hamið skapsmuni sína lengur og það skil ég ósköp vel því að það er langt frá því að hafa verið léttur leikur eða auðveldur gangur fyrir hæstv. fjmrh. að færa fram og flytja öll þau mál sem hann hefur þurft að gera hér í vetur. Við höfum rifjað upp með hæstv. fjmrh. hvað hann hefur haft um þau mál að segja áður þannig að það er ósköp eðlilegt að það sé komið að þeim tímapunkti að taugarnar séu að bresta. Ég vil hins vegar út af athugasemdum hæstv. fjmrh. og látbragði hans mjög ósmekklegu í hliðarsal, sem ég veit ekki hve margir hv. þm. sáu, einfaldlega upplýsa hann um að ég var í þinghúsinu og fylgdist með. ( Fjmrh.: Af hverju ertu alltaf að afsaka þig?) Virðulegi forseti. Nú ganga alveg fram af mér frammíköll hæstv. fjmrh. Ég þarf ekkert að afsaka þetta, en vegna ítrekaðra fullyrðinga og frammíkalla hæstv. fjmrh. tel ég mér skylt að gera það. Ég var hér. (Gripið fram í). Nú held ég að ég verði að fara fram á að ég fái að koma með eins og tvær setningar án þess að hæstv. fjmrh. grípi fram í og nú bíð ég rólegur eftir því að hann jafni sig og svo held ég áfram. ( Fjmrh.: Ég sagði ekki eitt einasta orð.) Virðulegi forseti. Nú heldur fjmrh. því fram að hann hafi ekki sagt eitt einasta orð og nú gengur alveg fram af mér. En vegna ítrekaðra frammíkalla hæstv. fjmrh., nú bið ég ráðherrann að hlusta, um það að ég hafi ekki verið í salnum þegar orðið var gefið laust vil ég benda hæstv. ráðherra á að ég var í húsinu, vissi af mælendaskrá og fylgdist með, en hún breyttist á síðustu stundu. Það féll einn hv. þm. frá orðinu og sá hv. þm. hefur ekki verið þekktur að því að tala mjög stuttan tíma þannig að ég kom um leið og mér var ljóst hvaða breyting hafði orðið. Og vona ég nú, virðulegi forseti, að ég fái tækifæri til að halda ræðu minni áfram.
    Ég var kominn þar að ég nefndi það að hæstv. viðskrh. hafði sagt í þingsölum að í raun gilti fákeppnismarkaður á íslenska fjármagnsmarkaðnum og það mundi ekki breytast fyrr en hann yrði opnaður fyrir erlendum bönkum. Nú ætla ég ekki að meta réttmæti þessarar yfirlýsingar, en hún var afskaplega merkileg úr munni þess ráðherra sem fer með bankamál í landinu og sagði í raun að hér hafi menn verið að færa fjármuni svo milljörðum skipti milli handa í hinu íslenska þjóðfélagi vegna þess að hér hafi ekki verið eðlilegt ástand á fjármagnsmarkaði. Við höfum fengið í efh.- og viðskn. staðfestingu á þessu á síðustu dögum. Við höfum fengið staðfestingu á því að bankarnir geti leyft sér að halda uppi vöxtum sem þeir viðurkenna að séu í raun allt of háir, bæði nafnvextir og raunvextir, vegna þess að þeir séu að bíða eftir tilteknum aðstæðum í þjóðfélaginu, bíða eftir því að tilteknar aðstæður breytist, svo ég segi alveg hreint út, bíða eftir því að kjarasamningar verði gerðir. Meðan fjármálastofnanir bíða eftir því hvort eða á hvern hátt kjarasamningar verði gerðir er vöxtum haldið uppi í þeirri hæð, þó svo að forsvarsmenn fjármálastofnana viðurkenni að þeir séu háir, sem atvinnureksturinn ræður engan veginn við.
    Hæstv. fjmrh. sagði í gær að það hefði verið ákveðið að lækka vextina á ríkisskuldabréfum úr 8,1% niður í 7,9%. Þetta sagði hann að væri kannski ekki mjög mikil lækkun en vigtaði samt og það viðurkenni ég og sérstaklega ef vextir væru ekki afspyrnuháir eins og hæstv. fjmrh. orðaði það í gær. Nú vil

ég spyrja hæstv. ráðherra um skilgreiningu á því hvað séu afspyrnuháir vextir. Ég býst við að þorri þeirra sem hafa þurft að greiða þessa vexti að undanförnu telji að þar sé nóg að gert. Og ég ítreka þá spurningu til hæstv. fjmrh. hvar mörkin á afspyrnuháum vöxtum séu.
