Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:14:00 (2751)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Virðulegi forseti. Kjarni þessa máls er sá að áfram verði tryggð sú þjónusta við afskekktar byggðir landsins sem Skipaúterð ríkisins, Ríkisskip, hefur tryggt hingað til. Þeirri óvissu verður að eyða sem nú er ríkjandi, bæði fyrir þá sem treyst hafa á þessa flutninga og notið hafa þjónustunnar og þeirri óvissu sem fyrir hendi er hjá starfsfólki Skipaútgerðar ríkisins. Tíminn er naumur og það á sérstaklega við núna. Ég treysti því að hæstv. samgrh. vinni svo að málinu að þetta verði haft að leiðarljósi.
    Ég vil taka fram að Skipaútgerð ríkisins hefur veitt mjög góða þjónustu í gegnum tíðina. Þessi þjónusta hefur að mati margra verið ódýr fyrir þá sem hennar hafa notið en dýr fyrir ríkissjóð. Það kemur m.a. fram í tilboði um þjónustusamning, samningi um stofnun hlutafélags um strandsiglingar, þar sem þeir bjóðast til þess að sinna þessari þjónustu fyrir 158 millj. kr. Það er ekki óeðlilegt að hæstv. samgrh. reyni að leita annarra leiða, hefja viðræður t.d. við Samskip til þess að kanna hvort þessum markmiðum, sem ég lýsti í upphafi, verði náð án þess að það kosti jafnmikið og þjónustutilboð hlutafélagsins hljóðar upp á. Ég treysti hæstv. samgrh. til þess að leiða málið til lykta og eyða þeirri óvissu sem nú ríkir.