Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 13:58:00 (2731)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. verði viðstaddir þessa umræðu. Hæstv. fjmrh. hefur verið viðstaddur umræðuna, en því miður hefur mjög á það skort að hæstv. forsrh. væri viðstaddur. Ástæðan fyrir því að við viljum að hæstv. forsrh. sé hér er ósköp einföld. Hún er sú að í því frv. sem við erum að ræða felst sá kjarni ef einhver er í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsrh. er samkvæmt verkaskiptingu Stjórnarráðs Íslands ráðherra efnahagsmála og það er gjörsamlega út úr öllu korti að hann skuli ekki átta sig á því að honum ber skylda til að vera viðstaddur umræðuna og taka þátt í henni nema hæstv. forsrh. sé orðinn þannig staddur í sinni pólitísku tilvistarkreppu að hann játi með verkum sínum og fjarvist að hann treysti sér ekki í umræður á Alþingi um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Kannski er svo komið, að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sér þann kost vænstan að vera fjarverandi og taka ekki þátt í þeirri umræðu sem snýst um kjarnann í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, fara formlega fram á það að hæstv. forsrh. verði ekki aðeins viðstaddur ræðu mína heldur einnig þær umræður sem eiga eftir að fara fram. Ég vek athygli á því að fráfarandi forsrh., hv. þm. Steingrímur Hermannsson, hefur kvatt sér hljóðs í þessari umræðu og það er ósköp eðlilegt að hér og nú í janúarmánuði fari fram ákveðin úttekt á því hvað hefur gerst í efnahagsmálum í kjölfar þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin tók upp þegar hún settist að völdum í byrjun maímánaðar og hvað blasir við á næstu mánuðum. Heyri ég ekki annað af forsetastól reikna ég með því að hæstv. forsrh. sé væntanlegur. ( Forseti: Hæstv. forsrh. er í húsinu og hefur verið hér í húsinu frá upphafi fundar, er hér aðeins upptekinn í hliðarherbergi og mun koma innan skamms inn í þingsalinn). Já, og ég þakka fyrir það. Það getur að vísu orðið til þess, að ég þurfi að endurtaka fáeina hluta af ræðu minni og það er auðvitað mjög vont að menn þurfi að endurtaka hlutina. Það tefur fyrir í þinginu vegna þess að ráðherrar eru að sinna einhverju öðru en því sem er þeirra frumskylda. ( Forseti: Forseti vill hins vegar benda hv. þm. á að sá hæstv. ráðherra sem þetta mál heyrir undir er í salnum og hefur alla tíð setið undir umræðunni.) Já, hæstv. forseti þarf ekkert að vera að hjálpa ráðherrunum með þessum hætti. Ég sagði áðan í ræðu minni að ég gerði mér grein fyrir því að hæstv. fjmrh. sem flytti þetta frv. væri hér og hefði setið hér nokkuð vel, en það væri hins vegar þannig að hæstv. forsrh. er ráðherra efnahagsmála og þetta frv. til lánsfjárlaga er hornsteinninn í stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, ef sá hornsteinn er yfir höfuð til. Það dugar okkur því engan veginn, hæstv. forseti, að hafa eingöngu þann fagráðherra sem frv. heyrir undir vegna þess að frv. til lánsfjárlaga er samnefnari fyrir ríkisstjórnina í heild þótt hæstv. fjmrh. flytji það að formi til.
    Hæstv. forsrh. lýsti því yfir skömmu eftir að ríkisstjórnin tók við að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir í maímánuði sl. myndu leiða til raunvaxtalækkunar á komandi hausti, þ.e. haustinu sem leið. Þær birtust ekki. Þvert á móti fóru raunvextir upp. Þá sagði hæstv. forsrh. á haustmánuðum að raunvextir myndu lækka verulega fyrir jólahátíð. Það gerðist ekki. Hæstv. forsrh. sagði þá á blaðamannafundi daginn eftir að næturaðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar í fyrri hluta desembermánaðar að raunvextir myndu fara hraðlækkandi í byrjun næsta árs. Nú liggur það fyrir að það mun ekki gerast. Það hefur þegar komið fram við þessar umræður að hvorki af hálfu hæstv. fjmrh. né af hálfu viðskiptabankanna verði raunvextir lækkaðir á næstu mánuðum. Ég tel þar auðvitað ekki með þessa litlu fingurbjörg vaxtalækkana sem hæstv. fjmrh. tilkynnti, 0,2% á hinum tiltölulega lokaða og þrönga markaði áskrifta að spariskírteinum ríkissjóðs.
    Nú sagði hæstv. fjmrh. fyrr í þessari umræðu að raunvaxtalækkanir muni verða einhvern tíma síðar á árinu. Menn geta auðvitað haft ýmiss konar skilning á því hvað orðið ,,síðar`` merkir, en það blasir hins vegar alveg við núna í janúarmánuði að megintilgangurinn með efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar hefur ekki náðst og ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því sem hæstv. forsrh. skuldar þinginu skýringar á, hver er að hans dómi skýringin á því að allar yfirlýsingar hans hafa reynst marklausar hingað til varðandi árangurinn af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ætlar hæstv. forsrh. að halda sig við það sem hingað til hefur reynst árangurslaust og lýsa því yfir í þinginu að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sé í reynd ekki fólgin í neinu öðru?