    En ég ætla að koma aftur að fákeppnismarkaðnum. Það liggur í loftinu núna og hefur margsinnis komið fram að vaxtalækkun sé eitt af því sem eigi að semja um í komandi kjarasamningum. Menn hafa verið að taka fleiri og fleiri þætti inn í kjarasamningana. En ætla menn að fara að semja um vaxtalækkun? Það getur enginn samið um neitt nema það sem hann hefur ráð á. Þetta þýðir með öðrum orðum, hæstv. fjmrh., að þeir sem ætla að semja um vaxtalækkun telja sig hafa tök á að ráða vaxtastiginu. Ríkisstjórnin og einn eða fleiri af stóru bönkunum hafa með öðrum orðum það vald að þessir aðilar geti haldið vöxtunum uppi til þess að nota þá sem skiptimynt í kjarasamningum. Fari svo að þetta reynist rétt hjá mér verður það hin endanlega sönnun þess að hér sé fákeppnismarkaður á fjármagnsmarkaðnum og vextir ráðist af einhverju allt öðru en framboði og eftirspurn. Og það skulu menn hafa hugfast ef svo fer. Það eru nefnilega mörg teikn í okkar þjóðfélagi sem benda einmitt til þessa. Það er ekkert eðlilegt ástand þar sem innlánsvextir ríkisins, vextirnir sem það borgar sparifjáreigendum fyrir ríkisskuldabréfin, eru jafnháir og kjörvextir á útlánum í bankakerfinu. Ef hér væri eðlilegur fjármagnsmarkaður væru vextir á ríkistryggðum bréfum lægri en gerist í bankakerfinu.
    Ég hef spurt bæði bankastjóra Seðlabankans og ýmsa aðra fjármálasérfræðinga, sem hafa komið á fund efh.- og viðskn., um hver þeir telji að sé hinn eðlilegi munur á ríkispappírum og öðrum áhættumeiri pappírum sem eru í gangi í þjóðfélaginu. Menn hafa ekki getað gefið við því neitt einhlítt svar, en hafa þó sagt að erlendis sé þessi munur verulegur og muni einhverjum prósentustigum meðan svo er hér að vextir sem ríkið borgar þeim sem kaupa ríkisskuldabréf eru sambærilegir við lægstu útlánsvexti bankanna. Þarna er komið enn eitt dæmið um að það ríkir alls ekki eðlilegt jafnvægi á okkar fjármagnsmarkaði.
    Hæstv. fjmrh. kom víða við í ræðu sinni í gær og ræddi m.a. þó nokkuð að gefnu tilefni um eftirlitssveitirnar og man ég ekki í augnablikinu hvert er nýjasta nafnið á brtt. okkar um þá tilhaldsmenn --- er það ekki? --- sem fjmrn. eða ríkisstjórnin og viðkomandi ráðherrar ætla að fá lögfesta heimild um að verði eitt öflugasta hjálpartækið við að halda fjárlög, sjá um að fjárlög fari ekki fram úr áætlun og þar með að lánsfjárlög haldi og hægt verði að ná þeim markmiðum sem þeir setja sér í ríkisfjármálum á fjármagnsmarkaði.
    Nú kemur þetta vissulega lánsfjárlögunum við þar sem, eins og ég sagði áðan, þessum mönnum er ætlað að sjá til þess að menn haldi fjárlögin. Ég ætla ekki að halda um þetta mál langa ræðu. Það gefst væntanlega tækifæri til þess þegar við ræðum bandorminn, en það er, virðulegi forseti, held ég einum of langt gengið, eins og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins sagði á nefndarfundi fyrir jól, þegar menn fóru í það stórvirki að lögfesta hallærislegan brandara í breytingum á skattalögunum, ef menn ætla til viðbótar að lögfesta hótanir --- því að eftir að hafa marggengið á aðstoðarmenn hæstv. ráðherra um hver væri tilgangurinn með þessu stóð ekkert eftir annað en það að þetta væru hótanir, þetta væri svipa sem ætti ekki að gera meira með en veifa yfir mönnum. Það held ég nú, virðulegi forseti, að sé athugunarefni hvað mönnum dettur orðið í hug að setja í lagatexta, auk þess sem, bæði af praktískum og mannlegum ástæðum, þetta er aðferð sem er alls ekki líkleg til árangurs, þvert á móti. Ég veit ekki hvort borist hefur til hæstv. fjmrh. umsögn Ríkisendurskoðunar um þetta atriði. En hún segir mér að hæstv. ríkisstjórn hefði verið nær að leita til fleiri ráðgjafa áður en ákveðið var að skella þessu atriði fram.
    En almennt vildi ég segja um lánsfjárlögin og ríkisfjármálin á þessu ári að mér finnst orka mjög tvímælis á samdráttartímum eins og nú eru að ríkisstjórnin skuli ekki sýna meiri kjark og ráðast þá í arðbærar framkvæmdir sem vissulega eru fyrir hendi í okkar þjóðfélagi til að mæta þeim að vísu tilbúna samdrætti sem skapast við það að ekkert varð úr samningum um byggingu álvers og þar af leiðandi engar virkjanaframkvæmdir.
