Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 19:06:00 (2724)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við að hafa sagt að menn væru að magna samdráttinn og því síður að það væri hægt að leysa þetta með einhverjum tilteknum aðgerðum. En ég sagði hins vegar, hæstv. fjmrh., að hæstv. ríkisstjórn yki með gerðum sínum og orðum að mínu mati vandann enn frá því sem annars hefði þurft að vera.
    Í öðru lagi kom ráðherra að því í raun í lokakafla síns andsvars að við eigum mikla möguleika --- því að, hæstv. ráðherra, 15 milljarða viðskiptahallinn, í hvað fer hann? Hann fer að verulegu leyti í að fjármagna neyslu sem segir mér að með skynsamlegri efnahagsstjórn væri hægt að verja fjármunum til að klára það tiltekna verkefni sem ég nefndi áðan án þess að þurfa að taka til þess mjög miklar auknar lántökur umfram það sem væri til að fjármagna þá 15 milljarða, þessa neyslu sem við höfum, hæstv. fjmrh., því miður dæmi um að er haldið uppi m.a. af aðilum sem eru tilbúnir að lána innflutningsaðilum, m.a. bílaumboðum til að kaupa notaða bíla svo hundruðum millj. skipti til að geta haldið áfram innflutningnum. Þetta eru dæmi, hæstv. fjmrh., sem við höfum fyrir okkur.