    Það hefur verið rakið mjög rækilega í þessari umræðu að raunvaxtastigið í bankakerfinu, raunvaxtastigið á þeim pappírum sem eru ráðandi fyrir markaðinn, er langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Það hefur jafnframt komið fram hvað eftir annað að verðbólga er hér svo lág að Ísland sker sig úr á nágrannalöndum. Hver er þá skýringin, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., á því að raunvextirnir lækka ekki? Hún er mjög einföld. Það er vantraustsyfirlýsing markaðarins, hæstv. fjmrh., á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar Hæstv. fjmrh. sagði mjög stoltur að ríkisstjórnin hefði gert sitt. Vandinn er bara sá fyrir hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að markaðurinn tekur þær yfirlýsingar ekki alvarlega. Þessir ágætu menn, sem telja sig vera í fararbroddi markaðskenninganna í efnahagsmálum og eru hvað eftir annað að lýsa því yfir að meira mark eigi að taka á lögmálum markaðarins en gert hefur verið hingað til, ættu þá að viðurkenna það að dómur markaðarins yfir eigin efnahagsstefnu þeirra liggur nú fyrir. Hann er á þann veg að markaðurinn hreyfir sig ekki til raunvaxtalækkana þrátt fyrir ræður og yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Ekki meir, segir hæstv. fjmrh. Hann lauk sinni ræðu 13. jan. með því að segja að með því að samþykkja fjárlögin sem búið var að samþykkja og með því að samþykkja frv. til lánsfjárlaga sem ríkisstjórnin hefur gengið frá fyrir sitt leyti væri verkum ríkisstjórnarinnar lokið í málinu. Þessi tvö frumvörp fælu í sér grundvöllinn að stöðugleikanum. Vandinn er hins vegar sá að hvorki verkalýðshreyfingin, samtök launafólks né aðilarnir á peningamarkaðinum eru sama sinnis.
    Að óbreyttri stefnu er alveg ljóst að þrengingarnar á peningamarkaði munu hafa það í för með sér að mikill fjöldi fyrirtækja mun eiga í miklum erfiðleikum og verða gjaldþrota á þessu ári og næsta ári. Jafnframt mun það hafa í för með sér, m.a. vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur neitað að innleiða skatta á fjármagnstekjur, að á sama tíma og boðskapur ríkisstjórnarinnar er að launafólk megi ekki fá neina kauphækkun í sinn hlut munu fjármagnseigendur á grundvelli efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og skattastefnu ríkisstjórnarinnar taka milljarða til sín á þessu nýja ári, sem var raunin á seinni hluta síðasta árs, og á árinu 1993 umfram það sem aðrar stéttir fá í sinn hlut. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. og einnig hæstv. forsrh. hvort þeir telji virkilega að það sé vænlegt framlag til stöðugleika í íslenskum efnahagsmálum að skapa hér þær kringumstæður að stétt fjármagnseigenda í landinu fái æ meira til sín í krafti hárra raunvaxta og njóti þess gróða skattfrjálst, en lagt er síðan til atlögu við launafólkið með nýjum og nýjum ákvörðunum. Halda menn t.d. að sá boðskapur sem fluttur var á fundi BSRB, Kennarasambandsins og BHMR í gær sé einangraður? Hafa menn ekki hlýtt á forustu Verkamannasambandsins, forustu Alþýðusambandsins og aðra þá sem af heilindum hafa viljað halda stöðugleikanum, hafa viljað halda jafnvægi í efnahagsmálum, hafa viljað taka þátt í því, að taka hér það sem kallað er skynsamlegar ákvarðanir í kjaramálum, en eru ekki reiðubúnir að samþykkja þá 2% kjaraskerðingu sem ríkisstjórnin sjálf hefur beitt sér fyrir?
    Ég vil rifja það upp að talsmenn Sjálfstæðisflokksins með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar héldu því fram hvað eftir annað og það blað, sem núv. þingmaður Björn Bjarnason stýrði á síðustu árum, hélt því einnig fram hvað eftir annað, að verkefnið í íslenskum stjórnmálum væri að draga þannig úr ríkisumsvifum með skattalækkunum og minni umsvifum ríkisins að launafólkið gæti fengið meira í sinn hlut í gegnum hinn almenna markað og fyrirtækin héldu meira eftir hjá sér. En hvað hefur gerst, hæstv. fjmrh.? Það sem hefur gerst er að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, og ég endurtek fyrir hv. þm. Björn Bjarnason, skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og hækkanir á gjaldtöku ríkisfyrirtækja, þjónustugjöldum og öðru slíku hefur núna á tveimur mánuðum rýrt kaupmáttinn um 2%, þannig að það er ríkisstjórnin sjálf sem með skattahækkunarstefnu sinni býr til einn af þeim þröskuldum sem erfiðast verður að stíga yfir í komandi kjarasamningum. Er þetta í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar? Er þetta í samræmi við það sem Sjálfstfl. hefur lýst yfir? Er þetta í samræmi við það sem þessir menn hafa sagt og skrifað á undanförnum árum? Svarið er nei. Við erum stödd í þeim sporum að velta því fyrir okkur hvort yfirlýsingar Sjálfstfl., yfirlýsingar forsrh., yfirlýsingar fjmrh. séu bara marklaust hjal, hvort þetta séu ekki menn sem hægt sé að taka alvarlega.