    Nú ætla ég ekki að fara að bera það ástand sem nú er saman við kreppuna upp úr 1930. Þar ber allt of mikið á milli til þess að nokkur maður ætti að gera það. En ég bendi þó á að á þeim tíma brást ríkisvaldið m.a. við kreppunni með því að fara í framkvæmdir í vegamálum, brúagerð og skólabyggingum til að vega upp á móti niðursveiflunni. Og það er einmitt þetta sem leitar alltaf meira og meira á minn hug. Er virkilega rétt að mæta samdrættinum með aðgerðum sem ég hef stundum orðað þannig en það er kannski ekki beint rökrétt orðað að hafi öfug margfeldisáhrif, þ.e. magni í raun kreppuástandið? Það leiðir líka hugann að því að það er ekki einungis með slíkum aðgerðum sem hæstv. ríkisstjórn magnar að mínu mati kreppuna. Það er ekki síður með allri sinni framgöngu í orði á síðustu mánuðum þegar svo var komið þegar leið að árslokum að öllum hugsandi mönnum var löngu farið að ofbjóða. Ég býst við að orð þekkts íslensks framkvæmdastjóra vestan úr Bandaríkjunum, þegar hann kom til Íslands og hann lýsti áhrifum sem það hafði á hann þegar hann las blöðin í þotunni á leiðinni heim, hafi haft ansi mikil áhrif á þjóðmálaumræðuna hérna heima og aðeins komið við hæstv. núv. ríkisstjórn.
    Ég hef bent á það með framlagningu þingmáls á haustþinginu að það eru til arðbærar framkvæmdir sem að mínu mati væri sjálfsagt að grípa til við þær aðstæður sem eru núna, þar á ég við vegaframkvæmdir, í stað þess að draga þar saman.
    Við höfum flutt um það þáltill., ég og 4. þm. Reykv., hvort ekki sé ástæða til að kanna hvort að

því sé ekki veruleg arðsemi að nota það hlé sem er nú gert frá öðrum framkvæmdum til að gera stórátak í vegamálum og höfum nefnt þar það verkefni að klára lagningu hringvegarins í því formi að við getum kallað hann veg. Er bent á það í greinargerð með þáltill. að margt bendi til þess að þar sé um mjög arðbæra framkvæmd að ræða, framkvæmd sem geti aðstoðað við að leysa úr læðingi okkar stærstu auðlind sem felst hvorki í fiskinum í sjónum, landinu eða orkunni í fossunum heldur felst okkar stærsta auðlind í fólkinu sem landið býr. Það er út af fyrir sig í því sambandi umhugsunarefni að margar þær þjóðir sem hafa snúið sínu efnahagstafli við á síðustu árum eru ekki þjóðir sem búa yfir miklum auðlindum, miklum hráefnum. Það eru fyrst og fremst þjóðir sem hafa náð því að virkja fólkið í landinu til nýrrar sóknar.
    Ég ætla að lokum að koma örfáum orðum að því sem hæstv. fjmrh. ræddi í ræðu sinni í gær um eflingu atvinnulífsins, samspil lífeyrissjóðanna og eiginfjármyndunar í atvinnulífinu. Ég er út af fyrir sig sammála öllu því sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. Hins vegar fundust mér skjóta verulega skökku við í gjörðum hæstv. ríkisstjórnar þær breytingar sem reynt var að knýja í gegn á skattalögunum um það að skattleggja arðgreiðslur eða með öðrum orðum að fyrirtæki gætu ekki dregið arð frá tekjum. Þessu var að vísu breytt á þann veg að í stað þess að lögfesta þetta ákvæði beint var lögfestur kafli úr hvítu bókinni, kafli úr stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar, sá löggerningur sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins hafði um þau orð sem ég nefndi fyrr í ræðu minni.
    Það hefur komið fram hjá öllum þeim fjölmörgu aðilum sem við höfum rætt við um þetta mál í efh.- og viðskn. að umræðan ein um þetta og umfjöllunin hafi valdið stórskaða á þeirri viðleitni manna að byggja upp hlutafé með framlögum lífeyrissjóða, með kaupum lífeyrissjóða, einstaklinga og annarra í atvinnurekstrinum. Þetta skýtur einnig mjög skökku við allan málflutning og tillöguflutning hæstv. fjmrh. meðan hann var hér sem óbreyttur þingmaður og kom í raun fram í stjórnarandstöðu ýmsum framfaraákvæðum varðandi einmitt þetta atriði. Þarna er því eitt atriðið enn til viðbótar við öll frumvörpin sem hæstv. fjmrh. varð að flytja sér þvert um geð, þvert á ræður hans frá fyrri árum og enn eitt atriðið sem ég hef hæstv. ráðherra til afsökunar á því að hann hafi misst eilítið stjórn á skapsmunum sínum í upphafi ræðu minnar áðan.