Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:19:00 (2753)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Mér sýnist alveg ljóst því miður að þetta mál stefni í hið versta óefni. Auðvitað var það ógætilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að loka fjárlögunum án þess að hafa nokkra krónu handa í millum til þess a.m.k. að sjá fyrir þessari þjónustu þangað til einhver botn og einhver niðurstaða fengist í tilraunir hæstv. samgrh. til að endurskipuleggja þessi mál. Sú vinna er að sjálfsögðu góðra gjalda verð og hefur reyndar staðið yfir svo lengi sem elstu menn muna, að reyna að draga úr útgjöldum vegna þessara samgangna. En fram að þessu hafa menn sem betur fer haft það að leiðarljósi að skerða ekki þjónustuna. Henni skyldi haldið uppi og á viðráðanlegu verði. Því miður virðist nú skorta þessi viðhorf og er þá ekki von að vel fari.
    Hér eru á ferðinni afar mikilvægar samgöngur og því miður er það svo að nú þegar stefnir í verri þjónustu fyrir ákveðin svæði á landsbyggðinni, t.d. Norðausturland og milli landshluta. Sérstaklega óttast ég að það svæði sem fjærst liggur Reykjavík og er þar af leiðandi lengst frá þessu svæði á hringnum, svæðið frá Húsavík til og með Vopnafirði, verði þarna út undan.
    Eitt það alvarlegasta við þetta mál er sú staðreynd að möguleikar landshlutanna til að eiga innbyrðis viðskipti eru mjög tengdir því að þarna sé um heilan hring að ræða með flutningum fram og til baka. Þær breytingar sem nú blasa við geta einfaldlega leitt af sér að það lokist á möguleika á innbyrðis viðskiptum milli Vestfjarða, Norðurlands og Austurlands og þessir landshlutar neyðist til þess að færa þau viðskipti sem þeir hafa áður átt innbyrðis til Reykjavíkur. Það væri dapurleg niðurstaða fyrir hæstv. núv. samgrh. að standa frammi fyrir. Hér er sem sagt á ferðinni, hæstv. forseti, stóralvarlegt mál. Að mínu mati er óhjákvæmilegt að samgn. Alþingis taki það þegar til umfjöllunar og skoðunar á sjálfstæðum forsendum og hæstv. samgrh. veiti samgn. þingsins allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru í því sambandi.