Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:07:00 (2748)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er mjög slæmt að ráðherra skuli ekki hafa lengri tíma til að svara í málinu. Upphaf málsins var heldur ógæfulegt að það var ekki hægt að bíða eftir fjárlagagerð með fyrirskipanir um að veikja þetta fyrirtæki, taka markaðsstarfsemi úr sambandi og setja eignir á sölulista. Auðvitað veikti þetta fyrirtækið strax. Síðan er tekin ákvörðun um að selja Skipaútgerðina í smásölu og ég vil spyrja: Hvað verður með samband á milli Norðurlands og Austurlands ef þessi áform ganga fram? Hvað verður með þá staði á Vestfjörðum sem hafa engar aðrar samgöngur? Hvað þýða yfirlýsingar um að flóabátar geti tekið þessi verkefni að sér? Hefur samgrh. mat á því hvort flutningsgjöld muni hækka vegna þessara aðgerða og hvaða stefna verður tekin upp í flutningastyrkjum þegar þetta fyrirtæki er selt og lagt niður? Verður haldið áfram með ferjurnar? Verður haldið áfram með flóabátana? Verður hætt að veita flutningastyrki í dreifbýlinu? Verður það framhaldið á þessu máli?