Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:04:00 (2746)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Sá þingmaður sem vekur þessa umræðu hefur átt sæti í stjórnarnefnd Ríkisskipa. Á sl. ári fengu Ríkisskip 169 millj. kr. samkvæmt fjárlögum og sérstakan styrk upp á 586 millj. kr. á árinu 1990. Á sl. ári nam styrkur til Ríkisskipa ríflega 130 millj. kr. samkvæmt fjárlögum og afgreidd sérstök beiðni um 100 millj. kr. aukafjárveitingu til þessa fyrirtækis. Nú talar sá hv. þm. sem hefur átt sæti í stjórnarnefnd Ríkisskipa um það að auðvelt sé að stofna hlutafélag á arðsemisgrundvelli um þetta fyrirtæki og rekstur þess eins og hann hefur verið. Er hann með því að gefa í skyn að hægt sé að halda því þjónustustigi á þær hafnir sem Skipaútgerðin hefur siglt til sem verið hefur og þó þannig að ríkið komist hjá því að greiða með því háar fjárfúlgur. Ég get ekki annað en harmað að hv. þm. skyldi ekki hafa komið rökstuddum hugmyndum sínum um þetta efni til mín fyrr þegar hann hafði svigrúm til þess.
    Að öðru leyti vil ég segja um Skipaútgerðina að legið hefur fyrir svo mánuðum skiptir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að draga saman eða hætta rekstri Skipaútgerðar ríkisins. Opinber framlög til hennar sl. 10 ár nema milli 800 og 900 þús. kr. á dag og það er auðvitað niðurstaða sem er með öllu óviðunandi. Þeir menn sem stóðu í forsvari fyrir þeirri nefnd sem hefur reynt að undirbúa stofnun hlutafélags að kannski einum eða tveim undanteknum hafa verið kunnugir þessum málum. Þeir fengu ákveðinn frest til þess að skila inn tilboðum en nú sl. mánudag lágu engin slík efnisatriði fyrir sem gætu réttlætt það að ég stofnaði í tvísýnu að starfsfólk Skipaútgerðar ríkisins fengi atvinnu við þann rekstur sem Samskip hafa ákveðið að taka upp á Austurlandi. Þau hafa óskað eftir því að ná samningum um rekstur Esju. Að öðrum kosti munum við leita út fyrir landsteinana að skipi til að annast þessa þjónustu.
    Mér þykir leiðinlegt að tími minn skuli vera svo naumur og þetta fundaform með þeim hætti að ógerningur er að gera grein fyrir jafnflóknu máli og hér um ræðir en ég vil líka vekja athygli á því, hæstv. forseti, að þetta mál bar á góma í umræðum fyrr í dag og

þá hefði hv. þm. verið auðvelt að leggja fram frekari spurningar. Þá var nægur tími til að ræða málið á efnislegum grundvelli.