    Sjálfstfl. barðist fyrir því á síðustu þremur árum að jöfnunargjaldið væri afnumið. Hvað gerist nú? Það er ekki aðeins að jöfnunargjaldið verði framlengt í hálft ár heldur er sérstaklega bætt við þremur mánuðum hér á lokadögum þingsins fyrir jól, þannig að jöfnunargjaldið sem Sjálfstfl. ætlaði að afnema verður nú í gildi í níu mánuði. Þá rifja ég upp, hver var röksemd Sjálfstfl. í haust í fjárlagafrv. fyrir því að hækka tekjuskattinn og minnka barnabæturnar? Jú, röksemdin var að ríkið yrði af tekjum af því jöfnunargjaldið félli niður um komandi áramót. En hvað hafa þeir gert? Þeir hafa framlengt jöfnunargjaldið í níu mánuði og haldið eftir hækkuninni á tekjuskattinum, bæði með skerðingu barnabótanna og

almennum hækkunum á tekjuskattinum.
    Sjálfstfl. sagðist ætla að minnka eignarskattinn. Hefur hann gert það? Nei. Sjálfstfl. sagðist ætla að minnka skattálögurnar á atvinnulífið. Hefur hann gert það? Svarið er nei. Sjálfstfl. sagðist ætla að draga úr ríkisumsvifunum og skapa á þann hátt svigrúm fyrir raunvaxtalækkun. Hefur hann gert það? Svarið er nei. Auðvitað er það þannig að það eru takmörk fyrir því hvað maður nennir að rifja upp á Alþingi af yfirlýsingum Sjálfstfl. á undanförnum árum vegna þess að þessir menn hafa með verkum sínum sýnt að þeir eru marklausir. Hvað um Alþfl.? Var kosið um það af hálfu Alþfl. í síðustu kosningum að minnka kaupmátt ellilífeyrisþega, hækka lækniskostnaðinn, hækka lyfjakostnaðinn, skerða barnabæturnar, þrengja að grunnskólunum? Svarið er líka nei. Það er engin samsvörun í því sem þessir menn sögðu fyrir kosningar og því sem þeir segja nú.
    Hæstv. forsrh. birtist hér augnablik í dyragættinni, virðulegi forseti, en fór svo. Ég óska eftir því að hann sé nú sóttur. ( Forseti: Forseti hefur nú þegar komið þeim skilaboðum til hæstv. forsrh. að nærveru hans sé óskað hér). Það bara dugir ekki, virðulegi forseti, vegna þess að það er fullkomlega óskynsamlegt að tefja tíma þingsins með því að menn þurfi að endurtaka hluta af ræðu sinni þegar ráðherrarnir loksins birtast í salnum. ( Gripið fram í: Það er alveg óþarfi).
    Já, virðulegi forsrh. Ég hafði ætlað mér að bera fram nokkrar spurningar til hæstv. forsrh. til þess að greiða fyrir því að þessi umræða geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti. Þó að það frv. sem hér er til umræðu, frv. til lánsfjárlaga, sé formlega flutt af hæstv. fjmrh. er það eins konar samnefnari fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og það er þess vegna eðlilegt í ljósi þess að eiga nokkurn orðastað við hæstv. forsrh. sem er ráðherra efnahagsmála um árangurinn og framhaldið á þessu sviði.
    Fyrsta spurningin sem ég vil bera upp til hæstv. forsrh. snýr að því hver er skýring hans á því að allar þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið frá því að ríkisstjórnin tók við völdum um væntanlegar raunvaxtalækkanir hafa ekki staðist. Hæstv. forsrh. gaf þá yfirlýsingu í maímánuði að raunvextir myndu lækka í haust. Þegar það gerðist ekki í haust lýsti hæstv. forsrh. því yfir að raunvextir myndu lækka á næstu mánuðum eða fyrir áramót. Þegar það gerðist ekki þá lýsti hæstv. forsrh. því yfir --- að mig minnir á blaðamannafundi eða í viðtölum við fjölmiðla eftir næturfund ríkisstjórnarinnar í desember þegar ákvarðanir voru teknar á ýmsum sviðum --- að raunvextir mundu lækka í byrjun næsta árs, þ.e. ársins 1992.
    Nú hefur það komið fram, virðulegi forsrh., að það er ekkert sem bendir til þess að slíkar raunvaxtalækkanir séu í vændum. Hæstv. fjmrh. hefur gefið út nýja flokka af spariskírteinum ríkissjóðs sem bera sömu vexti og áður og sú litla breyting, 0,2%, á hinum tiltölulega lokaða markaði áskrifenda að spariskírteinum ríkissjóðs, er ekki boðberi eða hvati neinnar almennar raunvaxtalækkunar. Á sama hátt hefur alveg skýrt komið fram í viðtölum við forsvarsmenn viðskiptabankanna að þeir munu ekki beita sér fyrir frekari raunvaxtalækkunum á næstunni.
    Það er einnig ljóst, virðulegi forsrh., að sú breyting sem hefur orðið á markaðskjörum húsbréfanna gerir það að verkum að ekki er að vænta frekari breytinga þar á næstunni á meðan vextir á spariskírteinum ríkissjóðs og bankakerfisins eru óbreyttir. Allt stefnir því í það, hæstv. forsrh., að a.m.k. nokkra mánuði enn eða fram til vors verði áfram það sama raunvaxtastig og kannski ívið hærra og ríkisstjórnin beitti sér sérstaklega fyrir að ná með aðgerðum sínum eftir að hún tók við völdum í byrjun í maímánaðar í fyrra. Eða með öðrum orðum, að fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar, fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir hið fyrsta heila ár og það frv. til lánsfjárlaga, sem við erum að afgreiða munu ekki fela í sér neinar afgerandi breytingar í þessum efnum.
