Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 15:22:00 (2733)

     Steingrímur Hermannsson :
     Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að segja nokkur orð við hæstv. forsrh., mér er sagt að hann sé í húsinu, og þar sem þessi ræða á að vera mjög stutt ætla ég að bíða. Ég get að vísu notað tímann og sagt fáein orð við hæstv. fjmrh. Ég get a.m.k. óskað honum til hamingju með þessa miklu vaxtalækkun. Þjóðin bíður spennt veit ég eftir þeirri skriðu sem á eftir mun fylgja. Var hún ekki 0,2%? ( Fjmrh.: Það er þröng merking.) Margir hafa tekið minni skref. Þetta er stórkostlegt. Hins vegar verð ég að segja eins og er á meðan ég bíð eftir hæstv. forsrh. að ég á erfitt með að finna nokkra efnahagsstefnu í þessu frv. nema þessa sem ekki stendur þar skrifuð en fjmrh. hefur lýst yfir að vaxtalækkun sé hafin. Ég ætla að bíða með að ræða meira um stefnuna alla þangað til við fáum bandorminn, efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinar eins og það heitir og mikil ástæða er til að ræða mjög ítarlega. En ég læt nægja á þessu stigi að óska hæstv. fjmrh. til hamingju með þessa vaxtalækkun og bíð eftir hæstv. forsrh. ( Forseti: Það er verið að ná í hæstv. forsrh.)
    Hæstv. forsrh. gengur í salinn. Í sambandi við þetta mál liggur fyrir brtt. frá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni um ríkisábyrgð vegna síldarsölu til Sovétríkjanna og reyndar var þetta mál til umræðu á Alþingi í stuttri utandagskrárumræðu í gær. Mér þótti þar ekki þannig haldið á málum eða þannig skýrt frá af hæstv. ráðherrum að unnt sé að láta þar við sitja. Það kom mjög ákveðið fram í orðum hæstv. forsrh. að ekkert væri því til fyrirstöðu og

hann teldi reyndar sjálfsagt að Landsbankinn endurskoðaði sína afstöðu. Það væri ekkert í bréfum hæstv. viðskrh. sem gæfi bankanum tilefni til að hætta við ef hann hafði hugsað sér að veita umbeðið lán. Mér heyrðist einnig, þótt það væri ekki jafnskýrt, það sama koma fram í orðum hæstv. viðskrh., sem vitanlega hefði verið mjög gott að hafa hér en hann er fjarverandi og ég geri ekki kröfu til þess að hann verði sóttur. Hér finnst mér fara nokkuð á milli mála. Ég tel að eina leiðin til þess að fá þetta skýrt fram sé að birta þessi bréf og ég vil með örfáum orðum óska eftir því við hæstv. forsrh. að hann beiti sér fyrir því að bréfin verði birt. Staðreyndin er sú að viðskrn. leitaði umsagnar Seðlabanka Íslands og sömuleiðis umsagnar Íslendings sem er starfandi erlendis. Báðar þessar umsagnir fylgdu bréfi viðskrn. og voru gerðar að svari viðskrn. í raun. Ég hygg að þegar menn sjá efni þessara bréfa verði þeim ljóst að þar er lagst mjög gegn því að umrædd fyrirgreiðsla verði veitt.
    Ég skal ekkert um það segja hvort rétt hefði verið að leita þessrar umsagnar. Reyndar var ekki farið fram á ríkisábyrgð, eins og sagt er, heldur spurt um viðhorf hæstv. ríkisstjórnar. T.d. hefði hæstv. ríkisstjórn getað sagt að hún telji þessi viðskipti mikilvæg, það hefði út af fyrir sig verið viðhorf, og hún telji rétt að gera það sem fært er til að stuðla að þeim, það hefði náttúrlega verið viðhorf. En svo var ekki þegar þetta er skoðað í heild sinni með þeim umsögnum sem þarna liggja fyrir.
    Ég sagði að það væri vafasamt að leita svona umsagnar hjá ríkisstjórn sem hefur þegar lýst því yfir að atvinnulífið komi henni ekki við. ,,Mér-kemur-þaðekki-við``-ríkisstjórn, segir almenningur í dag. En þetta var gert og eftir að svar berst er málið að sjálfsögðu orðið miklu erfiðara viðfangs.
    Erindið í þennan ræðustól var eingöngu það að óska eftir því við hæstv. forsrh. að bréf þessi verði birt án tafar.