Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:16:00 (2752)

     Valgerður Sverrisdóttir :
     Hæstv. forseti. Hér er til umræðu eitt af þessum vandræðamálum sem hæstv. ríkisstjórn fæst við. Er gott að fá það til umræðu og heyra um stöðu mála frá hæstv. samgrh. og hvað hann hugsar sér að taki við sem þjónusta við landsbyggðina verði Ríkisskip lögð niður. Eftir því sem ég skildi orð hans áðan þá hafði hann ekki mikið hugsað út í það.
    Síðan eru það vinnubrögðin sem hæstv. samgrh. hefur viðhaft í málum Ríkisskipa sem er ástæða til að gera að umræðuefni. En fyrst er það þjónustan við dreifbýlið. Á allra seinustu árum hefur þróunin verið sú að ýmis fyrirtæki hafa verið að færa flutninga sína meira yfir á sjóleiðina og hefur það þýtt lægra vöruverð. Mér eru hvað efst í huga samgöngurnar á milli Norðausturlands og Austurlands sem hér hafa áður verið gerðar að umræðuefni. Það skiptir gífurlegu máli fyrir Akureyri að samgöngur séu greiðar til Austurlands og það skiptir líka miklu máli fyrir Austurland að hafa greiðar samgöngur við Akureyri. Þetta hefur margoft komið hér fram á hv. Alþingi. Og ég veit að hæstv. ráðherra er mjög vel kunnugt um það. Hann hefur haldið margar ræður á hv. Alþingi sem 2. þm. Norðurl. e. um þetta mál þar sem hann hefur deilt á stjórnvöld fyrir að sinna ekki samgönguþættinum, sérstaklega á milli þessara ákveðnu landshluta.

    Nú hefur hv. 2. þm. Norðurl. e. hlotnast það mikilvæga verkefni að fara með framkvæmd samgöngumála í landinu. Það er því með ólíkindum ef hæstv. samgrh. ætlar í sinni ráðherratíð að gera samgöngur enn erfiðari á milli þessara landshluta en þær hafa verið áður og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að sú verði raunin.
    Um vinnubrögðin við að leggja Ríkisskip niður er helst að segja að það er frekar óvanalegt, þegar menn hyggjast selja fyrirtæki, að þeir dragi úr þeim tennurnar eina og eina áður en fyrirtækið er auglýst til sölu. Þetta hefur verið raunin með Ríkisskip.
    Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti, að að sjálfsögðu er fyrirtækið sem slíkt ekki aðalatriðið í þessu efni heldur að áfram verði haldið uppi þjónustu við minni staði á landinu og landsbyggðina sem Ríkisskip hafa sinnt til þessa.