    Það hefur verið spurt að því úr þessum stól hver sé afstaða ríkisstjórnarinnar gagnvart húsbréfaútgáfu og bent hefur verið á það að mínu dómi með réttu að húsbréfaútgáfan er einn af veigameiri þáttum til að ákveða vaxtastigið og ástandið á peningamarkaðinum. Hæstv. fjmrh. gaf út ærið sérkennilega yfirlýsingu í ræðu sinni hér 13. jan. og ég vil biðja hæstv. fjmrh. að hlýða einnig aðeins á það. Hann lýsti því yfir að búið væri að

ákveða að gefa út þrisvar á næsta ári flokka húsbréfa, 4 milljarða í senn. (Gripið fram í.) Ég skrifaði þetta niður eftir hæstv. ráðh. og fannst yfirlýsingin sérkennileg þannig að gott væri ef hún væri leiðrétt núna --- á þessu ári. Það var nú kannski aukaatriði í málinu. Aðalatriðið er það að á árinu 1992 lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að það ætti að gefa út þrjá flokka af húsbréfum, 4 milljarða í senn og hæstv. félmrh., svo ég vitni orðrétt í fjmrh., mundi ákveða þessa útgáfu. Þetta sagði hæstv. ráðherra og getur flett því upp sjálfur. Það finnst mér satt að segja einhver stærsta yfirlýsingin sem hefur fallið í umræðunum vegna þess að mér er fullkunnugt um það að félmrh. hefur mikinn áhuga á því að dæla út eins miklu af húsbréfum og hægt er. En nú er það einu sinni þannig að það er ekki félmrh. sem gefur út húsbréfin. Félmrh. skrifar ekki undir húsbréfin. Nafn hennar er hvergi á húsbréfunum. Það er hæstv. fjmrh. sem gefur út húsbréfin og það er nafn hans sem er á þeim. Er það virkilega þannig að ríkisstjórnin sé í upphafi árs, óháð því hvað gerist á peningamarkaðinum, búin að ákveða það hér og nú að gefa út þrisvar 4 milljarða af húsbréfum hvað sem tautar og raular á peningamarkaðinum og ætti þar með halda uppi því raunvaxtastigi sem er í landinu, hæstv. forsrh.? Er þetta virkilega þannig að sú yfirlýsing sem hæstv. fjrmh. gaf hér feli það í sér að nú þegar sé ríkisstjórnin vegna þrýstings frá hæstv. félmrh. búin að afsala sér því valdi að geta nýtt húsbréfaútgáfuna til þess að hafa áhrif á vaxtastigið á peningamarkaðinum?
    Ég vil geta þess hér t.d. að meðan ég var í fjmrn. var almenn afstaða fjmrn. að ekki væri skynsamlegt að gefa út sem næmi nema 2--3 milljörðum af húsbréfum í einu þó komið hafi fyrir að það hafi verið gefið út meira. En afstaða ráðuneytisins var engu að síður sú að halda sig við fáeina milljarða. Það er þess vegna við hæfi að hæstv. félmrh. sé komin hér í salinn til þess að taka þátt í umræðunni því að ef það er þannig --- og ég ítreka spurningu mína til hæstv. forsrh. hvort nú þegar liggi þessi ákvörðun fyrir í ríkisstjórninni --- þá er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur þar með sagt að hún ætli ekki að skipta sér meira af vaxtastiginu í landinu á þessu ári. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh. alveg skýrt að því ef það gerist nú sem allt bendir til á þessu ári eins og hinu síðasta að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni ekki leiða til neinnar raunvaxtalækkunar --- ég veit að það eru miklar annir í Stjórnarráðinu en ég hélt að þær væru ekki svo miklar að fjmrh. þyrfti að nota þessar stundir til þess að færa forsrh. einhver boð greinilega af miklum þunga. ( Forsrh.: Ég þarf að skjótast í síma snöggvast augnablik, ég bið afsökunar á því). Og fara í símann, þá verð ég bara að gera hlé, forseti, ef símtækið hefur forgang fram yfir ræðustólinn. Þetta er svona erfitt fyrir ráðherrana að sitja undir þessum fáeinu spurningum og lýsingum á verkum þeirra, það er kannski spurning hvort þingið á ekki að taka sér hlé í nokkra daga svo að ráðherrarnir geti sinnt sínum símtölum í friði. ( Gripið fram í: Getur ekki þingmaðurinn lesið ljóð á meðan?) Nei, þingmaðurinn ætlar ekki að lesa upp ljóð á meðan, en hins vegar mætti kannski beina þeirri athugasemd til forsetadæmisins að þörf ráðherranna fyrir símtöl er greinilega orðin svo mikil að fjmrh. mun hafa flutt símtækið með sér inn í þingsalinn í gær. Ég veit ekki til að það hafi verið gert fyrr í þingsögunni að ráðherra leyfi sér að flytja símtækið með sér inn í salinn og setjist við að tala í símann hér í annarri röð í þingsalnum. Það er ekki einu sinni hægt að fá að tala hér í tíu mínútur, kortér við forsrh. án þess að hann sé í þrígang rokinn í símann á þeim tíma. Þetta er merkilegur forgangur sem síminn er farinn að fá hér í þinginu. Ég veit ekki til þess að það hafi verið áður. Ég man t.d. eftir því þegar ég var fjmrh. þurfti ég að fá sérstakt skriflegt leyfi til að mega pissa í tvær mínútur undir löngum umræðum hér í salnum, en nú virðist ráðherrum leyfilegt að hlaupa hér inn og út og fara í símann. Hverjir eru þessir mikilvægu menn hér úti í bæ sem eru hringjandi í ráðherrann eða vill forseti t.d. kannski svara mér því er skynsamlegra fyrir mig að fara út á skrifstofu mína og hringja í forsrh., er þá líklegra að ég nái eyrum hans? ( Fjmrh.: Hvernig væri að prófa það?) Það mætti prófa það, hæstv. fjmrh., ég er viss um það að hann kæmi a.m.k. í fyrsta sinn sem hringt væri. (Gripið fram í.) Það dugar mér nú engan veginn að hv. þm. Árni Johnsen sé staddur hér í salnum.
