Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:09:00 (2749)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Hæstv. forseti. Ég vil fyrst gera grein fyrir afskiptum mínum af málunum sem eru til umræðu utan dagskrár. Það gerðist þannig að starfsmenn í Ríkisskipum komu á fund minn og spurðu hvort ég væri tilleiðanlegur að aðstoða þá við samningsgerð um þetta verkefni, kaup á Skipaútgerðinni sem almenningshlutafélagi þar sem væru starfsmenn, viðskiptavinir og síðan almenningur. Ég tók mér frest til svara og bar málið að sjálfsögðu undir hæstv. samgrh., flokksbróður minn, sem sagði strax að það væri stefna hans að breyta fyrirtækinu í almenningshlutafélag og hann hefði síður en svo á móti því að ég tæki þetta að mér. Síðan hefur mikið starf verið unnið. M.a. hefur verið rætt við forustumenn Samskipa sem hafa á prjónunum almennt hlutafjárútboð, einnig um hugsanlegt samstarf og jafnvel sameiginlegt átak til að koma á fót talsvert öflugu skipafélagi sem keppt gæti við risann, Eimskipafélagið, bæði í strandsiglingum og á milli landa. Þessar viðræður við Samskip voru mjög ánægjulegar og þar var töluð íslenska á báða bóga.
    Hæstv. samgrh. og Benedikt Jóhannesson, sem ráðherra hefur skipað formann stjórnarnefndar Ríkisskipa, tóku þá upp samningaviðræður við Samskip þó að öðru hefði verið heitið. Vel má vera að úr þessu máli rakni og vona ég það svo sannarlega. Þegar við í nefndinni skildum við ráðherra í gær spurði ég hann ítrekað hvort málinu væri lokið eða hvort við gætum fengið frest þótt styttri væri en þær tvær vikur sem við höfðum farið fram á. Hann svaraði þá á þá leið að menn gætu alltaf talað saman. Mér er ljúft að lýsa því yfir og hygg að ég tali fyrir hönd undirbúningsnefndarinnar allrar að við erum reiðubúnir að halda áfram viðræðum bæði við ríkisvaldið og Samskip um málið og ég vona að það megi leysast farsællega. Að öðrum kosti hlýtur það að koma til kasta Alþingis.