    Virðulegi forseti. Er ekki skynsamlegt að gera hlé á fundinum ef forsrh. er nú búinn að vera átta mínútur í símanum? Ég tel við hæfi að gera hlé á fundinum þar til hann getur komið hingað svo að maður fái tækifæri til að bera upp fáeinar spurningar við hann. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli ræðumanns á því að hann hefur ræðustólinn og hefur orðið hér í fundarsalnum þannig að þingheimur er hér til þess að hlýða á mál hans.) Það má rétt vera, virðulegi forseti, en það hefur nú almennt tíðkast í kurteisissamskiptum í þinginu að ef ráðherra telur sig tilknúinn til þess að víkja burt úr umræðunni þegar maður er í miðju kafi við að bera fram nákvæmar spurningar til ráðherrans og hann kemur ekki aftur eftir fáeinar mínútur, þá er gert hlé á fundinum. Ég hef engan áhuga á að standa hér þegjandi. Það er ekki stór hluti af ræðu minni sem ekki sneri að forsrh. þannig að ég get ekki haldið áfram nema hann komi aftur í salinn. Og ég bið nú þann forseta sem hér situr að fara að venjulegum kurteisisreglum sem tíðkast hafa í þinginu. Telji ráðherra sig þurfa að vera lengur í burtu en fáeinar mínútur þá sé gert hlé þar til hann getur komið aftur. ( Forseti: Vegna eindreginna tilmæla þingmannsins er gert örstutt hlé á fundinum.) --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Ég hélt ekki að ég þyrfti að segja það við hæstv. forsrh. að sú hugmynd kom upp hér fyrir jól að þeir ráðherrar sem ekki mættu vera að því að sinna skyldum sínum við umræður á Alþingi vegna símtala fengju sér farsíma til að hafa hjá sér í sætinu. Það er auðvitað mjög bagalegt ef ráðherrar eru svo önnum kafnir að þeir geti ekki verið hér einn til tvo tíma síðdegis til þess að taka þátt í umræðum um eitt af mikilvægustu frv. ríkisstjórnarinnar. Lánsfjárlögin eru nú eitt af mikilvægustu frv. ríkisstjórnarinnar og nauðsynlegt er að þeir ráðherrar sem þar koma helst að máli geti verið í sæti sínu a.m.k. 20--30 mínútur svo að hægt sé að ljúka við að bera upp við þá spurningar. Reyndar hefði einnig verið æskilegt að hæstv. viðskrh. væri hér en ég tek það fram að ég geri enga kröfu til þess að hann sé við umræðuna því mér sýnist hann nú vera búinn að afsala sér öllum áhrifamætti gagnvart gangi mála hér.
    En mig minnir, hæstv. forsrh., að áður en þetta 20 mínútna símtal hófst hafi ég verið staddur þar í spurningum mínum að spyrja hæstv. forsrh. að því hvað hann hygðist gera ef það kæmi nú í ljós, segjum eftir tvo eða þrjá mánuði að peningakerfið, markaðurinn, héldi áfram að bregðast við ríkisstjórninni með sama hætti og gert hefur verið hingað til að hafa yfirlýsingar forsrh. um væntanlegar raunvaxtalækkanir að engu. Við höfum nú þrjú tilvik frá því að ríkisstjórnin var sett á laggirnar þar sem markaðurinn og hið efnahagslega umhverfi hefur ómerkt yfirlýsingar forsrh. Og af því að við erum að afgreiða annað meginefnahagsfrv. ríkisstjórnarinnar vil ég spyrja forsrh. hvað hann hyggst gera ef hann verður nú í fjórða sinn fyrir sömu reynslu og áður. Ætlar hann að sitja aðgerðarlaus og láta það gerast eða mun hann beita sér fyrir einhverjum nýjum aðgerðum? Hann hlýtur að hafa hugleitt það vegna þess að reynslan kennir naktri konu að spinna og eins hlýtur auðvitað að vera um forsrh. sem hefur hreppt þær gerningar að peningakerfið hefur ekkert mark á honum tekið.
    Hæstv. forsrh., nú bendir margt til þess að eftir þrjá, fimm eða sex mánuði verði það komið í ljós að hallinn á ríkissjóði á þessu ári mun ekki verða undir 7 milljörðum, segjum 6--7 til þess að vera með lága tölu. Ég hef að vísu heyrt sérfræðinga nefna mun hærri tölu. Ég hef heyrt þá nefna töluna 8--9 milljarða. En höldum okkur í lægri mörkunum, förum ekki einu sinni í miðjuna eða efri mörkin. Hvað hyggst hæstv. ríkisstjórn gera ef í ljós kemur undir vorið að áform ríkisstjórnarinnar um halla á ríkissjóði undir 4 milljörðum muni alls ekki standast og það stefni jafnvel í að hallinn verði tvisvar sinnum meiri en ríkisstjórnin stefndi að. Ég spyr vegna þess að ríkisstjórnin hefur lagt í nokkra leiðangra gagnvart sjómönnum, gagnvart börnum og nemendum í grunnskólum og framhaldsskólum, gagnvart ellilífeyrisþegum, þar sem upphæðin, sem verið er að tala um í hverjum leiðangri, er kannski 180 millj. eða rúmar 200 millj. Litlar upphæðir í hinu stóra ríkisfjármáladæmi. Engu að síður er ljóst að þessar aðgerðir hafa haft mjög neikvæð áhrif á allt andrúmsloft kjarasamninga og stöðugleika í efnahagslífinu eins og sjá mátti t.d. á þeim fundi sem haldinn var í gær. Ef í ljós kæmi með vorinu að þrátt fyrir þessar aðgerðir stefni hallinn á ríkissjóði í 7, kannski 8, kannski 9 milljarða, hvar er þá öll réttlæting ríkisstjórnarinnar fyrir því að fara í leiðangra upp á 200 millj., 180 millj. gagnvart þessum breiðu þjóðfélagshópum og hvað mun ríkisstjórnin þá gera ef þetta blasir við áður en vorþingi lýkur í maí? Verður þá yppt öxlum og ekki gripið til neinna ráðstafana? Ég teldi skynsamlegra fyrir hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að gera sér nú þegar grein fyrir því hvernig þeir muni bregðast við. Það er alveg ljóst að ef þær tölur koma fram í apríl eða maí mun peningamarkaðurinn ekki hreyfa sig til frekari raunvaxtalækkunar síðar á árinu. Þannig liggur þetta dæmi. Og ef hæstv. forsrh. vill láta taka mark á sér sem stjórnanda landsins og lætur sér ekki bara nægja tignina, þá hlýtur hann að gera þinginu grein fyrir því hér og nú hvernig hann muni bregaðst við.
    Hæstv. forsrh., í ljósi þess að bæði Alþýðusamband Íslands og BSRB og fleiri samtök eins og Kennarasambandið hafa mjög harðlega mótmælt því að skattaðgerðir ríkisstjórnarinnar og breytingar á ýmsum gjöldum hafa skert ráðstöfunartekjur um 2%, vil ég enn fremur spyrja að því hvort ríkisstjórnin sé reiðubúin að taka til baka að hluta til eða alveg þá beinu kjaraskerðingu sem hefur komið í gegnum skattastefnu ríkisstjórnarinnar ofan á þá kjaraskerðingu sem hér kemur til vegna samdráttarins í hagkerfinu. Merkilegt er að þessi ríkisstjórn hins frjálsa hagkerfis hefur ákveðið það varðandi fjárlögin að láta ekki aðeins launafólk taka á sig þá kjaraskerðingu sem verður óhjákvæmilega vegna samdráttar í hagkerfinu heldur einnig til viðbótar sérstaka kjaraskerðingu vegna meiri umsvifa ríkisins.
    Ég hef lýst því hvað eftir annað og geri það enn á ný að eitt mikilvægasta tækið til þess að ná skynsamlegum kjarasamningum og áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu sé annars konar skattastefna. Og ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé reiðubúinn til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins um breytingar á þeirri skattastefnu sem sett var í lög fyrir jólin til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga.
    Þá vil ég einnig spyrja að því, hæstv. forsrh., hvort breyting hafi orðið innan ríkisstjórnarinnar á áformum hennar um flatan niðurskurð. Það hefur vakið athygli að aðstoðarmaður menntmrh., Ólafur Arnarson, sem áður gegndi því trúnaðarmikla starfi að vera framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstfl. --- nú byrja enn á ný skilaboð og flutningur hæstv. fjmrh. gagnvart forsrh. Ég er allur af vilja gerður að sýna þessum ágætu mönnum mikið umburðarlyndi, hvort sem það snýr að símtölum þeirra eða samræðum. En mjög er nú erfitt að koma spurningunum til forsrh. ef fjmrh. þarf sífellt að vera að instrúktera hann um það hvað hann eigi að segja.
    Næsta spurning mín, hæstv. forsrh., víkur að því að aðstoðarmaður menntmrh., Ólafur Arnarson, sérstakur trúnaðarmaður Sjálfstfl. sem gegndi framkvæmdastjórastöðu þingflokksins áður en hann varð aðstoðarmaður menntmrh., lýsir því yfir í Morgunblaðinu sl. laugardag að innan menntmrn. sé unnið að hinum flata niðurskurði á þann veg að aðeins helmingur hans komi til framkvæmda á árinu 1992. Menntmrn. sé að skipuleggja niðurskurðinn með þeim hætti að hann komi til framkvæmda á skólaárinu 1992--1993. Með öðrum orðum, aðeins helmingur hans á fjárlagaárinu 1992.
    Nú er nauðsynlegt að vita það, hæstv. forsrh., ekki aðeins vegna þess að hér virðist um stefnubreytingu að ræða hjá hæstv. ríkisstjórn ef þetta er rétt, ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað, en einnig vegna þess að ef framkvæmdin verður með þeim hætti sem aðstoðarmaður menntmrh. lýsir þá er sú tala sem er í frv. til lánsfjárlaga ekki rétt þannig að þingið verður að breyta tölunni sem sett er í frv. til lánsfjárlaga í samræmi við framkvæmd þessarar stefnu. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að fá skýr svör við því hvort yfirlýsing Ólafs Arnarsonar sé rétt. Hefur hæstv. menntmrh. þar með fengið heimild til þess hjá ríkisstjórninni að vinna að niðurskurðinum með þessum hætti eða stendur hin upphaflega ákvörðun ríkisstjórnarinnar?
    Ég vil einnig spyrja hæstv. forsrh. að því hvað það boði að hér er brtt. á sérstöku þskj. frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur þar sem lagt er til að fjmrh. verði, fyrir hönd ríkissjóðs, heimiluð yfirtaka skulda Framkvæmdasjóðs Íslands að fjárhæð 1,7 milljarðar kr. Nú vill svo til að hæstv. forsrh. er með frv. í þinginu um þetta efni. Hæstv. forsrh. flutti hér framsöguræðu fyrir frv. um Framkvæmdasjóð Íslands. Þar var lagt til að sjóðurinn yrði

lagður niður og málefnum hans komið fyrir með ákveðnum hætti. Ég vil spyrja: Hver er ástæðan fyrir því að nú kemur allt í einu einn þingmaður Alþfl., starfandi formaður í efnahagsnefnd, og flytur þessa brtt.? Mér finnst þetta vera mjög óeðlileg afgreiðsla á því frv. sem hæstv. forsrh. flutti inn í þingið. Það hlýtur að vera lykilatriði að þingið ákveði hvernig eigi að fara með þennan mikilvæga sjóð, Framkvæmdasjóð Íslands, en ekki bara ákveða með tveimur línum í tillögu frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að fjmrh. eigi að yfirtaka skuldirnar fyrir hönd ríkissjóðs. Hæstv. forsrh. hefur opinberlega gerst talsmaður fyrir nýjum vinnubrögðum í meðferð opinberra sjóða og talað fyrir því að þingið eigi að fjalla um þau mál með skýrum hætti og gera það af myndarskap og gera sér grein fyrir því hvað það er að gera.
    Ég vek athygli á því að það er ekki fjmrh. sem flytur tillöguna. Það er ekki forsrh. sjálfur sem flytur tillöguna. Það er ekki meiri hluti efh.- og viðskn. sem flytur þessa tillögu heldur er það einn þingmaður. Ég verð nú að játa það að ég hlustaði ekki á ræðu hv. þm. þar sem hún gerði grein fyrir því af hverju hún flytti þessa tillögu. Það má vera að í ræðu hennar hafi komið fram einhverjar skýringar á þessu atriði. En jafnvel þótt svo væri, vil ég segja við hæstv. forsrh. að mér finnst þetta mjög óeðlileg og sérkennileg afgreiðsla á því máli sem hann kom með inn í þingið. Og ég vil þess vegna biðja hann að fjalla nokkuð um það hver sé aðdragandi þess að tillagan birtist hér eða hvort hún sé bara á persónulega ábyrgð þingmannsins Rannveigar Guðmundsdóttur sem ætla mætti af þingskjalinu.
    Af þessu tilefni vil ég einnig spyrja hæstv. fjmrh., verði þessi tillaga samþykkt, hvort hann ætlar að meðhöndla hana eða beita sér fyrir því að hún verði meðhöndluð með sama hætti og meiri hluti fjárln. lagði til og hv. þm. Pálmi Jónsson talaði sérstaklega fyrir varðandi fjárskuldbindingar ríkissjóðs vegna Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Stjórnarmeirihlutinn í fjárln. á Alþingi og hv. þm. Pálmi Jónsson sem talsmaður þess meiri hluta flutti brtt. um það fyrir áramót í tengslum við fjáraukalög fyrir árið 1990 ef ég man rétt að yfirtaka verðjöfnun á skuldum Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins eða tilteknum lánum yrði meðhöndluð með þeim hætti að hún yrði færð sem bein útgjöld ríkissjóðs á því ári. Ég vakti þá athygli á því og geri það enn frekar vegna þess að í fyrri umræðu fékk ég engin svör og umræðunni var frestað þannig að ég hef engin svör fengið frá hæstv. ríkisstjórn. Verður farið með þessa tillögu verði hún samþykkt með sama hætti og þar var lagt til að hallinn á ríkissjóði, hæstv. forsrh., á árinu 1992 verði aukinn um 1 milljarð og 700 millj. eða tæpa 2 milljarða á grundvelli þessarar tillögu? Ætla hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að lúta þeirri ákvörðun þegar Ríkisendurskoðun birtir yfirlit um mitt ár yfir halla ríkissjóðs fyrstu sex mánuði ársins að verði búið að bæta 1,7 milljörðum við hallatöluna? Ætla hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. þá að standa í einhverju skaki við peningamarkaðinn og útskýra að sú hallatala sem Ríkisendurskoðun mun birta og allt fjölmiðlakerfið kynna og Morgunblaðið lykta í leiðurum sínum og skrifurum eins og það hefur jafnað gert sé marklaus vegna þess að inni í henni séu tæpir 2 milljarðar sem ekki séu ekta og séu allt öðruvísi vaxnir en aðrir tveir milljarðar?
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ríkisstjórn geri sér grein fyrir því að hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gera því að það er ekki hægt að koma í febrúar og samþykkja þá tillögu sem meiri hluti fjárln. lagði til varðandi meðferð hliðstæðra útgjalda fyrir fjáraukalög 1990 og reikna ekki með því að það sama verði gert varðandi yfirtöku á skuldum Framkvæmdasjóðs Íslands. Ég verð að segja eins og er að ég öfunda ekki hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að þurfa að standa í því ofan á þær hallatölur sem munu birtast vegna raunverulegra útgjalda á árinu 1992 að taka þessa 1,7 milljarða inn í töluna líka. Svo að ég dragi þetta upp byggt á minni reynslu og gefi hæstv. forsrh. svona holl ráð; ef Ríkisendurskoðun kæmist að raun um það í júnímánuði að hefðbundinn halli á ríkissjóði í ár stefni í um 8 milljarða, bæti síðan við samkvæmt bókhaldskenningum Ríkisendurskoðunar, sem ýmsir draga að vísu í efa, þessum 1,7 milljörðum vegna þess að það verði búið að samþykkja það á þinginu þá mun Ríkisendurskoðun gefa út svona skýrslu, bláa í hinum ástkæra lit forsrh., og segja í helstu niðurstöðum að halli ríkissjóðs stefni í

tæpa 10 milljarða á árinu. Ætla forsrh. og fjmrh. þá að koma í sjónvarpsstöðvarnar, ríkisfjölmiðlana og blöðin og reyna að útskýra að þetta sé ekki rétt hjá Ríkisendurskoðun? Kannski ætti ég ekki að vera að benda hæstv. ráðherrum á þetta. Kannski ætti ég bara að láta þetta gerast í þinginu og láta þá svo lemja hausnum við vegginn og standa allt í einu í þeim sporum að vita ekki sitt rjúkandi ráð. En ég kýs frekar af heilindum að benda þeim á þetta svo að þeir átti sig á því hvað er vændum.
    Ég vil að lokum, hæstv. forsrh., benda á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem gefin var út í sl. nóvember um framkvæmd fjárlaga til septemberloka fyrir 1991 kemur fram sú niðurstaða að ríkisstjórninni hafi aðeins tekist að ná fram 1 / 3 af þeim áformum sem hún hafði sett sér með aðgerðum sínum í sl. maímánuði. Í skýrslunni segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Stjórnvöld ákváðu á fyrri hluta þessa árs að grípa til sérstakra aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum. Með þeim aðgerðum var stefnt að lækkun útgjalda og lánsfjárþarfar A-deildar ríkissjóðs og annarra opinberra aðila um allt að 6 milljarða kr. Að mati Ríkisendurskoðunar hafa ráðstafanir ríkisstjórnarinnar lækkað fjárþörf A-hluta ríkissjóðs um 2 milljarða kr. auk þess sem lántökur annarra opinberra aðila voru lækkaðar um 500 millj. kr. eða í hæsta lagi 2,5 milljarðar eða 2 milljarðar þegar A-hluti ríkissjóðs er skoðaður einn af þeim 6 milljörðum sem stefnt var að.`` Ég vil spyrja hæstv. forsrh., hver sé skýring hæstv. forsrh. á því að þetta mistókst svona að dómi Ríkisendurskoðunar. Hver er skýringin? Hún hefur ekki komið fram á Alþingi. Hvers vegna spyr ég að því? Það er ekki af sagnfræðilegum áhuga. Það er vegna þess að hæstv. forsrh. hefur nú látið afgreiða fjárlög og er að biðja um afgreiðslu á lánsfjárlögum og þar sem reynslan af fyrstu ríkisfjármálaaðgerðum ríkisstjórnar hans frá því í maí sl. er að dómi Ríkisendurskoðunar bara 33% árangur. Þess vegna hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir okkur, þingið og þjóðina en kannski fyrst og fremst fyrir hæstv. forsrh. sjálfan að svara því hver er skýringin á þessum mistökum á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar og hvað bendir til þess að þau verði ekki endurtekin jafnvel þó það verði bara að hluta. Þá er ég ekki að tala um að það verði bara 33% árangur, en jafnvel þótt hann yrði 60--70%, þá er alveg ljóst að það sem eftir stæði mundi skekkja alvarlega þá efnahagsmynd sem við blasir.
    Ég hef að vísu tekið eftir því að þegar hæstv. forsrh. birtist sem borgarfulltrúi í tilteknu sveitarfélagi á öðrum vígstöðum er hann kominn á þá skoðun að lítið sé að marka þær endurskoðunarstofnanir hins opinbera sem ekki tali við hann og ég veit það fyrir víst að Ríkisendurskoðun hefur ekki talað við forsrh. um þessi mistök á árinu 1991. En hæstv. forsrh. hefur mjög haldið fram hlut Ríkisendurskoðunar í þinginu þó að ég hafi gert við það athugasemdir og bent honum á að það væri ekki allt sannleikur sem þar stæði. Ég vil nota tækifærið til þess að vekja athygli hæstv. forsrh. á því af því að við áttum í nokkurri orðasennu að mig minnir á sumarþinginu, eða kannski var það snemma í haust, um Ríkisendurskoðun og afstöðu Ríkisendurskoðunar til reikninga Byggðastofnunar og Atvinnutryggingarsjóðs. Ég heyri ekki betur en í lokaskýrslu fortíðarvandanefndar hæstv. forsrh. sé nefndin á svipaðri skoðun og ég lýsti þá í umræðunni að Ríkisendurskoðun skuldaði þinginu og þjóðinni skýringar á því hvers vegna hún komst að svo ólíkum niðurstöðum á svo skömmum tíma.
    Virðulegi forseti. Þetta eru nokkrar spurningar sem snerta kjarnann í framkvæmd þeirrar efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita sér fyrir á þessu ári og ég teldi það greiða mjög fyrir framgangi mála í þinginu og áframhaldandi umræðum að hæstv. forsrh. sem ábyrgðarmaður efnahagsmála í ríkisstjórninni gæfi þinginu nokkur svör við þeim spurningum sem ég hef borið fram.